23.10.1937
Neðri deild: 9. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (1739)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

*Flm. (Ólafur Thors):

Ég þarf ekki að tala langt mál, því að sumpart eru þau ummæli veigalítil, sem hafa komið fram gegn frv., og sumpart hefir 6. þm. Reykv. tekið nokkuð fram af því, sem ég hefði ástæðu til að geta um.

Út af ræðu hv. 3. þm. Reykv. mun ég bæta nokkru við það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði. Það er eftirtektarvert, að í upphafl máls sins lagði þessi hv. þm. áherzlu á það að láta skina í, hvað um lík frv. væri að ræða. Það var eiginlega meginatriðið fyrir honum að mála það út, að þetta frv. væri lítið og ómerkilegt. Við, sem kunnugir erum þessum málum, vitum vel, til hvers þetta er sagt. Það er ekki af því, að þessi maður viti ekki betur, — þó að hann sé nú leiðinlega ókunnugur sjávarútvegsmálunum. Ég sagði leiðinlega ókunnugur, vegna þess að það er leitt, að maður, sem er kallaður formaður fiskimálanefndar, skuli hafa þekkingu af jafnskornum skammti eins og raun ber vitni. Hitt er eðlilegt, að hann hafi ekki meiri þekkingu, því að hans menntun — sem ég ætla ekki að gera lifið úr — liggur á allt öðru sviði. Ég segi, að þetta er engan veginn af því, að þessi maður, jafntakmarkaða þekkingu sem hann hefir á sjávarútvegsmálum, viti ekki vel, að þetta frv. getur leitt mikla blessun af sér fyrir sjávarútveginn, og raunar fleiri, heldur af hinu, að hann hefir ríkt í huga að gera sem minnst úr öllum málum, sem við sjálfstæðismenn berum fram. Því að eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði, þá fer fylgi við málin of mikið eftir því, hver er upphafsmaður málsins. Það er meira en broslegt þegar þessi hv. þm. er að reyna að láta það líta þannig út að við sjálfstæðismenn séum að tína spörðin frá Alþfl. með því að flytja á Alþingi frv. um viðreisn sjávarútvegsins. Sósíalistar gerðu sig að athlægi á öllum þingmálafundum í sumar með skrafi um frumvörp þau, er þeir hrúguðu niður í lok síðasta þings um alhliða viðreisn sjávarútvegsins. Þeir tuggðu þar upp frv., sem við sjálfstæðismenn höfðum borið fram, en þeir greitt atkv. á móti. Þegar við svo höldum áfram baráttu okkar fyrir viðreisn sjáv.útvegsins, þá vill hv. þm. láta lita svo út, að við séum að taka upp frv. þeirra. Þetta er ekki hægt að gera með góðum árangri hér á Alþingi, og kosningarnar í sumar sýndu, að það er ekki heldur hyggilegt á þingmálafundum. Skrípaleikur sósíalista í lok síðasta þings hafði engin áhrif. Þeir fengu makleg málagjöld í kosningunum, og þá einkum í Reykjavík og nágrenni. — Einn hv. þm. fann frv. það til foráttu, að ekki væri tekið fram í því, hvað það væri, sem sjóða ætti niður. Það stendur í frv., að það eru sjávarafurðir, sem sjóða á niður; á því þarf ekki að vera neinn vafi. Það eru meira að segja taldar upp í grg. frv. ákveðnar fisktegundir, er bezt væru fallnar til niðursuðu.

Hv. þm. sagði, að fiskimálanefnd væri að rannsaka þetta mál, og væri ekki von, að hún væri komin lengra á veg með það en raun ber vitni. Ég get tekið undir það, að ekki sé von til þess, að hún sé komin lengra á veg með málið, enda þótt hún hafi nú starfað í þrjú ár, og afrek hennar á öðrum sviðum ættu ekki að hafa tafið hana frá þessu starfi. En fiskimálanefnd er ekki sá rétti aðili til að hafa þetta mál með höndum, né önnur vandasöm stórmál sjávarútvegsins.

Það var hlálegt, þegar þessi hv. þm. var að vara við þeim miklu fjárútlátum, sem frv. hefði í för með sér, en taldi jafnframt, að enginn mundi fara að leggja út í þær framkvæmdir, sem frv. fjallar um, vegna þess hve rannsókn sé stutt á veg komin. Ef það væri víst, að enginn þyrði að leggja út í framkvæmdirnar, þá sé ég ekki, að ástæða sé til að óttast fjárútgjöld þess vegna. Ber þetta vott um, að gagnrýnin á frv. er meira gerð af vilja en mætti.

Hv. þm. vildi fá meira fé veitt til fiskimálasjóðs. Ég held, að vissara væri að fá fyrst upplýsingar um það, hve vel því fé hefir verið varið, sem sjóðnum hefir nú þegar verið lagt, áður en lengra er farið.

Ég ætla þá að víkja að hæstv. fjmrh. Hann hélt því fram, að núv. stjórn hefði gert meira fyrir sjávarútveginn en nokkur önnur stjórn, og þannig gengið þá braut, sem við sjálfstæðismenn bentum á. Ég veit, að hæstv. fjmrh. er það töluglöggur maður, að honum er ljóst, að núv. stjórn hefir síður en svo hlúð að sjávarútveginum; hún hefir þvert á móti rifið niður þennan atvinnuveg og gert þar meira ógagn en á öðrum sviðum. Allt, sem til útvegs þarf, er nú margfalt dýrara en áður. Nokkuð af þessari verðhækkun kemur af almennri hækkun á erlendum markaði, en langmest er hækkunin þó til komin fyrir tvennar ráðstafanir, er núv. stjórn hefir gert, en það er almenn tollahækkun. er komið hefir niður á þessum vörum, og innflutningshöftin. Það er ekki heldur fyrir að synja, að ýmsar ráðstafanir til verndunar innlendum iðnaði hafa orðið til þess að hækka verðið á ýmsum notaþörfum sjávarútvegsins; t. d. á þetta við um verðlag á línum.

En þyngstu rök hæstv. ráðh. gegn frv. og stefnu Sjálfstfl. í þessum efnum eru þau, að það sé óforsjált að bera fram till., er hafa í för með sér aukin útgjöld úr ríkissjóði, án þess að látnar séu fylgja tillögur um samandrátt á öðrum gjöldum ríkissjóðs eða bent á nýja tekjustofna. Ég gerði rækilega grein fyrir stefnu okkar í þessum málum í fyrri ræðu minni, en ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. hefir heyrt hana. Ég mun þó ekki endurtaka hana hér, til að þreyta ekki þingheim, aðeins benda hæstv. ráðh. á það, að miklir möguleikar eru á því að gera allt í senn, að fella niður vissar tekjur ríkissjóðs og auka viss útgjöld, og hafa þó tekjuhallalausan búskap vegna þess aukna framtaks í landinu, sem slíkar ráðstafanir hefðu í för með sér. — Hæstv. ráðh. veit það, að í sæmilegu verzlunarárferði fara tekjur ríkissjóðs margar millj. fram úr því, sem nú er. Sannanirnar fyrir þessari skoðun hefir hæstv. ráðh. sjálfur lagt fram hér í þessum sal fyrir nokkrum dögum, er hann við 1. umr. fjárl. lagði fram skýrslu yfir það, hversu einstakir tekjustofnar ríkissjóðs, og þá einkum verðtollurinn og vörutollurinn, hefðu rýrnað fyrir samandrátt á viðskiptaveltu þjóðarinnar. Ef leið Sjálfstfl. í þessum málum yrði farin. að létta þyngstu sköttunum af framleiðslunni og hjálpa henni inn á ný svið, þegar þau gömlu lokast, mundi það þýða stórum auknar tekjur fyrir ríkissjóð.

Ég skal taka einfalt dæmi til að sýna fram á þetta, — ég þekki það vei, af því að ég er sjálfur við það riðinn. Þetta dæmi sýnir glögglega, hvernig aukið framtak gefur ríkissjóði óbeinar tekjur. Það var byggð ný verksmiðja á Hjalteyri í vor. Beinir tollar í ríkissjóð af efnivörum til verksmiðjunnar munu hafa numið 60–70 þús. kr. Þetta eru beinar tekjur, sem ríkissjóður fær strax. Með starfrækslu verksmiðjunnar koma einnig miklar tekjur í ríkissjóð. Tollar af því mjöli, sem verksmiðjan framleiddi, voru 40–50 þús. krónur á þessu ári, og tollur af olíu verksmiðjunnar 12–15 þús. krónur. Kolatollur í ríkissjóð frá verksmiðjunni var um 10 þús. krónur á mánuði, eða í þá 70–75 daga, sem verksmiðjan starfaði í sumar, um 25 þús. krónur. Rekstrartollar af þessari einu verksmiðju hafa því numið yfir 80 þús. kr. strax á fyrsta ári.

Þetta er gott dæmi um það, að réttlætanlegt getur verið að biðja ríkissjóð um styrk til þeirra atvinnufyrirtækja, sem miða að því að auka framleiðslu landsins. Hæstv. ráðh. má ekki gera sig sekan um það oftar að bregða okkur sjálfstæðismönnum um ábyrgðarleysi í þessum efnum. Ég hefi fært fram fyrir stefnu okkar mörg rök, sem sýna, að till. okkar eru byggðar á fyllsta viti og varfærni. Eins og hv. 6. þm. Reykv. tók réttilega fram eru þetta till. okkar flokks um það, hvernig verja beri fé ríkissjóðs, en þær eru auðvitað miðaðar við það, að takast megi að afgr. tekjuhallalaus fjárlög, þó að þær verði samþ. Þegar þetta frv. kom fyrst hér til umr. í d. í ráðherratíð hæstv. fjmrh., bauð ég honum fyrir hönd Sjálfstfl. samvinnu um að leggja á nýja skatta, eða sparnaðartillögur til að mæta þeim útgjöldum og þeirri tekjurýrnun, er frv. okkar til viðreisnar sjávarútvegsins hefðu í för með sér. Sjálfstfl. hefir síðan staðið með útrétta hönd og boðizt til að taka þátt í þeim örðugleikum og óvinsældum, sem alltaf fylgja sparnaði, taka á sig hluta af þeirri ábyrgð, sem stjórnarflokkar verða venjulega að bera einir. — Hæstv. ráðh. má ekki láta það henda sig framar að spyrja, hvort sjálfstæðisflokksmenn séu hér að leika skrípaleik; það er svo langt frá því sem mest má verða. Hér er til meðferðar eitt mesta vandamál ísl. þjóðarinnar, á einum hinum mestu erfiðleikatímum, sem yfir land vort hafa komið. Og hæstv. ráðh. ætti að athuga það, að sízt situr á honum að ráðast á okkur sjálfstæðismenn fyrir það, að við berum fram útgjaldatill. án þess að koma jafnframt með tekjuöflunar- eða sparnaðartillögur. Hann leggur sjálfur fyrir þetta þing fjárlagafrv., sem er með 900 þús. kr. tekjuhalla. Jafnframt játar hann, að í þetta frv. vanti útgjöld til viðreisnar sjávarútveginum, sem þó hljóti að verða að samþ. 2 þessu þingi, — það sé ekki gert ráð fyrir till. einstakra þm., sem þó auðvitað muni hækka útgjöldin og þar með auka á tekjuhallann. Það er ennfremur staðreynd, að hæstv. ráðh. hefir ekki gert þær breyt. á sjálfu frv., sem hann veit, að fjvn. verður að gera, til að mæta aukinni dýrtíð í landinu, sem vitanlega bitnar einnig á stofnunum ríkisins, og hafa því í för með sér aukin útgjöld á fjárl. Hæstv. ráðh. skilar Alþingi fjárlagafrv., sem gera má ráð fyrir, að sé raunverulega með yfir tveggja millj. tekjuhalla, án þess að gera jafnframt nokkra grein fyrir því, hvar hann hugsar sér að taka það fé, sem vantar. Er það þá óvitahjal hjá hæstv. ráðh., er hann talar um að hann ætli að eiga þátt í því að gera till. til úrbóta? En á sama hátt ætla sjálfstæðismenn að semja við valdhafana um það, að finna ráð til að afgr. tekjuhallalaus fjárlög, þó að þær till. um aukin útgjöld og rýrnun á tekjum ríkissjóðs, er við berum fram, nái fram að ganga.

Ég hirði þá ekki um að gera ræðu hæstv. ráðh. að frekara umræðuefni að sinni, en sný mér að ræðu hv. 5. þm. Reykv.

Ef miða ætti við skemmtunina hér á hinu háa Alþingi, þá ber sízt að harma hingaðkomu þessa hv. þm. Hann er áreiðanlega sá mesti fimleikamaður, sem á þingi hefir setið. Fyrir nokkrum dögum var hér til umr. till. um, að Ísland gengi í Þjóðabandalagið. Hv. 5. þm. Reykv. talaði fyrir þeirri till. af slíkum krafti, að engu var líkara en að hann teldi inngöngu Íslands í Þjóðabandalagið hið eina nauðsynlega. Fyrrv. samherji hans í A1þfl., hæstv. atvmrh., gerði þingheimi þá skemmtun að lesa upp grein eftir hv. 5. þm. Reykv., er hann hafði skrifað fyrir nokkrum árum, og var mjög á annan veg en till. hans nú. Hv. þm. afsakaði sig með því, að svo langur tími væri liðinn síðan hann ritaði umrædda grein, að von væri, að vindurinn hefði snúizt frá norðri til suðurs á öllum þeim tíma. En við þessar umr. kom í ljós, að hv. þm. þurfti ekki svona langan tíma til þess að snúast. Fyrri daginn, sem till. hans var til umr., lýsti hann því yfir, að hann væri samþykkur því að vísa henni til stj., en daginn eftir aftók hann með öllu, að þá aðferð mætti nota við afgreiðslu till. Þessum hv. þm. tókst þarna í þessari einu umr. að brúa bilið milli vindhanans, sem snýst frá norðri til suðurs á nokkrum árum, og hins, sem fer sama snúning á einni nóttu.

Ræðan, sem hv. 5. þm. Reykv. hélt áðan, var merkileg að því leyti, að hefði ég lesið hana í „Speglinum“, og hún hefði átt að vera ræða, sem ég hefði haldið yfir kommúnistum, þá hefði mér þótt hún góð. Aðaládeilan í ræðunni var í því fólgin, að ekki mætti bera fram frv., er bökuðu ríkissjóði útgjöld, án þess að benda á um leið, hvar ætti að taka féð, er til þeirra þyrfti. Ef hv. þm. vill ganga inn í hv. Ed., eða leita í þingskjölunum sínum að frv., sem form. Kommfl. ber fram í hv. Ed., frv. um breyt. á l. um alþýðutryggingar, þá getur hann séð frv., sem felur í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, án þess að nokkursstaðar í frv. sé sýnt fram á, hvar eigi að afla þeirra tekna, sem þarf til að mæta þessum útgjöldum.

Mér þótti það ánægjulegt, að hv. þm. skyldi ekki geta annað en viðurkennt, að hér væri um þarfamál að ræða. En það væri bara svo sorglegt, að landið mundi lenda á hausinn, ef frv. okkar yrði samþ. Ég hefi þegar sýnt fram á það, að bak við frv. okkar sjálfstæðismanna stendur fullt vit og varfærni í þessum efnum. En ég man ekki betur en að hv. 5. þm. Reykv. þættist ekki vera í neinum vandræðum með það við 1. umr. fjárl. að afla ríkissjóði tveggja til þriggja millj. kr. tekna í viðbót við það, sem fyrir væri. Ég verð að segja það, að snúningsliprari mann hefi ég aldrei rekið mig á hér á Alþingi, á þeim 10–12 þingum, sem ég hefi setið. Það verður ekki leiðinlegt hér í vetur, ef hann heldur svona áfram. En líklegt þætti mér, að hann yrði illa úr holdum genginn eftir fyrsta þingið, pólitískt talað, ef áframhaldið verður eftir byrjuninni.

Aftur á móti var það mjög fróðlegt fyrir okkur kjánana í deildinni að fá að vita það svona afdráttarlaust, að ný kreppa væri að byrja. Það hlýtur að vera mjög þægilegt að fá að vita slíkt fyrirfram, en ég efast um, að hægt sé að reikna það nákvæmlega út.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. tók eftir því, að það lék bros um varir hv. dm., er hann fór að deila á sjálfstæðismenn fyrir lýðskrum, að þeir bæru fram kröfur án þess að ætlast til, að þær gangi fram, til þess eins að afla sér fylgis. Nú er enginn sá kommúnisti til á Íslandi, að hann sé ekki stöðugt að bera fram kröfur einmitt í þessu augnamiði. Það er því von, að menn brosi, þegar hv. 5. þm. Reykv. fer að deila á sjálfstæðismenn fyrir þetta atriði.

En það var eitt atriði í ræðu hv. 5. þm. Reykv., sem ástæða er til að ætla, að hann hafi meint alvarlega. Hv. þm. taldi það öruggt ráð til viðreisnar sjávarútveginum að þrengja kosti þeirra manna, sem reka verzlun hér á landi. Óeðlilega mikið fjármagn væri komið í verzlunina, borið saman við það, sem stæði í útveginum. Ráðið væri því að þrengja að verzluninni og knýja svo fjármagnið yfir í sjávarútveginn. Ég veit ekki, hve ábyggilegar þær tölur eru, sem hv. þm. fór með, en ég held, að þær séu gamlar og ekki alveg réttar. En við skulum ganga út frá því, að þær væru réttar, ganga út frá því, að of mikið af fjármagni landsmanna standi hlutfallslega í verzluninni. En lengra get ég ekki gengið með hv. 5. þm. Reykv. Það eru engin úrræði fyrir sjávarútveginn, að þrengt sé að öðrum aðilja á öðru sviði atvinnulífsins, til þess að draga úr því fjármagni, sem þar er. Með því er engin bót ráðin á því aðalvandamáli útvegsins, að það fé, sem í þá atvinnugrein er látið, geti borið arð. Viðfangsefnið er fyrst og fremst þetta, að finna þær ráðstafanir, er geti orðið til þess, að það fjármagn, sem nú þegar er í sjávarútveginum, geti borið arð. Aðalviðfangsefnið er að skapa möguleika fyrir fjármagni, sem starfar í sjávarútveginum, og getur starfað þar með sæmilegum árangri. Aðeins á þann hátt er hægt að bæta úr örðugleikum þeirra manna, bæði á sjó og landi, sem eiga afkomu sína þar. Hitt er aðeins spor á leiðinni niður á við, og ekki. spor, sem mér finnst, að þeim flokki, sem hv. þm. tilheyrir, sé ætlandi, þó sá flokkur hafi oft tekið spor, sem miða niður á við, að halda, að það, að rétta hluta eins, verði eingöngu gert með því að minnka hluta annars. Barátta okkar

í þjóðmálunum á að vera barátta fyrir því að bæta hag þess verr stæða, í hvaða stétt þjóðfélagsins, sem hann er, og lyfta honum á hærra stig, en ekki barátta í þá átt að lækka hluta einhvers frá því, sem hann er, og niður að þeim næsta. Þarna er hinn veigamikli stefnumunur milli flokks hv. þm. og þess flokks, sem ég tilheyri.

Ég get að öðru leyti verið honum sammála um það, sem hann sagði um gjaldeyrismálin, og látið í ljós ánægju mína yfir því, að hann hefir tekið undir till., sem við sjálfstæðismenn höfum borið fram á undanförnum þingum og munum bera fram nú, þó hann telji, að það sé vandkvæðum bundið í framkvæmdinni að aðhyllast þær till., en þau eru ekki það mikil, að ekki sé teflandi á það, m. a. vegna þess, að ekki verður komizt hjá að gera slíkar ráðstafanir, nema þá að stærri og meiri gjaldeyrisráðstafanir verði gerðar.

Ég hygg, að ég hafi nú nokkurn veginn svarað þeim andmælum, sem fram hafa komið gegn þessu frv., því út í einstök smáatriði vil ég ekki fara, þó það geti orkað tvímælis, hvort þau eru þess eðlis, að nauðsynlegt sé að svara þeim. En ég kýs heldur að greiða götu frv. heldur en að eiga á hættu að tefja framgang málsins með löngum umr. Ég mun því ekki ræða þau atriði nánar, þó auðvitað mætti hrekja þau gersamlega.