17.11.1937
Efri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (1729)

50. mál, drykkjumannahæli

*Bjarni Snæbjörnsson:

Það voru nokkur atriði í ræðu hv. 3. landsk., sem mig langar til að fara nokkrum orðum um. Hann var að tala um þá breyt., sem orðið hefði á skoðunum þeirra Helga Tómassonar og landlæknis á þessum málum. Það má vel vera, að það hafi orðið svona miklar breyt. á skoðunum þessara manna, en ég hefi þó ekki heyrt það annarsstaðar frá, að svo sé og að þeir ekki álitu drykkjumannahæli sjálfsagðar stofnanir. Hvað viðvíkur því, að hv. 3. landsk. talaði um, að það væri miklu nær að senda slíka vandræðamenn upp í sveit heldur en á drykkjumannahæli, þá er það einmitt tilgangur slíkra hæla að sortera menn þannig, að segja til um, hvort þeir eigi að vera á þessum eða hinum staðnum.

Viðvíkjandi þeirri andúð, sem talað er um, að menn hafi á drykkjumannahæli, þá er það gefinn hlutur, að vissir menn hafa alltaf andúð á slíkum stofnunum; það eru þeir menn, sem þangað eru látnir fara, eða eru hræddir um, að þeir lendi þangað. Það skapast ætíð andúð hjá þeim mönnum, sem þarf að þvinga til að fara á sjúkrahús. Það er vitað mál, að hinir holdsveiku höfðu mikla andúð gegn Laugarnesspítala, er hann kom til sögunnar, og eins var með berklahælið á Vífilsstöðum; sjúklingarnir fengu andúð á því. Ef það er yfirleitt álitið nauðsynlegt, að einhver maður breyti öðruvísi en hann sjálfur vill breyta, ef þjóðfélagsnauðsyn er fyrir því, þá þýðir ekki að láta undir höfuð leggjast að gera nauðsynlegar ráðstafanir eingöngu af hræðslu við andúð mannsins. Ég álít, að ekki sé rétt að kalla það þvíngunarráðstafanir, þó reynt sé að afstýra þjóðfélagsböli, heldur sé það réttmætt verk og sjálfsagt.

Hvað kostnaðinum viðvikur má vel vera, að ríkissjóði sé örðugt að reisa svona hæli. Ég veit ekki, hvað mundi kosta að reka slíkt hæli í sveit, en ef fenginn væri duglegur maður til að reka búskap til afnota fyrir stofnunina, er líklegt, að reksturinn þyrfti ekki að vera svo afardýr. Og hvað snertir lækniseftirlit mætti koma því þannig fyrir, að héraðslæknirinn í því héraði, þar sem hælið væri, hefði meiri þekkingu en aðrir læknar á geðveikisjúkdómum og að hann svo hefði umsjón með hælinu án verulegs aukakostnaðar fyrir það opinbera. En ég efast um, að nokkurt gagn verði að því að samþ. dagskrártill. Ég álít hana til einskis gagns, — álít 15 til 25 þús. kr. sama sem ekkert fé í því skyni, því enginn einstakur maður mundi fyrir þá upphæð vilja skuldbinda sig til að taka á móti þessum mönnum og leggja þeim til nægilegt húsnæði og framfærslu í heilt ár. Það hlýtur hver maður að sjá, að enginn mundi til þess fást nema sá, sem hreint og beint vildi offra til þess sínu eigin fé vegna málefnisins, en það eru litlar líkur til, að slíkur maður fyndist. Sú afgreiðsla á málinu að samþ. þessa dagskrá er því ekki annað en lítilsháttar friðþæging fyrir samvizku þeirra manna, sem eru á móti því, að ríkissjóður leggi fram fé til að byggja drykkjumannahæli, sem hann er þó í sjálfu sér skyldugur til að gera vegna þeirra tekna, er ríkissjóður hefir af áfengissölunni, — þeirra manna, sem vilja hirða ágóðann, en forðast útgjöldin, en sjá þó hinsvegar nauðsynina. Það er rétt hjá hv. 3. landsk. að þessi l. væru ekki annað en pappírslög, ef þeim fylgdi engin fjárveiting, en alveg á sama hátt verður þessi rökst. dagskrá aðeins pappírsgagn, þó veittar yrðu einar lá þús. kr. samkv. henni.