25.10.1937
Neðri deild: 10. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (1869)

38. mál, vigt á síld

*Bergur Jónsson:

Hv. þm. G.-K. lét þau orð falla, að hv. 1. flm. þessa frv. hefði hengt okkur meðflm. sína aftan í sig. Ég vil benda hv. þm. G.-K. á það, að áður hefir farið fram á þingi harðvítug deila um þetta mál, og áttust þá einkum við hv. þm. G.-K. og núv. hv. þm. N.-Ísf. um það var deilt, hvort ætti að vega alla síld við löndun, eða gefa það til leyfis, að hún væri sumstaðar mæld. Við hv. þm. Mýr. vorum sammála hv. þm. Ísaf., þáv., að ein regla skyldi alstaðar höfð um þetta atriði, og héldum því fram að taka ætti upp þá reglu að vega síldina. Hv. þm. Ísaf., sem nú er, átti þá ekki sæti í þingi. Ef á því að tala um það, hver togi annann af flm. þessa frv., þá er réttara að segja, að við meðflm. togum hann, því að við höfðum haldið þessari skoðun fram fyrr hér á Alþ. Aðalatriðið er þetta, að ég tel það nokkurnveginn sjálfsagt, að þessi vara eins og aðrar vörur hlíti sömu reglum, hver sem kaupandinn er og hver sem seljandinn er, svo ekki þurfi að koma til tortrygni eða efasemdir hlutaðeigenda um það, að þeir sæti ekki alstaðar sömu kjörum um móttöku síldarinnar.

Þótt ég sé gamall síldarmatsmaður, þá treysti ég mér ekki til að skera úr því, hvort mikið er betra fyrir seljendur. að síldin sé vegin heldur en mæld, en ég álit, að hér sem í öðrum greinum viðskiptanna eigi það sama að ganga yfir alla, svo ekki sé alið á grunsemdum og óánægju út af þessu ár eftir ár, eins og nú á sér stað.

Ég vil geta þess, að aðalástæðan fyrir því, að ég hefi gerzt meðflm. þessa frv., er sú, að ég hefi heyrt fjölda sjómanna halda því fram, að þeir fari verr út úr sölu á síld þar, sem síldin er mæld, heldur en þar, sem hún er vegin. Það er sú sama ástæða og verið hefir fyrir fylgi mínu við þetta frv. á fyrri þingum allt frá 1932. En svo ég sleppi þeim almennu aths., sem hér hafa komið fram, skal ég víkja að því, sem hv. þm. G.-K var að ræða um sjálfvirku tækin, að þau væru sjómönnunum til svo mikils hagræðis, þar sem þau fría þá við að aka síldinni sjálfir, að þeirra vegna mundu þeir sætta sig vel við það, að síldin verði mæld. Ég er hv. þm. sammála um það, að sjálfvirku losunartækin létta mjög undir með sjómönnunum, en það er einungis tekniskt spursmál, hvort þessi tæki er aðeins hægt að nota þar, sem síld er mæld, eða hvort þau eru einnig nothæf þar, sem síld er vegin. Og eftir því, sem ég bezt veit, er sú aðferð að vega síldina betri og áreiðanlega vinsælli. Ef það hinsvegar sýndi sig, að sjálfvirku tækin yrðu ekki notuð þar, sem síldin er vegin, vildi ég vinna það til að láta mæla síldina, svo hægt væri að nota þessi tæki, en það virðist ekki í fljótu bragði vera hægt að sjá að þetta tvennt geti ekki farið saman, sjálfvirk losunartæki og vigtun á síldinni; en geti hv. þm. G.-K. hinsvegar sýnt fram á það, að þetta sé tekniskt ómögulegt. þá býst ég við, að ég mundi ekki binda mig við vigtunina, eins og ég hefi þegar tekið fram.

Ég vil svo að lokum taka það fram, að ég tel það óviðeigandi, sem hv. þm. G.-K. var að sveigja að okkur meðflm. hv. þm. Ísaf. að þessu frv., að við værum einhverjir „attaníossar“ þessa hv. þm. í þessu máli, því við höfum áður hér á A1þingi haft hina sömu afstöðu til málsins og nú.