25.10.1937
Neðri deild: 10. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (1866)

38. mál, vigt á síld

Flm. (Finnur Jónsson):

Ég gat þess í fyrri ræðu minni, að í ráði væri að setja upp sjálfvirk löndunartæki í svo að segja allar síldarverksmiðjurnar, sem starfa hér, einmitt næsta sumar, og er því nauðsynlegt að setja öllum verksmiðjum með lögum reglur um það, hvernig síldin skuli afhent.

Hv. þm. G.-K. vildi rengja það, að um ? af þeirri síld, sem kom í verksmiðjurnar á síðasta ári, hafi verið 2–3 daga gömul. Ég skal honum til upplýsingar, af því að hann er síldarmálum svo ókunnugur, benda honum á, að þótt síldarskipin komi oft, þá eru þau þó sjaldan úti minna en 2–3 daga í einu til að fylla sig. Það er því ekki fjarri lagi að áætla, að a. m. k. 23 af síldinni sé 2–3 daga gamalt. Þetta þarf ekki að útskýra fyrir þeim, sem eru eitthvað kunnugir síldveiðum. En nú er síldin ekki verri til bræðslu 2–3 daga gömul, heldur þvert á móti betri. — Reynslan sýnir, að ný síld bræðist verr en síld, sem er 2–3 daga gömul. Ég sé ástæðu til að upplýsa þetta, því að það litur út fyrir, að hv. þm. G.-K. sé þessu ókunnugur, þrátt fyrir afskipti hans af síldarverksmiðjum.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í önnur eins smáatriði og það, hvar fitan sé mest á síldinni. Hv. þm. G.-K. virðist álíta, að hún sé mest utan á kvíðnum og þaðan renni hún fyrst. Ég held, að allir, sem einhverntíma hafa borðað síld, viti, að fitan er fyrst og fremst á hryggnum á síldinni, en ekki kviðnum. Annars er þetta smáatriði, en það sýnir, hvað hv. þm. veit lítið um það, sem síld viðkemur. Hann heldur, að síldin sé eins og ístrupjaki með fituna utan á kviðnum.

Ástæðan til, að þetta frv. er fram komið, er fyrst og fremst sú, að ég geri ráð fyrir, að allar síldarverksmiðjur hér á landi setji upp sjálfvirk losunartæki á næsta ári, og þá er rétt að lögbjóða nú þegar vigtun í stað mælingar. Ég er viss um, að ef það verður ekki gert, verður verkfall hjá sjómönnum á síldveiðinni, því að þeir gera sig ekki ánægða með mælingu, þegar sjálfvirk tæki eru í öllum verksmiðjum. Það kemur til að sýna sig, ef frv. nær ekki fram að ganga, sem ég vona, að komi ekki fyrir.

Það hefir alltaf frá því fyrsta verið óánægja út af mælingu á síldinni, bæði hjá útgerðarmönnum og sjómönnum, og það sýndi sig meðan síldinni var skipað upp í venjulegum málum, að þá voru málin ekki alltaf rétt. Þarf ekki að minna bv. þm. G.-K. á, að þessi mál fengu á sínum tíma það nafn, að þau voru kölluð Hesteyrarmál. Nú er almennt viðurkennt, að mikið hagræði er að því fyrir sjómenn, að síldinni sé skipað upp með sjálfvirkum losunartækjum, svo mikið hagræði, að sjómenn hafa ennþá þagað við því, þó að þeir hafi verið talsvert snuðaðir á því, en þegar búið er að taka þetta upp almennt, þarf enginn að gera sér hugmynd um, að svo verði framvegis. Hv. þm. G.-K. spurði mig, hvers vegna væri ekki enn búið að setja upp sjálfvirk tæki við ríkisverksmiðjuna á Siglufirði. Hann spurði mig að þessu sem stjórnanda í verksmiðjunum. Ég kom þar fyrir 2 árum í fyrsta skipti, og var þá síldarvertíð að byrja, og þá var enginn tími til þess. Mér hafði verið sagt, og ég lagði trúnað að ekki væri hægt að koma slíkum tækjum fyrir nema þar, sem væri alveg ládautt, en það er oft úfinn sjór á Siglufirði. Við höfum samt í verksmiðjustj. verið að rannsaka þetta mál og erum nú komnir að þeirri niðurstöðu, að þessi erfðakenning, að ekki sé hægt að skipa upp á Siglufirði með sjálfvirkum tækjum, sé röng. Nú er forstjóri verksmiðjunnar utanlands til að fá tilboð í sjálfvirk losunartæki af nýrri gerð, sem hann hefir að nokkru leyti fundið upp. En viðvíkjandi því, að einhverjir verkfræðilegir örðugleikar séu. á að vigta síld, sem skipað er upp sjálfvirkt, umfram mælingu, þá hefir kunnur verkfræðingur sagt mér, að það komi ekki til neinna mála. Forstjóra síldarverksmiðjanna hefir verið fyrirlagt að fá tilboð í tækin þannig, að síldin verði vigtuð, en ekki mæld. Og ef það er rétt, sem ég fyrir mitt leyti álít, að enginn vandi sé að koma fyrir sjálfvirkum losunartækjum á Siglufirði, þá er vitanlega enginn vandi að koma slíkum tækjum fyrir við aðrar verksmiðjur, sem hafa mælt síldina.

Þegar þetta frv. var til umr. hér á fyrri árum, þá var síldin mæld í flestöllum verksmiðjum nema ríkisverksmiðjunum. Síðan hafa aðrar verksmiðjur fallið frá mælingu, nema Alliance, sem byggði sérstaka verksmiðju með sjálfvirkum losunartækjum á Djúpuvík, og Kveldúlfsverksmiðjurnar á Hjalteyri og Hesteyri. Allir aðrir hafa vigtað síldina. Verksmiðjurnar, sem hafa mælt síldina, hafa tekið við síldinni að mestu leyti af sínum eigin skipum, og þess vegna hefir ekki verið gert eins mikið veður úr þessu eins og annars hefði verið gert, og ennfremur eins og hv. þm. G.-K. tók réttilega fram, þá hafa verið svo mikil þægindi fyrir sjómenn, hvað losun síldarinnar hefir gengið fljótt. En það réttlætir ekki það misræmi, sem er í vigtun og mælingu síldarinnar, og það réttlætir ekki, að sumar verksmiðjurnar fái að taka upp á einu ári tvöfalt eins mikið og þessi tæki kosta, gegnum það, að mæla síldina, en vigta ekki.

Ég skal ekki fara langt út í að ræða um byggingu nýju síldarþróarinnar á Siglufirði. Það hefir sýnt sig, að það er hægt með góðum árangri að geyma síld með því að kæla hana með snjó og salti. Í sumar var að vísu ekki gerð tilraun nema með 1100 mál, en hún tókst svo vei, að við, sem höfðum trú á þessu, höfðum ekki gert okkur von um svo góðan árangur, sem raun bar vitni. Ég held því að eitt af því, sem verksmiðjurnar þurfa að gera í náinni framlið til þess að þurfa ekki að standa uppi anarga daga án þess að hafa nokkra síld til að bræða, sé það, að koma upp kæliþróm til þess að geyma síldina í.

Ég skal geta þess, af því hv. þm. G.-K. var að tala um það af svo miklum fjálgleik, eins og von var til, af því að hann hefir alltaf borið hag sjómannanna svo mjög fyrir brjósti, hvað löndunin væri erfið á Siglufirði, að leiðin í nýju þróna þar er ? styttri en í þær gömlu. Það er 25 m. leið, sem þarf að aka í þessa nýju þró. Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta. Hér er um mjög mikið réttlætismál að ræða, sem er vel framkvæmanlegt, og þar sem í ráði er, að a. m. k. allar ríkisverksmiðjurnar, Krossanesverksmiðjan og Dagverðareyrarverksmiðjan taki upp sjálfvirk losunartæki, þá vona ég, að Alþingi sjái svo um, að þessu verði kippt í lag með slíkri löggjöf, sem hér er flutt, þannig að þessar verksmiðjur viti það nógu snemma, að þær eiga að vigta en ekki mæla bræðslusíldina.