30.11.1937
Neðri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (1759)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

Fram. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Það má vel vera, að ástæðulaust sé að auka verulega við það, sem sagt var um þetta mál við 1. umr. þess, því að það virðist vera alveg ákveðið, að mál þetta, eins og önnur þau mál, sem borin hafa verið hér fram til viðreisnar og styrktar sjávarútveginum, fari undir sömu bolöxina, og er á því svipuð afgreiðsla og sagt er að sé með hreingerningarnar hjá Stalin, að þar fer mjög skjótlega fram rannsókn og afgreiðsla.

Þetta mál fór til sjútvn. og var þar 4 víkur án þess að vera rætt. Síðan var það afgr. frá n. án þess að það fengist rætt að nokkru leyti, en það var sent til fiskimálan. til umsagnar, og það er dálítið einkennilegt, að þegar meiri hl. vísar til þess, að fiskimálan. eigi að rækja það hlutverk, sem farið er fram á í frv., þá skyldi hún ekki sjá ástæðu til að segja álit sitt um málið, hvað þá að færa fram rök með því eða móti, en n. fékkst alls ekki til þess að segja neitt um það. Hv. form. sjútvn. gekk eftir svari frá fiskimálan., en það svar var ófáanlegt.

Af þessu má sjá, að bæði meiri hl. og einnig fiskimálan. eru þeirrar skoðunar, að svona mál eigi ekki einu sinni þann rétt á sér að vera rædd, og vil ég segja, að það sé ekki svo lítið samræmi í framkomu meiri hl. í þessu máli við það, sem verið hefir til ýmissa annara nauðsynjamála sjávarútvegsins.

Ég sé, að hv. frsm. meiri hl. kærir sig ekki um að rökræða málið eða gera grein fyrir afstöðu sinni eða síns flokks til málsins, og ætlast sennilega til þess, að umr. verði sem allra minnstar. En það er þó ekki hægt að komast hjá því að rifja dálítið upp, hvaða líkur muni vera til þess, að fiskimálan. muni inna af hendi það hlutverk, sem ræðir um í frv.

Það er búið að ræða í fjarveru minni frv. um fiskimálan., og ég ætla ekki að leiða inn verulega nýjar umr. um þetta mál, þó að það sé því máli viðkomandi. En á það verð ég þó að benda, að sjávarútveginum er að sönnu ætlað að sjá þessari n. fyrir nálega ½ millj. kr. beint og óbeint, og væri því ekki ólíklegt, að þessi atvinnuvegur þættist eiga nokkra hönk upp í bakið á n. En af frv. því um fiskimálan., sem hér var til umr. nú rétt áðan, má sjá, að aðallega er ætlazt til þess, að n. fari að gera tilraunir með togaraútgerð, og þar er svo stórt verkefni og fjárfrekt, að ákaflega litlar líkur eru til þess, að n. hafi fé afgangs til annara hluta, þegar litið er til þess, hvað henni hefir áður orðið úr því fé, sem henni hefir verið ætlað til umráða. Ég ætla, að hv. frsm. minni hl. hafi í umr. um frv. um fiskimálan. sýnt fram á, að tiltölulega lítið af því, sem n. hefir verið ætlað til umráða, hefir gengið til að styrkja hinar ýmsu framkvæmdir fyrir sjávarútveginn. Meginið hefir farið í ýmsar tilraunir n. sjálfrar, sem virðast hafa gengið ákaflega lélega. Nú liggur þarna fyrir ný tilraun, sem n. mun telja, ef hún verður áfram skipuð svipað og hingað til og þar ræður svipaður hugsunarháttur, að sér beri að leggja höfuðáherzluna á, og það er að reka togaraútgerð, að nokkru leyti sem þjóðnýtingarfyrirtæki. Ráðgert er, að keyptir verði 2 nýtízku togarar, sem varla þarf að gera ráð fyrir, að kosti minna hvor en 800 þús. kr., og 25% af stofnkostnaðinum á að leggja fram til þessa fyrirtækis, og ég sé þá ekki, að neitt geti orðið afgangs til þess að styrkja með frystihús og niðursuðuverksmiðjur og annað, sem þarf að styrkja, ef n. verður jafnfrek á ýmsan annan kostnað, svo sem stjórnarkostnað o. fl., eins og verið hefir hingað til. Ég verð því að álykta, að þessum niðursuðumálefnum verði alls ekki sinnt að neinu gagni, ef frv. okkar verður afgr. með þeirri rökst. dagskrá, sem hér liggur fyrir. En sé svo, að það sé einn þáttur í samningum stjórnarflokkanna að ganga yfirleitt af málefnum sjávarútvegsins, sem fram koma frá sjálfstæðismönnum, dauðum, þá þýðir ekki að deila við dómarann eða bölið. En ég vil enn vekja athygli á því, að stjórn þess félagsskapar, sem útgerðarmenn hafa kosið til að hafa á hendi sölu afurða í félagi fyrir útgerðarmenn, sú stj. hefir sent Alþingi mjög ákveðnar till. um stuðning fyrir sjávarútveginn og sérstaka beiðni um styrk til þess að hefja tilraunir um niðursuðu á sjávarafurðum. Í þessari stjórnarnefnd eru menn úr a. m. k. 3 aðallandsmálaflokkunum hér á þingi, og 2 eru skipaðir í stj. af atvmrh. Báðir þessir menn hafa skrifað undir þetta bréf, sem fylgir nál. minni hl. sem fylgiskjal, og má af því sjá, að þessir fulltrúar flokkanna eru á sama máli og við flm., að þetta sé mesta nauðsynjamál og að Alþingi beri að styrkja það ákveðið, en ekki vísa því frá sér til einhverrar n., sem engin trygging er fyrir, að vilji eða geti sinnt því að neinu verulegu leyti.

Mál þetta var annars að öðru leyti rætt svo ýtarlega við 1. umr. og skýrt svo rækilega frá því, hver nauðsyn ber til að hafizt sé handa um að gera sjávarafurðir verðmætari en þær eru nú, að ég sé ekki ástæðu til að rifja það upp. Það hlýtur að vera öllum hv. þm. ljóst, sem annars vilja hafa opin augu og eyru fyrir nauðsynjamálum þjóðfélagsins, að það, að gera útfluttu vörurnar verðmætari og flytja út unnin verðmæti í staðinn fyrir hráefni, það er ákaflega mikið nauðsynjamál, ekki einungis fyrir útgerðina sjálfa, heldur og fyrir alla landsmenn. Það er viðurhlutamikið fyrir Alþingi að skella skolleyrunum við slíkum málum, og einkanlega að slá á framrétta hönd þeirra manna, sem sjálfir vilja hefjast handa og leggja fé og fyrirhöfn í frystitilraunir og annað þess háttar.

Ég vil því alvarlega skora á hv. þdm. að láta ekki flokksblindni eða fastheldni við gamlan málstað gegn kröfum og beiðnum sjávarútvegsmanna ráða atkv. sínu í þessu máli, heldur fella þessa rökst. dagskrá, ef svo skal hana nefna, og greiða atkv. með frv.