26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (1859)

37. mál, landhelgissjóður Íslands

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég þarf ekki að halda langa ræðu, þar sem þetta er mjög einfalt mál. Það hefir verið svo undanfarin ár, eins og hv. frsm. sagði, að ríkissjóður hefir óbeint fengið sektarféð, og hefir það verið látið ganga til rekstrar varðskipanna. Kostnaður við rekstur varðskipanna í þessu ári verður um 600000 kr., en verður á næsta ári, eftir áliti forstjóra skipaútgerðar ríkisins, ekki minni en 650000 kr., miðað við svipaða gæzlu og haldið hefir verið uppi undanfarið. Stafar þessi hækkun m. a. af því, að nýi varðbáturinn, er þá verður tekinn til notkunar, verður dýrari í rekstri en leigubátur sá, sem nú er notaður, ennfremur af almennri verðhækkun á öllum þeim vörum, er til þarf. Það má því reikna með, að kostnaður við gæzluna verði 650000 kr. á næsta ári. Þetta er svo há upphæð, að ríkissjóði verður nær ókleift að standa straum af henni, ef ekkert kemur á móti. Þó að landhelgissjóður greiði 150000 kr. af sektarfénu, verður ríkissjóðstillagið að vera 450000 kr. Á næsta ári verður þessi upphæð að hækka. Þá kemur upp sú spurning, hvort menn treysta sér til þess að hækka framlagið á fjárlögunum til landhelgisgæzlu og láta tilsvarandi upphæð af sektarfénu renna til endurnýjunar sjálfra skipanna. Ég vil mælast til þess, að sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar — ég hefi ekkert á móti því, að það verði hv. sjútvn. —, hafi náið samband við hv. fjvn. um afgreiðslu þess, og athugi það gaumgæfilega, hvort þess sé kostur, að eitthvað af sektarfénu verði látið renna í endurnýjunarsjóð. En ég er dauftrúa á það, að hægt sé að auka framlag ríkissjóðs til sömu gæzlu og nú er viðhöfð um 150000 kr., þó að ekki verði jafnframt rýrðar tekjur ríkissjóðs af sektum og björgunarstarfsemi. Ég tel það mjög áríðandi, að náin samvinna verði höfð við hv. fjvn um afgreiðslu málsins, þar sem hún hefir bein áhrif á þá upphæð. sem áætluð verður í fjárlögunum til landhelgisgæzlunnar.

Annað mál er það, ef menn vildu leggja svo mikla áherzlu á að ná fé í endurnýjunarsjóð, að þeir til þess vilji draga eitthvað úr þeirri gæzlu, sem nú er, t. d. að setja Þór upp í fjöru, þangað sem hann einn sinni var. En ég lít svo á, að upphæðin í fjárlagafrv. sé svo há, að erfitt verði að sjá af nokkrum verulegum tekjum í endurnýjunarsjóð á næstunni. Ég man ekki, hvað landhelgissjóður á í reiðufé eftir að búið er að borga bátinn, sem nú er í smiðum, en hann mun eiga fyrir tveimur slíkum bátum, jafnstórum. og má þá halda áfram að byggja slíka báta, eða a. m. k. bæta einum við bráðlega, án þess að endurnýjunarsjóðurinn vaxi.

Ég orðlengi svo ekki frekar um þetta, en vona, að hv. sjútvn. taki frv. til rækilegrar athugunar.