26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (1829)

16. mál, vinnudeilur

*Ísleifur Högnason:

Það er nú orðið alllangt síðan þetta mál var síðast til umr., en ég vildi bæta nokkrum orðum við það, er þá hafði verið um málið sagt.

Í fyrsta kafla þessa frv., er hér liggur fyrir, rekst maður oft á orðin „verksvipting“ og „verkfall“. Í fyrirsögn þessa kafla eru orðin skýrð með erlendum orðum, „lockout“ og „strike“. En því þarf að skýra þessi orð með útlendum orðum? Vegna þess, að orðið „verksvipting“ er nýyrði í íslenzku máli, — þetta fyrirbæri, lockout, er svo að segja óþekkt hér á landi. Ég veit ekki nema um eitt eða tvö dæmi þess, að atvinnurekendur hafi sagt verkamönnum sínum upp vegna þess, að þeir hafi gert of háar kröfur. verkföll eru aftur á móti algeng, þau eru varnarráðstafanir verkalýðsins til þess að tryggja forsorgun sína og sinna. Svo er það t. d. nú, þegar dýrtíðin eykst stöðugt, þá gengur líka verkfallsalda yfir landið. Verkamenn hafa ekki annað ráð til að hækka kaup sitt, — ekki gera atvinnurekendur það af sjálfsdáðum.

Það má merkilegt heita, ef nú er allt í einn svo mikil þörf á því að setja löggjöf um verksviptingu, sem má heita óþekkt fyrirbæri hér á landi. Hvers vegna koma hv. flm. með þessi ákvæði um verksviptingu? Ég geri ráð fyrir, að takmarkanirnar á rétti atvinnurekenda til verksviptingar eigi að vega upp á móti þeim réttindum, sem verkalýðurinn afsalar sér. Það lætur betur í eyrum, þegar verið er að banna verkamönnum með lögum að leggja niður vinnu í 14 daga frá því að þeir ákveða verkfall, að taka það fram, að atvinnurekendur megi ekki heldur stöðva vinnuna fyrr en eftir 14 daga frá því að þeir tilkynna þessa fyrirætlun sína. Þessi ákvæði eru tekin með eingöngu í þeim tilgangi að gera lögin aðgengilegri, fá verkalýðinn til þess að kyngja bitanum.

Út af einstökum atriðum í ræðu hv. þm. Snæf. vildi ég segja þetta: Hann sagði m. a., að réttur verkalýðsfélaganna, réttur verkamanna í íslenzku þjóðfélagi, væri svo vei tryggður, að það yrði ekki gert betur. Þessi fullyrðing stangast við það, sem hv. flm. halda fram í grg. frv. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er þó vitað nú, að fjöldi verkamanna æskir þeirrar réttarverndar, sem frv. þetta færir þeim, og er því hlynntur, enda gætir frv. í hvívetna réttar þeirra, engu síður en vinnuveitenda.“

Ég segi fyrir mig, að ég veit ekki til þess, að nokkrir verkamenn eða nokkur verkalýðsfélög hafi borið fram óskir um löggjöf sem þessa. En ég veit, að þúsundir verkamanna eru andvígir því, af því að þeir vita, að frv. er stefnt gegn atvinnufrelsi verkalýðsins.

Hv. flm. sagði í framsöguræðu sinni, að þessi löggjöf væri fyrst og fremst verkalýðnum til hagsbóta, en þar næst yrðu þau þjóðfélaginu til blessunar, og sjónarmið þjóðfélagsins yrði að setja ofar öllu. En hv. flm. minntist ekki á það, að frv. er flutt að tilhlutun atvinnurekendafélagsins í þeim eina tilgangi að skerða rétt verkalýðsins til verkfalla.

Hv. flm. varð tíðrætt um það, að kommúnistar blésu stöðugt að verkföllum og ættu sök á þeim. Þetta stangast einnig við grg. frv. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Stéttaskipting hefst í þjóðfélaginu. Aðiljar framleiðslunnar verða tveir, annarsvegar atvinnurekendurnir, er ráða yfir framleiðslutækjunum, hinsvegar verkamennirnir, er lifa á vinnu sinni. Og hér á landi, eins og um gervallan heim, skapast hagsmunaágreiningur milli þessara aðilja. Deilur rísa um skiptingu arðsins, og leiða oft til vinnustöðvana,“ o. s. frv.

Þetta er rétt, svo langt sem það nær. En þessi skýring getur ekki samrýmzt því, að það séu einstakir menn, sem leiki sér að því að koma á vinnustöðvunum. Þá er það einnig brosleg vöntun á yfirlætisleysi, er hv. flm. segja í grg., að þannig sé ástandið „um gervallan heim“, þó að hvert skólabarn viti, að þeir atvinnuhættir, sem leiða af sér þessa árekstra, eru ekki lengur ríkjandi „um gervallan heim“.

Fyrirbærið „lockout“ má heita óþekkt í íslenzku þjóðlífi. Og að setja löggjöf sem þessa álit ég, að samrýmist ekki 64. gr. stjskr., þar sem tekið er fram, að ekki megi skerða atvinnufrelsi manna nema almenningsheill krefji. Í þessu tilfelli er það siður en svo, að almenningsheill krefjist þess, heldur er það einungis hagsmunamál atvinnurekendanna. Ég verð því að lýsa yfir eindreginni andstöðu minni við frv. og mun greiða atkv. gegn því þegar við þessa umr.