06.12.1937
Efri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (1792)

8. mál, eftirlit með skipum

*Frsm. minni hl. (Jóhann Jósefsson):

Hv. 1. þm. N.-M beindi þeirri fyrirspurn til mín, hvernig stæði á því, að Alþingi hefði ekki borizt tillögur frá farmannasambandinu, grundvallaðar á samþykkt fyrsta sambandsþings þess. Ég er nú ekki neinn málsvari farmannasambandsins og get því ekki svarað fyrir þess hönd, en ég get þess til, að það sé ekki tilbúið með sínar till. En hinsvegar er það skiljanlegt, að þegar þessir menn verða þess varir, að frv. er komið fram á Alþingi um þetta efni, þá koma þeir til mín, og að því er mér skilst einnig til hv. 2. þm. S.–M., og fara fram á, að málinu verði frestað. Annars veit ég það, að hv. frsm. heldur því ekki fram í alvöru, að þessir menn muni ekki hafa talað við mig eða ég skýri rangt frá þeirra óskum. En hv. þm. er undrandi yfir því, að þessir menn skyldu ekki heldur koma til sín. Þarna liggur hundurinn grafinn. Það var kannske tilviljun, að þessir menn hittu ekki hv. þm. hér og hafa svo gert sér að góðu að tala við hv. form. sjútvn. og svo aðra minni háttar menn, eins og mig, en þetta er það, sem hv. flm. frv. á erfitt með að þola.

Þá sagði hv. þm., að ef dagskrá mín yrði samþ., mundi athuguninni ekki verða lokið fyrir næsta þing. Með því gerir hann allt of lítið úr sér og sínu starfi. Bæði frv. hans og brtt., auk þeirra l., sem nú gilda, skoða ég sem ágætan grundvöll fyrir þá menn, sem koma til með að fjalla um málið samkv. minni dagskrártill. Ég get upplýst hv. þm. um, að þessu er þannig farið. Það getur verið, að hann hafi ætlazt til þess, þegar hann barðist fyrir því að koma þessu ákvæði í l., að þessir menn heimtuðu ekki kaup fyrir að vera lærðir ,til þessa. En það eru háværar kröfur frá þessum mönnum um að fá hærra kaup en óbreyttir hásetar. Hv. þm. setti mikið fyrir sig, ef kostnaður skyldi verða í sambandi við undirbúning málsins fyrir næsta þing, en hann er á öðrum stöðum ekkert kvíðinn um kostnaðinn. Ég hefi ekki talið saman, hvað ot kemur fyrir í frv. hv. þm., að kostnaður af þessu eða hinu greiðist af skipseiganda. Þá setur hv. þm. ekki fyrir sig kostnaðinn.

Ég býst ekki við, að skipstjórinn á Esju hafi laumazt á bak við nokkurn mann í þessu máli. Ég geri ráð fyrir, að það hafi verið tilviljun ein, að hann hitti ekki hv. flm. þessa frv., þegar hann var hér að tala máli farmannasambandsins, og því ástæðulaust fyrir hv. flm. að taka þetta nærri sér, eins og kom fram í ræðu hans. En hitt, að hann kom ásamt öðrum manni úr stjórn félagsins og bar fram tilmæli farmannasambandsins um, að það mætti eiga hlut að málinu, er satt og rétt. Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta.

Að því er snertir nágrannalöndin, sem hv. þm. var að tala um, þá mun vera svo um okkur eins og marga fleiri, að hvorugur okkar er óskeikull um það, hvað þar er á seiði. Ég hygg, að það muni samt sem áður vera rétt, að ýmisleg ákvæði, sem hér er verið að setja í 1. og látin gilda fyrir hin smærri skip, eru enn ekki lögfest þar, a. m. k. ekki í því nágrannalandi, sem er skyldast okkur hvað sjómennsku snertir, eins og t. d. í Noregi. Það er alveg áreiðanlegt, að þegar setja á reglur um öryggi á sjónum, þá er það þess vert, að þeir menn fái að láta uppi álit sitt, sem sjálfir eru sjómenn og taka þátt í hinu daglega lifi á sjónum. Ég verð að halda því fram, að þau fyrirmæli, sem að haldi geta komið, megi vel setja á grundvelli þeirrar löggjafar, sem þegar liggur fyrir, á þann hátt, sem ég hefi lagt til, og þannig, að það geti orðið lögfest á næsta þingi. Ef svo væri ekki, þá væri sú löggjöf, sem fyrir er, ófrjó, og ekki hægt að byggja á henni, og þá ekki heldur það frv., sem hv. þm. hefir borið fram, en ég tei, að hvorttveggja geti verið góður stuðningur við endurskoðun 1. Það er í raun og veru ekki annað, sem farið er fram á, en að löggjöfin um þessi mál verði endurskoðuð. Í dagskránni hefi ég bent nokkuð á, á hvern hátt það mætti verða, og þó um það megi ef til vill deila, hvort það mætti ekki verða á einhvern betri hátt, þá verð ég að halda fast við það, að sú aðferð, sem ég vil fara í þessu máli, muni geta leitt til góðs árangurs, og sér í lagi, þegar þess er beinlínis óskað af sumum þeim aðiljum, sem nefndir eru í dagskránni.