06.12.1937
Efri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í C-deild Alþingistíðinda. (1788)

8. mál, eftirlit með skipum

*Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Það er orðið nokkuð langt síðan umr. hófust hér í hv. d. Ég er sennilega búinn að gleyma sumu, sem ég þurfti að svara hv. þm. Vestm., en ég verð að rifja upp það, sem ég skrifaði niður, eftir því sem ég get. Hv. 2. þm. S.-M. gat þess í sinni ræðu, að málflutningur hv. þm. væri ekki meira en svo ráðvendnislegur, þegar hann var að vitna í mína grg. fyrir frv., og það var rétt, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði um það efni. Ég hefi hvergi í grg. sagt annað en það, að þær breyt., sem fyrst og fremst á að gera á frv. frá því, sem það var, þegar það var flutt á síðasta þingi, séu gerðar með fullu samþykki skipaskoðunarstjóra. Annað er ekki sagt, og þetta vil ég, að sé staðfest í þingtíðindunum. Það er því hrakið hjá hv. þm., að ég sé að fara með einhverjar blekkingar fyrir hv. d. og þingi. En það er ekki launungarmál, og það kom fram í n., að ég og skipaskoðunarstjóri erum ekki sammála um allt, sem er lagt til í frv. mínu. Sumt af þeim till. er þess eðlis, að það er skiljanlegt, að skipaskoðunarstjóri hafi vegna embættis síns ástæðu til þess að leggja að einhverju leyti á móti þeim. En eins og hv. þdm. er ef til vill kunnugt, hefir gagnrýni á störfum skipaskoðunarstjóra verið svo hávær, að það væri í rauninni ekki nema greiði fyrir hann, ef á einhvern hátt væri hægt að létta af honum þeirri gagnrýni. Ég tel, að þetta sé nóg til þess að hrekja ummæli hv. þm. um ósannsögli og óráðvendni hjá mér í flutningi máls. Hann gat þess um leið, um hvað ágreiningur hefði verið milli mín og skipaskoðunarstjóra, sem mér skildist hann vilja gera að sínu máli, sinni till. í málinu, þó að hann hafi í raun og veru ekki gert það, eins og sjá má á þeirri dagskrá, sem hann leggur fyrir hv. d., en hinsvegar vill hann gera lítið úr þeim till., sem hér liggja fyrir frá mér, og vill meina, að þær hafi ekki við rök að styðjast. Ég gat þess í minni framsöguræðu, að ég styddist hér við ummæli og reynslu fjölda sjómanna úr öllum starfsgreinum sjómannastéttarinnar um það, hvað menn óskuðu að fá breyt. á. Ég ætla ekki að endurtaka það. Hitt getur verið álitamál, hvað mönnum finnst frambærilegt til þess að ná samþykki, því að um það má deila, hvort þetta eða hitt eigi að lögfesta nú eða síðar. Svo er það t. d. um hleðslumerki, sem í rauninni er óþarft að tala um nú, þar sem ég geng inn á miðlun í þessu máli með það að vísa til aðgerða síðar meir, aðgerða ráðh. og þeirra, sem vilja gera breyt. á því, með því að ráðh. setji reglugerð um það, hvernig girt verði fyrir ofhleðslu fiskiskipa. Svo að þetta er í rauninni úr sögunni, þó að ég sé þeirrar skoðunar, að það sé réttmætt að krefjast þess, að hleðslumerki séu á öllum skipum. og því til sönnunar skal ég benda á það, að í Noregi eru núna mjög miklar umræður í blöðum um það, hvort ekki eigi að grípa til þess ráðs. Ég segi ekki, að Norðmenn ætli að lögfesta þetta, en þetta sýnir, að þessi skoðun er ekki einungis hér á Íslandi, heldur einnig hjá nágrannaþjóð, sem hefir ekki ólíka aðstöðu með sjósókn og við, þó að hún sé kannske ekki í mörgum stöðum eins og hér, en þetta sýnir, að þeim hefir dottið það sama í hug og ég hefi leyft mér að bera fram. Ég skal svo ekki fjölyrða frekar un: þessa hlið málsins, því að ég hefi gengið inn á þessa miðlun, eins og ég tók fram. Hv. þm. gat þess, að þannig ákvæði um hleðslumark þekktust hvergi erlendis. En ef það er nauðsynlegt hér, hverju skiptir þá, þó að það kunni að vera ónauðsynlegt erlendis? Er til nokkur þjóð, sem stundar eins hættulegar fiskiveiðar og við — úti í opnu hafi í náttmyrkri vetrarins, við veðráttu heimskautsbaugsins, og það, sem bíður fleytunnar, ef út af ber, er brimótt klettaströnd —, á nokkur þjóð önnur svo háskalega baráttu á sjónum, að manntjónið er hlutfallslega eins og í skotgröfunum í heimsstyrjöldinni? Er þá undarlegt, þó að við þurfum að útbúa farkost okkar betur og gæta meiri varúðar en aðrar þjóðir?

Þá kom hv. frsm. minni hl. inn í farmannasambandið og það, að ekki hefði verið leitað ráða þess um frv. Og hann rökstuddi ummæli sín með því að lesa upp úr þingtíðindum farmannasambandsins það, sem hann áleit vera tillögur þess um málið. En þingið gerði enga endanlega ályktun, aðeins setti nefnd til að rannsaka þessi mál. Og sú n. gerði ekki neitt nema vísa þessu til milliþn. Og form. þeirrar n. gerði aftur það, heldur en ekki neitt, að mælast til þess, að Alþingi léti n. athuga málið. Útkoman af aðgerðum farmannasambandsins er því ekki neitt, og það er algerlega út í hött að minna á hana til þess að hrekja ummæli mín. — En ef stjórn farmannasambandsins vildi, gat hún sent Alþingi sérstakar till. til breytinga, eins og ýmsir aðrir aðiljar. Það gerir hún ekki. Það sýnist vera af því, að hún sjái ekki ástæðu til að óska breyt. á frv. Nú hefir málið tegið fyrir tveim þingum, í fyrra og núna, svo að fresturinn hefir verið nógur til að átta sig. — Þessar mótbárur hv. frsm. minni hl. sýna einungis, að hér er verið að gera leik að því að tefja málið einu sinni enn, — til þess að fresta ýmsum liðum frv., sem ég skal játa, að þýða kannske nokkurn aukakostnað fyrir útgerðarmenn.

Hv. frsm. minni hl. minntist á ýmis mótmæli gegn frv., t. d. frá stórútgerðarfélögum, sem hann kallaði. — þau eiga kannske 2–3 báta. Þær aths. hafa annars verið teknar til greina, eins og ég hefi þegar sagt, og rekast ekki á frv.

Loks var það aðalröksemi hjá hv. þm., að lögin yrðu aldrei framkvæmd til hlítar, þau gerðu ekki gagn, þetta yrðu pappírslög. En við hv. 2. þm. S.-M. vorum á annari skoðun og eins skipaskoðunarstjóri. Hann áleit þetta alveg bráðnauðsynleg lög, og þó að okkur greini á um aðferðir í einstökum atriðum, skiptir það hvergi mjög miklu máli.

Hv. frsm. minni hl. kvaðst vilja vinna að björgunarmálum. Ég skal viðurkenna, að hann hefir unnið gott og nytsamt verk í þágu björgunarmála í Vestmannaeyjum. því undarlegra er það, að hann skuli vinna á móti þeim málum hér. (JJós: Vantreystir þm. ríkisstj.?). Langt frá því. En allur dráttur er skaðlegur. Ég er líka mjög óviss um, að nokkrar till. komi, þó að beðið sé til næsta þings. Ég er ekki trúaður á það heldur, að Alþingi gæti fallizt t. d. á allar till. skipaskoðunarstjóra.

Talstöðvar fyrir báta eru ekki eins flokks verk. Þær hafa gert gagn og eiga eftir að gera meira. En það er ekki nóg. Bátana þarf engu að síður að gera svo úr garði, að þeir geti bjargað þeim, sem á þeim eru, þó að vélar bili og ýmiskonar óhöpp komi fyrir.

Margt er enn ótalið, sem mátt hefði minna á, en ég læt þetta nægja. Ég óska þess, að hv. þd. lofi nú þessu máli að ganga gegnum þingið, eins og meiri hl. n. er sammála um að mæla með. — Eftir því, sem slysin verða tíðari, verður alltaf að herða á eftirlitinu. Mér dettur ekki í hug, að ekki megi gera betri till. síðar, eftir því sem reyslan kennir, en þá má alltaf bera þær till. fram sem breyt. á lögunum. Ég vona, að hv. þd. felli þá rökst. dagskrá, sem hér er fram borin.