25.10.1937
Neðri deild: 10. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (1864)

38. mál, vigt á síld

Flm. (Finnur Jónsson):

Þetta frv. er flutt til þess að bæta úr misrétti. — Þegar bræðslusíldin er í sumum verksmiðjum mæld, en vigtuð í öðrum, hlýtur að verða ósamræmi úr því og skiljanleg óánægja þeirra, sem selja. Nú mun koma nokkuð í einn stað niður meðan síldin er ný., hvort hún er mæld eða vegin en þegar hún er orðin 2–3 daga og farin að þjappast saman í stórum förmum, minnkar rúmmálið svo, að kunnugir telja, að 1 það muni um 8 af hundraði, hvort síldin er þá vegin eða mæld. Nú hafa tvær stærstu verksmiðjur í einstakra manna höndum tekið upp þá aðferðina að mæla bræðslusíld. Það mun hafa skaðað seljendur síldarinnar um allt að 200 þús. kr. á síðasta sumri, og kannske meira. Þó verður að geta þess, að löndunartæki þessara verksmiðja hafa þann kost, að þau taka síldina í sjálfum skipunum og sjómenn losna við illa og erfiða vinnu við löndunina. — Nú mun í ráði, að flestar verksmiðjur setji upp sjálfvirk löndunartæki fyrir næstu vertíð, og þá má búast við, að almennt verði tekin upp mæling í stað vogar, ef ekki verður áður búið að lögbjóða vigt á síld. Með því verði, sem var í sumar á bræðslusíld, mundi það muna nálægt 600 þús. kr., sem sjómenn og útgerðarmenn mundu skaðast á því næsta sumar. Þar sem hér er að ræða um allstórar upphæðir og ranglæti, vona ég, að frv. fái fylgi, því að vitanlega er það ekki rétt, að sumar verksmiðjur greiði 60-70 aurum minna en aðrar fyrir síldarmálið.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn.