19.10.1937
Neðri deild: 5. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (1806)

7. mál, alþýðutryggingar

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég hygg það rétt, sem hv. 6. þm. Reykv. benti á, ef þetta frv. verður samþ., sem ég þó vona, að komi ekki fyrir, að þá væri möguleiki til þess að endurgreiða nokkuð af því, sem í lífeyrissjóði embættismanna og barnakennara hefir verið greitt.

Ég þarf ekki mörgu að svara úr ræðu hv. flm. En hann viðurkenndi réttilega, að ef þær breyt. yrðu samþ. á löggjöfinni, sem frv. gerir ráð fyrir, þá væri ekki nema um tvennt að gera, annaðhvort að minnka þær greiðslur, sem gamalmenni eiga að njóta úr lífeyrissjóði Íslands, eða stórum að auka greiðslur til lífeyrissjóðs úr ríkissjóði. En á hvorugt þetta er bent í frv., og ekki heldur vikið að því í grg. þess.

Þá taldi bv. flm., að það væri hlægilega lítill munur á þeim fjárupphæðum, sem varið hefði verið til ellistyrks eða ellilauna fyrir og eftir gildistöku l. um alþýðutr. árið 1936, þegar þess væri gætt, eins og hann útmálaði það, með hvílíkri varmennsku gengið væri að fólki í þessu efni. — Ja, hv. þm. verður náttúrlega að hafa sína skoðun um það, sem honum finnst varmennska í þessu efni. En ég tel, að ekki hafi á öðrum tíma orðið meiri breytingar á þessu heldur en einmitt frá því árið 1935, þar sem greitt var í ellistyrk það ár rúmlega 200000 kr., en árið 1936 í sama skyni um 900000 kr. Einhverntíma hefði þótt verulegur munur á þessum upphæðum.

Mér skildist hv. þm. álíta, að ég væri því ósamþykkur, að ellilaunin yrðu til þess að lækka framfærsluútgjöld sveitarsjóðanna. Ég taldi það á vissan hátt sjálfsagt, því að ég taldi, að af l. þessum mundi leiða lækkun á fátækraframfæri sveitanna. Það, sem héruðin hafa lagt fram til elli- og örorkubóta árið 1936, eru 530000 kr. Ég tel eðlilegt, að bein framlög þessara héraða til fátækraframfæris gamals fólks hafi lækkað a. m. k. um þessa upphæð. Það tel ég eðlilegt og sanngjarnt. Hinsvegar tel ég, að nokkuð verulegur hluti af greiðslum úr lífeyrissjóði gangi til framfæris þess fólks, sem ætti að njóta styrks, sem ekki væri ellilaun.

Ég tel, að mikið sé fengið fyrir gamalmenni, að fá breytt til þannig, að sá styrkur, sem það fær til framfærslu, sé ekki veittur sem fátækrastyrkur, heldur sem ellilaun, af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi eiga ellilaunin að greiðast í einu lagi fyrir allt árið. Þar af leiðandi veit fólkið, hvað það fær, og getur tekið það til greina við öflun tekna af atvinnu til lífsviðurværis sins ásamt ellilaununum, í staðinn fyrir að þegar um fátækraframfæri er að ræða, þá verður það að vera undir mati fátækranefndar komið í hvert skipti, hversu mikinn styrk hlutaðeigandi gamalmenni á að fá til framfæris af opinberu fé, a. m. k. fyrir þá, sem ekki hafa komizt á fast framfæri árum saman.

Í öðru lagi er það, að þegar einu sinni er búið að taka upp fastan ellistyrk eða ellilaun til manns, þá er tæplega hægt að gera ráð fyrir, ef engar sérstakar verulegar breyt. hafa orðið á afkomumöguleikum þess manns, að breytt verði upphæð ellilauna hans, þannig að sá maður hefir nokkuð fast til að reikna með.

Hv. flm. lætur sér sæma að fullyrða hér, án þess að rökstyðja það neitt, að langmestur hluti af því fé, sem safnazt hefir í lífeyrissjóð embættismanna, gangi til hins almenna lífeyrissjóðs. Ég fæ ekki skilið, hvaðan hv. þm. hefir þessa vitneskju. (GSv: Hvaðan hefir hæstv. atvmrh. sinn útreikning?). Þeir útreikningar, sem ég byggi á, voru gerðir af mönnum, sem hafa verið nákomnari hv. flm. en mér.

Fróðir menn, sem hafa athugað það, segja, að ætla megi, að lífeyrissjóður Íslands sé mjög vei tryggður til þess að mæta sínum skuldbindingum, en um það sé ekkert hægt að fullyrða á þessu stigi málsins, þar sem sjóðurinn hefir ekki starfað svo lengi enn. En hitt er alveg víst, að þær fullyrðingar hv. flm. ná engri átt, að mestur hluti þess fjár, sem nú er í lífeyrissjóði embættismanna, verði ekki notaður til þess að mæta skuldbindingum þess sjóðs, heldur renni í lífeyrissjóð Íslands. Því að mestum hluta þess fjár verður varið til þess að mæta þeim skuldbindingum.

Um atvinnuleysistryggingarnar hirði ég ekki að deila við hv. þm. Á þeim kafla í l. eru ýmsir agnúar. Það hefir verið reynt að sníða þá flesta af. og þeir hafa stafað af ónógum undirbúningi áður en sú löggjöf var sett.