26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (1744)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

Finnur Jónsson:

Umræður um frv. þetta, sem fyrir liggur, hafa farið mjög á við og dreif, en ég mun hinsvegar halda mér við frv. og ætla mér ekki þá dul að gera upp á milli hv. 5. þm. Reykv. og hv. þm. G.-K., sem deildu mest um það, hvor væri færari í lýðskrumi. (ÓTh: Það er synd, að þessi hv. þm. tekur ekki þátt í samkeppninni, því að hann fengi áreiðanlega 1. verðlaun).

Hv. 6. þm. Reykv. minntist á rækjuverksmiðjuna á Ísafirði og taldi þar engin skilyrði til framkvæmda. Ennfremur sagði hann, að fiskimálan. hefði ekki hafið þá tilbreytingu í þessum iðnaði, sem þurft hefði og unnt hefði verið. Hvorttveggja er rangt. Fiskimálan. hefir stutt þessa tilraun frá upphafi fyrir atbeina bæjarstj. á Ísafirði. Þær tilraunir væru löngu farnar í hund og kött, ef bæjarstj. hefði ekki notið við. Það hefir sýnt sig, að rækjuiðnaðurinn getur verið undirstaða að starfi svona verksmiðju á Ísafirði. En hann er ekki nægur einn saman til þess að verksmiðjan hafi nóg að gera. Það er því ljóst, að þessa byrjun þarf að auka mikið. Það þarf að auka styrkinn til þessarar starfsemi, taka nýjar tegundir til niðursuðu og fika sig áfram smátt og smátt um það, hvað gefur mesta vinnu, hvaða vara selst bezt o. s. frv. Ég er hv. flm. sammála um það, að niðursuða er að líkindum sá íðnaður, sem getur gefið okkur tiltölulega mest vinnulaun af öllum hérlendum iðnaði. Það er leitt, að þeir, sem haft hafa forgöngu um sjávarútveginn, skuli ekki hafa komið auga á þetta fyrir nokkrum árum. Þegar allt var að komast í öngþveiti með saltfisksverzlunina, vildu sjálfstæðismenn ekki gera annað en að flytja frv. um fiskiráð, sem var endemi eitt, þar sem ekki var gert ráð fyrir, að sett yrði á stofn annað en ráðleggingarstöð. Núv. stj.flokkar tóku þetta frv. þó ekki alvarlegar en svo. að í staðinn fyrir þessa ráðleggingarstöð settu þeir á stofn fiskimálan., og hefir hún staðið fyrir miklum framkvæmdum, sem ekki hefðu verið gerðar af þessu fiskiráði. Mér er það ljóst, og ég tek undir það með hv. flm., að það ber að efla niðursuðu hér á landi, en það á þó ekki að stíga svo stór spor í einu, að stíga þurfi síðar önnur spor og ef til vill stærri aftur á bak. Ef rétt er að farið, má á skömmum tíma ná miklum útflutningi héðan á niðursoðnum vörum. En það á að fela fiskimálan. framkvæmdir í þessu efni; hún hefir lagt mikla vinnu í undirbúning að slíku, og ætti ekki að ónýta þá vinnu með því að ganga framhjá henni.

Í sambandi við árangurinn af störfum fiskimálan. nægir að benda á, að búið er að koma á fót hraðfrystihúsum í Reykjavík, á Ísafirði, Bíldudal, Seyðisfirði, Norðfirði og auk þess á Akureyri og Siglufirði. Flest hefir þetta verið gert fyrir tilstilli n. Þetta hefir orðið til þess, að dragnótaveiðarnar, sem heimilaðar voru á síðasta þingi, hafi orðið landsmönnum að miklu gagni þetta ár. Má gera ráð fyrir, að á þessu ári verði fluttur út hraðfrystur fiskur fyrir 1,2 millj. kr. Á það er auðvitað hægt að benda, að nokkuð hafi tapazt á tilraunum fiskimálan. En Kveldúlfur tapaði líka á fyrstu tilraun sinni til að flytja út hraðfrystan fisk. Svo er og um allar nýjar tilraunir, og er slíkt engin sönnun fyrir óréttmæti þeirra. Ég get tekið það fram, að rekstrarhalli á rækjuverksmiðjunni á Ísafirði síðastl. ár hefir verið um 6000 kr. Þar með er ekki sagt, að rangt hafi verið að byrja á þessu. Það má heita gott, ef við komumst yfir tilraunastigið á fyrstu 2 til 3 árunum. Það má gera ráð fyrir því, að rækjuútflutningurinn komist að þessu sinni yfir 200 þús. kr. verðmæti, og af þeirri upphæð fer mest í vinnulaun. Þá má og gera ráð fyrir því, að á þessu ári verði fluttur út hertur fiskur fyrir um 600 þús. kr. Svo að útflutningur sá, sem þannig næst fyrir tilverknað fiskimálan., svarar til meira en 2 millj. kr. verðmætis á þessu ári. Þetta er að vísu ekki mikill árangur, en hann hefir þó orðið af því, að stj.flokkarnir báru gæfu til að stofna fiskimálanefnd, en settu ekki upp þýðingarlausa ráðleggingastöð, eins og hv. þm. G.-K. vildi. Tel ég því, að þar sem starf fiskimálan. hefir borið þennan árangur, þá sé rétt að fela henni þessar framkvæmdir og efla svo fiskimálasjóð, að hann geti staðið undir þeim.