26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (1858)

37. mál, landhelgissjóður Íslands

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Eg hefi í raun og veru ekki miklu við það að bæta, sem stendur í grg. þessa frv.

Við flm. höfum viljað ná þeim tilgangi með frv., að til yrði alltaf nokkurt reiðufé í landhelgissjóði til þess að sjá um nauðsynlega endurbyggingu varðskipastólsins og útbúnaðar hans eftir þörfum og kröfum tímans, sem hætt væri við, að farizt gæfi fyrir eða dregizt úr hófi fram á langinn, ef ríkissjóður ætti að sjá fyrir því.

Það er ekki hægt að neita því, að efnahag landhelgissjóðs hefir hrakað ákaflega mikið, og auðvitað stafar það af því, að horfið var að því ráði að láta sjóðinn standa straum af rekstri varðskipanna, að svo miklu leyti sem fé hrökk til. Það er ekki mjög langt síðan landhelgissjóður átti um 1½ millj. kr. í reiðufé. Í árslok 1926 og 1928 var efnahagur sjóðsins sá, að hann átti Óðin, virtan á 4753 þús. kr., Þór, virtan á 95 þús. kr., og Ægi, sem þá var í smiðum og búið var að borga í 371 þús. kr., og reiðufé 1331 þús. kr. Allar eignir sjóðsins voru því 2284 þús. kr. En eftir síðustu reikningum, sem fyrir liggja, eru eignirnar nú komnar niður í 1 millj. kr. og hafa því minnkað um meira en helming.

Ég veit, að það munu koma fram raddir um það. að hér sé verið að stofna til tekjurýrnunar fyrir ríkissjóð, þar sem sektarféð gangi ekki beint til ríkissjóðs. En úr þessu þarf ekki að gera mjög mikið. Þannig standa nú sakir, að sektarféð hefir alltaf farið minnkandi, og á árunum 1935 og 1936 var það ekki nema eitthvað á annað hundrað þús. kr. Það verður líklega talsvert meira á yfirstandandi ári, en þetta fé er, eins og menn vita, mikið að minnka. En nú á sjóðurinn eftir frv. okkar ekki aðeins að sjá fyrir nýbyggingu, heldur og viðhaldi skipanna og nauðsynlegum tækjum þeirra. Ég skal játa, að það er ekki fullrannsakað af okkur, hvort sjóðurinn geti þetta, eða réttara sagt, hvort þá verði nokkuð afgangs til þess að byggja sjóðinn upp. En þetta ætlast ég til, að rannsakað verði í n., sem fær þetta frv. til meðferðar. Ég hefi hér rekstrarreikning skipanna, og er nokkuð hægt að sjá þetta af þeim, þó að alltaf verði það nokkuð ágizkanir, hvað sjóðnum áskotnast mikið. En það gefur að skilja, að viðhald skipanna verður nokkuð mikið og flokkun þeirra ekki undir 50–60 þús. kr., en hún fer fram fjórða hvert ár. Ég held þess vegna, að ekki sé rétt að gera mjög mikið úr því, sem óbeint yrði dregið út úr rekstri ríkissjóðs, en þó að það yrði ekki nema 50–100 þús. kr. á ári, þá mundi það á löngu árabili verða álitlegur sjóður og þess megnugur að inna af hendi það hlutverk, sem við flm. höfum ætlazt til, að hann gerði með þessu frv.

Eins og hv. þdm. sjá, höfum við ekki lagt til, að allt það fé, er inn kemur fyrir björgun, verði látið renna til landhelgissjóðs, heldur aðeins helmingur þess. Ég get getið þess, að forstjóri skipaútgerðar ríkisins, sá maður, sem mest hefir haft með þessi mál að gera á undanförnum árum, hefir ekki talið það óheppilegt, að þessi leið væri farin.

Ég þarf ekki að flytja langa ræðu um nauðsyn þess að hafa landhelgisgæzluflotann sem öflugastan; það er svo almennt viðurkennt mál. Ég læt því þessi orð nægja, en vil mælast til, að frv. verði, að aflokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. — Hæstv. fjmrh. vill ef til vill heldur, að málið verði sett í hv. fjhn., en ég held, að það eftir eðli sínu eigi frekar heima í hv. sjútvn.