23.10.1937
Neðri deild: 9. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (1737)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

*Einar Olgeirsson:

Hv. þm. G.-K. gaf tilefni til þess, að farið væri út í nokkuð almennar umr. viðvíkjandi þeirri stefnu, sem kemur fram í þessum og sumum öðrum frv. Sjálfstfl. Það er enginn efi á því, að þetta eru allt ágæt mál, og Sjálfstfl. gerir vel að flytja þau, jafnvel þótt aðrir hafi flutt þau áður, og ég álít rétt að styðja slík mál, hvaðan sem þau koma. En nú rekum við okkur á það, fulltrúar hinna flokkanna, að ef við samþ. þessi frv., mundum við koma ríkinu á hausinn, ef ekki á þessu þingi, þá áreiðanlega á því næsta. Það er enginn vafi á því, að við þurfum að fá okkar niðursuðuverksmiðjur, sementsverksmiðjur, hitaveitur, skip og aftur skip, og það ætti ekki að hindra okkur kommúnista og jafnaðarmenn í að fylgja þessum málum, þótt Sjálfstfl. beri þau fram. Jafnvel ekki þótt hann kæmi með till. um ríkisrekstur. Við ættum ekki að verða sérstaklega hræddir við það. En hversu mikla velvild og sanngirni, sem við viljum sýna, verðum við að fara fram á, að þessi flokkur bendi á einhverjar tekjuöflunarleiðir í þessu sambandi. Hv. þm. G.-K. komst svo að orði, að alltaf yrði daprara og daprara framundan fyrir atvinnuvegunum, einkum sjávarútveginum. Mun það batna með því að rýra tekjur ríkissj. og auka útgjöld hans? Við vitum líka, hvernig útlitið er í heiminum. Það er nú komið á það stig, að við vitum, að það er kreppa í aðsigi, og hún verður mun ömurlegri en sú, sem hefir staðið frá 1932. Það tímabil, sem samsvarar blómatímabilinu fram til 1929–1930, er liðið; það hefir bara verið jafnömurlegt hinum árunum. Hvernig getur því nokkrum dottið í hug, að ríkið geri nokkuð, sem minnkar tekjur þess, en eykur útgjöld og dregur úr tolltekjum þess? Þetta getur enginn látið sér detta í hug, sem fylgist með þróuninni. Og þegar sá hv. þm., sem réttilega segir, að mjög sé dapurt framundan, lætur sér detta í hug að bera fram þessi frv., sem hér eru komin, þá held ég, að sé kominn tími til að athuga „principið“ í þessu, hvort rétt sé að bera fram frv., sem auka útgjöldin, án þess að benda á leiðir til þess að framkvæma þau. Ég veit, að það er algeng kosningabeita að bera fram slík frv. hér og segja svo á framboðsfundum: „Við sjálfstæðismenn börðumst fyrir þessu“. Og svo er sagt: „Það er íhaldið í þinginu, sem alltaf er með þessi rök, að tekjur og gjöld þurfi að standast á, og vill aldrei samþ. það, sem við róttæku sjálfstæðismennirnir berum fram“. Þetta virðist yfirleitt vera farið að snúast allmikið við í höfðinu á hv. flm. Það er enginn vafi á því, að frv. um að afnema alla skatta og tolla og hækka svo útgjöld ríkissjóðs mundu verða afskaplega vinsæl, en hversu viturlegt það væri og hvort fólkið mundi trúa því, er vafasamt. Það er alltaf óvinsælt að bera fram frv. um nýja skatta, jafnvel þótt þeir séu á þá ríku. Nú er kominn tími til þess að athuga, hvaða breyting það er, sem er að verða á stærsta stjórnmálaflokki landsins, Sjálfstfl., sem hefir 40% kjósenda að baki sér. Yfirleitt er þeirri reglu fylgt, að bera fram einhverja till. til tekjuöflunar um leið og bornar eru fram till. til útgjalda. Ég er að vísu hér og óreyndur hér, en mig langar til þess að spyrja þá, sem kunnugri eru, hvort það sé vanalegt, að þm. beri fram frv., sem auka útgjöld, án þess að benda á tekjuöflunarleiðir jafnframt. Eftir því, sem mér er kunnugt um sögu þingmála, þá var það ekki vanalegt áður fyrr. Og mér er kunnugt um það, þar sem ég hefi starfað með sjálfstæðismönnum áður, eins og í bæjarstj. Rvíkur, að þar koma þeir ekki fram með till. til aukinna útgjalda án þess að sýna fram á, hvaðan tekjurnar eiga að koma, og andstöðuflokkarnir í bæjarstj. Rvíkur koma ekki heldur fram með slíkar till. Þegar síðasta fjárhagsáætlun Rvíkur kom út, mun enginn andstöðuflokkurinn hafa komið þar með slíkar till. án þess að sýna fram á tekjuöflunarleiðir um leið. Hver einasti andstöðuflokkur í bæjarstj. Rvíkur leit svo á, að tekjur og útgjöld yrðu að standast á, en þessari aðferð lætur Sjálfstfl. sér sæma að breyta. Ég lít svo á, að þessi frv. séu tákn þess, að Sjálfstfl. sé að breytast úr borgaralegum íhaldsflokki í fasistaflokk. Það er einmitt einkenni fasistaflokkanna að segja: þessi og þessi mál viljum við framkvæma, og gera svo ekkert. M. ö. o.: Það er lýðskrum. Það er það, sem Sjálfstfl. er að gera. Það er brask í því fólki, sem er huglausast og ábyrgðarlausast í þessum efnum. Það er enginn vafi á því, að fyrir þá flokka hér á Alþingi. sem vilja vernda lýðræðið, er full ástæða til að gera sínar ráðstafanir út af þessum tilraunum. Þetta þýðir, að það er verið að reyna að spilla okkar þjóðlífi. Þessi flokkur reynir að fleyta sér á ábyrgðarlausu lýðskrumi, í stað þess að koma með skynsamlegar till., og er það skýr bending um. hvert hann stefnir. Það er ekki von, að þessi flokkur kæri sig um að koma með till. um að taka tekjurnar af þeim ríku, því innan hans eru helztu fulltrúar íslenzku auðmannastéttarinnar, og ekki vilja þeir taka þær með tollum, sem koma harðast niður á þeim fátæku, því þeir þykjast einmitt vera fulltrúar þeirra.

Ég álít ekki, að Sjálfstfl. standi sem heild að slíkum till., heldur álít ég, að það sé greinilegur tvískiptingur þar um þetta mál. Það er sá armur hans, sem hallast meir og meir að fasistískum aðferðum og tekur lýðskrumið meir og meir í sína þjónustu, sem stendur að þeim. Ég veit, að það er fjöldi manna innan Sjálfstfl., sem eru á móti þessum aðferðum og álíta þær hættulegar. Því er nauðsynlegt og rétt fyrir þá, sem vilja styðja lýðræðið, að hafa samvinnu við þá innan flokksins, sem sjá hættuna, á móti þeim, sem gera leik að því að spilla þjóðlífinu. Það verður að stöðva hér í tíma þetta fasistíska lýðskrum hjá vissum hluta Sjálfstfl., en framkvæma það, sem nýtilegt er í till. þeirra. Til viðreisnar sjávarútveginum er aðeins ein leið. Hún er að fá meira auðmagn til hans. Þetta auðmagn er til í landinu. Það er í verzluninni. Samkv. síðustu skýrslum eru 108 millj. kr. velta í verslun landsins, en aðeins 22 millj. kr. í sjávarútveginum. Með því að takmarka gróðamöguleika í verzluninni er enginn efi á, að knýja má auðmagníð til sjávarútvegsins. Og aðferðin til þess er m. a. að tryggja útvegsmönnum sjálfum yfirráð yfir þeim gjaldeyri, sem þeir þurfa til rekstrar síns, fyrir kolum, salti og olíu o. s. frv. Og ríkið á ekki einungis að hjálpa samvinnufélögum útvegsmanna, heldur líka að berjast með þeim á móti valdi hringanna, sem hafa verzlað með þessar vörur. Þetta álit ég, að verði sá sparnaður fyrir sjávarútveginn, sem getur bætt kjör útvegsmanna og sjómanna, en til þess að hann náist verður að brjóta á bak aftur vald verzlunarauðvaldsins á Íslandi, vald hringanna. Það er enginn vafi á, að það þarf aðstoð ríkisins til þess að bæta hag sjávarútvegsins, og jafnvel gæti komið þar til greina ríkisrekstur. Spursmálið er aðeins, að honum sé bjargað úr höndum hringavaldsins og séð fyrir fjármagni, en það er vafasamt, að það mundi takast með því að gera kröfur um, að ríkissjóður leggi sjávarútveginum 3–4 millj. án þess að nokkur viðleitni sé á að sýna, hvaðan eigi að taka þær. Það er raunar auðséð, hvar á að taka þær, þegar einstaklingar innan verzlunarstéttarinnar græða um 4 millj. kr. Þar er auðmagnið, sem á að fara til sjávarútvegsins.