27.10.1937
Neðri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (1749)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

Forseti (JörB):

Menn hafa nú — og sennilega í byrjun, að mér skilst — vikið allmikið frá því efni, sem ræða átti um við þessa umr., svo að torveldara mun því að binda umr. úr þessu við efni frv. En ég vil biðja um það, að menn blandi ekki inn í umr. óviðkomandi aðiljum. Og hv. þm. ætti að nægja það hér í þingsal að bítast sin á milli. Mér hefir fundizt, að þetta væri orðinn einn allsherjar eldhúsdagur, en hefði búizt við, að menn biðu með slíkt til hátíðlegra tækifæris, og vænti nú, að hv. þm. hér eftir stytti svo mál sitt, að þessar umr. megi ljúkast sem fyrst. Hv. þm. G.-K. tekur til máls til að bera af sér sakir.