22.10.1937
Neðri deild: 8. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (1823)

16. mál, vinnudeilur

*Garðar Þorsteinsson:

Ég skal ekki tefja þessa umr. um málið með mörgum orðum. — Það, sem ég vil fyrst minnast á, eru þau ummæli hæstv. ráðh., þar sem hann sagði, að það væri fullkomin ástæða til að taka málinu með tortryggni, af því það væri komið þaðan, sem það er komið. Mér finnst, að þetta sé ljós vottur um heldur slæma samvizku hæstv. ráðh. í þessu máli. Eftir að málið hefir legið á Alþ. þrjú þing í röð og ettir að málið hefir verið sent til Alþýðusambands Íslands til umsagnar og til þess að ná við það samkomulagi um málið, þá segir hæstv. ráðh. nú, að fullkomin ástæða sé til að taka málinu með tortryggni, af því að það kem þaðan, sem það kemur. Hæstv. ráðh. hefir þó haft tíma til þess að atbuga málið sjálfur, enda er það léleg vörn hjá hæstv. ráðh., ef hann heldur, að málið hafi ekki jafnmikinn rétt á sér, ef það er á annað borð gott mál, hver svo sem ber það fram. En andstaða sósíalista gegn þessu máli hefir fyrst of fremst byggzt á því, að það eru sjálfstæðismenn, sem bera það fram. En þeir eiga erfitt með að berjast gegn þeirri hugsun, sem felst í frv., þó þeir geti barizt móti einstökum ákvæðum þess. Þeir eiga erfitt með það, þar sem sannað er, að í frv. er ekki annað en það, sem margra ára reynsla er fyrir á Norðurlöndum, en það hefir verið lagað eftir staðháttum þeim, sem hér eru, og það tekið, sem bezt á við íslenzka staðhætti. Hæstv. ráðh. hefir ekki aðra vörn gegn málinu en að segja: Þið skuluð vara ykkur á því, af því það eru þessir menn, sem bera það fram. — Það hefði allt verið ágætt, ef það hefði bara verið hv. 3. þm. Reykv., sem hefði borið fram frv. um þetta mál. Það hefði aldrei átt að dæma um málið eftir því, hverjir komu með það, heldur um það sjálft, eins og það liggur fyrir. slíkar varnir og slíkur málflutningur sýna aðeins, hve fátt þessir menn hafa gegn málinu að segja.

Hæstv. atvmrh. drap á þrjú atriði, sem bann hafði sérstaklega á móti þessu frv. Hann taldi, að skilgreining þess á verkbanni væri ófullnægjandi. Bæði hann og hv. 3. þm. Reykv. beittu því sem ástæðu móti frv., að útgerðarmenn t. d. gætu sagt: „Það borgar sig ekki að gera út. Það verður að leggja skipunum upp“ — og að þetta gæti verið dulbúið verkbann af þeirra hálfu. Það var alls ekki hugsun mín, að frv. væri þannig útbúið, að ekki gæti hugsazt, að komast mætti kringum ákvæði þess. Þeir, sem að slíku finna, geta þá komið með lagfæringar, sem tryggja. að ekki sé hægt að komast kringum þau. Þess vegna eru þetta engin rök gegn málinu sjálfu, aðeins má e. t. v. segja, að smíðagallar séu á frv.

Í öðru lagi sagði hæstv. atvmrh., að svo væri ástatt um atvinnuvegi hér á landi, að mikið af atvinnunni væri hlaupavinna og ekki sambærileg við atvinnu almennings annarsstaðar á Norðurlöndum. Ég held, að það sé ekkert einstakt fyrir okkar atvinnuvegi. Það er eins á Norðurlöndum, að mikið er um hlaupavinnu. Hvað er það þá, sem skilur Íslendinga svo í þessu efni frá öðrum Norðurlandaþjóðum? — Ég sé það ekki, get hvergi fundið það. — Og þó að svo væri, yrði afleiðingin ekki önnur en að það yrði að bæta við nánari ákvæðum, sem ættu sérstaklega við hér. Þetta eru þess vegna engin rök fyrir því, að frv. eigi ekki rétt á sér, aðeins svolítil viðbára.

Út af því, sem hæstv. atvmrh. og hv. 3. og hv. 5. þm. Reykv. héldu fram sameiginlega, að hér væri verið að taka fram fyrir hendur verkamannanna sjálfra með auknu valdi sáttasemjara og stofnun vinnudómst., vil ég minna á það, að hæstv. atvmrh. veit bezt sjálfur, hver fjarstæða það er, þar sem hann hefir sett á laggir mþn. til að gera till. í sömu átt. Það er ekki stafur fyrir því í þessu frv., að vinnudómstóllinn — eða félagsdómurinn, ef einhverjir vildu heldur kalla hann því nafni — eigi að ráða kaupi verkamannanna. Verkamennirnir eiga sjálfir að ákveða kauphæðina. Sú hugsun, sem í stórum dráttum liggur bak við frv., er aðeins sú, að ríkisvaldið, sem mikið á í húfi í vinnudeilum, geti gert sitt ýtrasta til, að þeim verði lokið á sem skemmstum tíma og að þær verði sem minnst til tjóns. Það, sem frv. fer fram á, er, að sáttasemjari ríkisins í Reykjavík og öðrum einstökum sáttasemjurum sé gefið aukið vald. Enginn ber lengur móti því, að sáttasemjari hafi þegar gert mikið gagn í kaupdeilum, borið saman við ástandið áður en lögin um stofnun þess embættis voru sett. — Það er alger blekking að gefa í skyn, að vinnudómstóll eða sáttasemjari geti sagt til um, hvort verkamaðurinn eigi að vinna fyrir 1,36 kr. eða 1,45 kr. á klst., heldur á sáttasemjari, eins og verið hefir, að greiða fyrir samningagerðum og vinnudómstóll að skera úr, hvort gerðir samningar hafa verið brotnir. Áður hefir orðið að leita til almennra dómstóla til að fá úr slíku skorið. En þeir eru seinvirkir og óhagkvæmir, svo að hér er valin þessi sérstaka leið. Í þennan dóm er sérstaklega valið í samræmi við hlutverk haus, og það er þýðingarlaust að bera móti því, að það hlutverk sé nauðsynlegt.

Hér í frv. er því líka slegið föstu, að rétturinn til vinnusamninga sé í höndum beggja aðilja; engir samningar verði teknir í gildi án þess, að hver verkamaður hafi átt kost á að lýsa afstöðu sinni sem aðili. Það er því léleg vörn, þegar hæstv. atvmrh. og samherjar hans í þessu máli reyna að læða því inn hjá almenningi, og þá sérstaklega verkamönnum, sem ekki geta kynnt sér málið sjálfir, að þarna sé verið að setja lög um, að dómur skuli ákveða kaup þeirra og kjör, með dómsúrskurði séu þeir e. t. v., áður en þeir vita af, gerðir þrælar. Þessi ástæða er léleg, af því að hún er ósönn.

Þegar þeir hv. 3. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Reykv. rísa upp með þeirri fullvissu, að þeir tali fyrir hönd alls verkalýðsins, geta menn farið að efast. Ég hefði gaman af að sjá það, hvort þeir hafa allan verkalýðinn með sér. Sú atkvgr., sem fór hér fram í sumar, sannar eitthvað annað en að þeir hafi allan verkalýðinn bak við sig. Af hverju hefir verkalýðurinn snúizt ? — Hafa þeir alla sjómenn bak við sig? — alla iðnaðarmenn? –alla aðra verkamenn? — Nei, það er eitthvað töluvert af þessum mönnum, sem hefir yfirgefið þá til fulls. Það sýnir sig, að þó að þeir fallist í faðma hv. 3. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Reykv., þó að samfylkingin komist á, hafa þeir ekki nema hálfan verkalýðinn bak við sig. Á meðan ættu þeir ekki að tala eins og þeir hefðu hann allan. Það er hálfömurlegt, þegar þessi stóri og sterki pólitíski garpur, 3. þm. Reykv., rís hér upp og segir: Það, sem ég ætlaði að segja, það hefir nú konunúnistinn tekið fram í minn stað. — Það er svo sem auðheyrt, hvað maðurinn á bágt. Hann er eins og maður á áralausum bát og er á flæðiskeri staddur með sig í sínum flokki um þessar mundir.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að vinnulöggjöfin væri árás á mannréttindi alþýðunnar og að löggjöfin setti hér takmörk fyrir verkfallsrétti verkamanna. En ég vil, að hann bendi mér á eitthvert dæmi um löggjöf, sem ekki takmarkar sjálfræði manna. Það skyldi vera, að sjálf stjórnarskráin gerði það ekki líka. Það er ég hræddur um. Hvenær hefir hv. þm. talað um, að lög yrði að banna af þeim orsökum, eða á þá að banna stjskr. ríkisins? — Það fellst víst hver maður á, að undir vissum kringumstæðum verði að taka einn eða annan rétt af mönnum. Það getur ekki verið ágreiningur um, að frv. á að þessu leyti fullan rétt á sér, — þar er aðeins um að ræða, hvort einstaklingsrétturinn eigi að takmarkast eða minnka vegna almenningsheilla.

Það er nú vitað, að Framsfl., sem lagði fram tvö frv. um þessi mál á síðasta þingi, muni einnig leggja fyrir þetta þing frv. um vinnulöggjöf. Þessi tvö frv. voru annað um félagsdóm, en hitt um sáttatilraunir í vinnudeilum. Það er rétt, sem andstæðingar þessa frv. munu telja þeim til gildis, að þau frv. gengu styttra en það. Engu að síður sýndu framsóknarmenn með þessu vaxandi skilning á nauðsyn málsins, og það skyldi gleðja mig, ef af því sæist meiri árangur.

En ef hv. 3. og hv. 5. þm. Reykv. vilja fyrirfram slá því föstu, að engin vinnulöggjöf eigi rétt á sér, er það víst, að þá fá þeir engan hljómgrunn hjá sjálfstæðismönnum né framsóknarmönnum, né yfirleitt hjá verkalýðnum í landinu.

Og því betur sem þetta mál er útskýrt fyrir þeim, sem verið hafa andstæðingar þess, því ákafari verða þeir að lokum sjálfir um það, að lög verði sett til verndar vinnufriðnum. Þess er skemmst að minnast frá síðustu verkfallsdeilu verkamannafélagsins Dagsbrúnar, hvernig óhlutvandir og ráðríkir menn geta stofnað til vinnudeilu sjálfum sér og félagsskap sínum til skammar. Það er ekki undarlegt, þó að verkamenn vilji fá lögvernd til að sitja í friði fyrir þeim, sem sitja um hvert tækifæri til þess að stofna til óeirða og verkfalla.