25.10.1937
Neðri deild: 10. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (1865)

38. mál, vigt á síld

*Ólafur Thors:

Ég ætla ekki við þessa umr. málsins að fara mjög langt út í það, m. a. af því, að enn hefi ég ekki öll þau gögn, sem æskilegt væri að leggja fram í þessu máli. Ég vil þó beina því til þeirrar hv. n., sem væntanlega fær frv. til athugunar, að röksemdirnar í grg. þess eru, að því er mér virðist, mjög úr lausu lofti gripnar. Sumpart sést þetta með því að lesa sjálfa grg., sumpart við rannsókn á öðrum hliðum málsins.

Það er t. d. ekki sérlega rökfast, að tveir þriðju hlutar þeirrar síldar, sem seld var í bræðslu í sumar og mæld af kaupanda, hafi verið gömul, samanþjöppuð síld. Þetta hugsa ég, að sé langt frá að vera rétt.

Annars er ég vantrúaður á, að það sé rétt, sem í frv. er tekið sem gefið, að einu gildi fyrir kaupanda, hvort hann fær t. d. 150 kg. af nýrri síld eða 150 kg. af gamalli. Ég get vel skilið, að það kunni oft að vera betra fyrir móttakanda að fá ákveðið mál af gamalli síld heldur en sama mál af síldinni nýrri, af því að hún þjappast saman. En ég er líka hræddur um, að það sé verra að fá gamla síld eftir vigt heldur en nýja. Þegar maður lítur út yfir leguna, þar sem skipin bíða losunar, flýtur lýsið úr síldinni um allan sjó, — það er brák um allan pollinn. Mér skilst, að þegar síld er búin að liggja þannig 2–3 daga, sé tiltölulega langtum meira eftir af því efni, sem mjöl fæst úr, heldur en af lýsi. Ég vil reyna að fá nánari upplýsingar um þessi efni fyrir 2. umr.

Það, sem n. verður að gera, er að rannsaka, hvort hægt er að koma við í þeim nýtízku verksmiðjum, sem um er að ræða, hagkvæmum tækjum til vigtunar á síld. Ég held, satt að segja, að það sé erfitt viðfangs eða alls ekki hægt. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hv. flutningsmanna þessa frv., hvar við getum keypt vogir, sem hægt er að koma við í þessum verksmiðjum. — Verksmiðjurnar hafa sjálfvirk löndunartæki, sem hafa kostað sjálfsagt ein 40–50 þús. kr. Félögin hafa eignazt þessi dýru tæki til þess að nota þau. Það yrði því hart aðgöngu að fá ekki að nota þau. — og hart fyrir sjómenn og síldveiðiskip að tefjast, meðan skipað væri upp með gömlu aðferðunum. Það sjá allir menn, sem eru eitthvað kunnugir útgerðarmálum, og það ætti hv. 1. flm. að vera, að það er ákaflega stórvægilegt tjón fyrir sjómenn, ef þeir eiga að lúta því, að losa síldina eins og gert er við síldarverksmiðju ríkisins og aðrar gamaldags verksmiðjur. Það er mikið tjón miðað við að losa með þessum nýju tækjum. Við í Kveldúlfi höfum tvær verksmiðjur, og hefir önnur þeirra þessi nýju tæki, en hin ekki. Við losum á 3 tímum í þeirri verksmiðjunni, sem þessi tæki hefir, það, sem tekur sólarhring með hinni losuninni.

Nú skulum við taka skip, sem veiðir t. d. 16000 mál. Það mundi ekki þurfa að liggja inni nema rúman sólarhring, ef það væri losað með nýju aðferðinni, en 8 sólarhringa, ef það væri losað með hinni aðferðinni, og oft er það svo, að tafir eru helzt, þegar aflabrögð eru bezt.

Ég vil leiða athygli hv. n. að því, að það, sem athuga þarf, er í fyrsta 1agi, að ég hygg, að það séu ekki rétt rök, að einu gildi fyrir viðtakanda, hvort hann fær ákveðna þyngd af gamalli síld eða nýrri, og í öðru lagi, hvort er hægt að fá hraða á losun með því móti, að síldin sé vegin, í staðinn fyrir að mæla hana, eins og gert er með þessum tækjum. Viðvíkjandi fyrri liðnum í þessu efni vil ég leiða athygli hv. n. að því, að þótt það væri satt, sem ég hygg, að sé ekki satt, að einu gildi, hvort keyptir eru 170 lítrar af gamalli síld eða nýrri, — jafnvel þó að það sé satt, þá er samt sem áður undir flestum kringumstæðum miklu meiri skaði fyrir kaupendur að taka á móti gamalli síld en nýrri, vegna þess að það, sem hefir háð mjög verksmiðjunum hér, er að þurfa að liggja með mikla síld og vinna úr henni gamalli.

Ég held, að frv. þurfi miklu frekari athugunar við en það enn hefir fengið, og ég vænti, að þeir flm. þess, sem flytja það ekki í ákveðnum tilgangi, taki til athugunar þessi og önnur gögn, sem ég fyrir mitt leyti mun leggja fram áður en málið verður afgr. frá n.

Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að gera þá fyrirspuru til hv. 1. flm. frv., sem um leið er form. síldarbræðslustj., hvort ekki sé hægt að koma við losunartækjum á bryggju bræðslustöðvar ríkisins á Siglufirði og víðar, og ef svo er, hvernig á því standi, að það hefir ekki verið gert, og hvort hann geti gefið upplýsingar um, hvað það valdi miklu tjóni að losa með þessari gömlu aðferð á móti því að hafa nýmóðins tæki, og hvort hann telji hyggilegra að beina fjármagni verksmiðjunnar til þess að kaupa slík losunartæki eða til þess að smiða þá þró, sem hefir nú verið byggð á Siglufirði fyrir reikning ríkisverksmiðjanna og orðið allkostnaðarsöm, án þess þó að hafa komið að tilætluðu gagni.

Til þess að gefa mönnum samanburð á nýju og gömlu losuninni, vil ég geta þess, að ég rakst á útgerðarmann hér fyrir utan, og hann sagði mér, að þegar sjómenn væru búnir að losa afla úr einni veiðiför línuveiðara, þá væru þeir búnir að fara l50 ferðir upp og niður bryggju síldarverksmiðjunnar á Siglufirði, sem vari 150 m. á lengd, og ef það er rétt, þá er það 45 km. göngutúr, sem þeir fá í ofanálag á það erfiði, sem þeir verða að leggja á sig til þess að afla síldarinnar. Og þó að ég sé ekki alveg eins mikill mannvinur og hv. 1. flm., þá hefi ég fundið til þess, þegar sjómenn hafa komið þreyttir að, þá skuli allra versti þrældómurinn bíða þeirra í landi við að landa síldina. Þeir hafa aldrei kvartað undan erfiðinu á sjónum, — þau störf eru svo samgróin þeirra eðli —, en hitt er ekki eftir þeirra eðli, að vera í landi í öðrum eins þrældómi og það er að losa skipin, því að það er þrældómur að verða að vera kannske 24 tíma að losa skipið. Þannig biður þeirra það allra versta eftir á, þegur þeir hafa lokið við að afla síldarinnar. Það hafa líka sagt mér sjómenn, sem hafa skipt við verksmiðjuna á Hjalteyri, að síðan vélar komu í snurpibátana, og þó einkum vegna þeirra löndunartækja, sem þar eru, séu síldveiðarnar leikur einn. Þetta finnst mér stórt atriði, og sem sagt, þau rök, sem færð eru fram með þessu frv., virðast mér alls ekki örugg og kannske ekki heldur rétt.

Ég held í öðru lagi, að höfuðáherzlan sé ekki lögð í það. sem mestu máli skiptir, en það er hraði í losun, því að það er höfuðharsmunamál útgerðarmanna og sjómanna. Og ég er hræddur um, að ef hv. 1. flm. og hans samherjar geta ekki fært sönnur á, að hægt verði að koma við vigt í þessum losunartækjum, þá þýði ekki að samþ. þetta frv. Það verður ekki samþ., ég trúi því ekki á hv. þm., að þeir leggi því lið. En ef þeir samþ. það, þá taka sjómenn þar fram fyrir hendurnar á þinginu.