26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (1874)

41. mál, teiknistofa landbúnaðarins

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég flyt hér ásamt hv. þm. Mýr. á þskj. 42 frv. um teiknistofu landbúnaðarins. Frv. þetta er flutt samkv. ósk landbrh., og hefir hann látið undirbúa það. Ég vil leyfa mér að segja örfá orð um það hlutverk, sem þessari stofnun er ætlað.

Undanfarin ár hefir verið starfrækt teiknistofa Búnaðarbankans, og hefir hún látið í té leiðbeiningar og gert teikningar að byggingum, sem fé hefir verið lánað til úr Búnaðarbankanum. Það er víst, að það eftirlit hefir orðið að mjög miklu gagni og hjálpað til þess, að byggingarnar yrðu vandaðri en ella hefði orðið, en hitt er jafnvíst, að þörf er á að auka þetta eftirlit. Það er öllum vitanlegt, að í byggingarmálum okkar hafa orðið margvísleg mistök, sem stafa af því, að við erum enn svo ungir og óreyndir á þessu sviði. Nú er það svo, að varið er að segja má stórfé til bygginga í sveitum á ári hverju. Það lætur nærri, að það muni vera 600–00 þús. kr. árlega, auk þess fjár, sem bændur leggja fram sjálfir. Og það er vist, að enn meira fé verður lagt fram á næstu árum í þessu skyni, því að mikill hluti bæja á landinu er bókstaflega að fylla í rústir. Ef ekkert verður að gert, liggur ekki annað fyrir en að býlin leggist í eyði. Þess vegna verður ekki hjá því komizt að leggja fram meira fé til bygginga í sveitum á næstu árum en að undanförnu, en um leið verður að vanda sem bezt til eftirlitsins með því verki. Við, sem að þessu frv. stöndum, lítum svo á, að rétt sé að lögfesta stofnun sem hafi þetta eftirlit með höndum. Og helztu hlutverk hennar eru þessi:

Í fyrsta lagi að gefa leiðbeiningar um byggingu bæja og gera uppdrætti að þeim. Um leið skal það lögfest, að enginn geti fengið fé að láni eða styrk, nema hann leiti ráða hjá teiknistofunni og fari eftir fyrirmælum hennar.

Í öðru lagi er ætlazt til, að teiknistofan hafi forgöngu um, að reynt verði að sjá um, að hægt verði að smíða húsbúnað við hæfi fólks í sveitum, ódýran og hentugan. Gömlu baðstofurnar voru sérkennilegar og höfðu sinn húsbúnað í sínum stíl, nefnilega rúmin og fleira í stíl við þau. En með hinum nýju byggingum, sem nú rísa upp, er sá húsbúnaður einskis virði. Þess vegna er svo að segja enginn húsbúnaður til í sveitinni nú og herbergin því alveg snauð í hinum nýbyggðu húsum. Nú vita allir, að hér eru til mörg verkstæði, sem framleiða húsgögn, en húsgögnin eru bara allt of dýr. Hugmynd okkar er því, að teiknistofan hafi forgöngu um að finna hentuga húsgagnagerð, sem hæfir sveitaheimilum. Síðan stuðli hún að því að koma upp verkstæðum í sveitum, sem smíði haganleg húsgögn. slík verkstæði væri t. d. hægt að hugsa sér í sambandi við alþýðuskóla og bændaskóla. Alþýðuskólinn á Laugum hefir verið búinn íslenzkum húsgögnum og vefnaði, og er þar mjög prýðilega frá öllu gengið og til fyrirmyndar. — Ég er sannfærður um. að hér er um mjög merkilegt hlutverk að ræða og menningarmál. Hér er mikið verkefni fyrir okkar listamenn, og mætti stofna til samkeppni á meðal listamanna okkar um teikningar af húsbúnaði.

Í þriðja lagi á teiknistofan beinlínis að gera rannsóknir og tilraunir um húsagerð. Það er tæpast forsvaranlegl, að ekki séu gerðar tilraunir um, úr hvaða efni mundi hlýjast og heppilegast að byggja hér. Hvort halda á áfram með steinsteypuna eingöngu, eða hvort okkar gamla og góða byggingarefni, torfið, skuli notað að einhverju eða miklu leyti, því að enginn vafi er á, að það hefir marga kosti.

Að lokum vil ég aðeins geta þess, að ekki er ætlazt til sérstaks fjárstyrks úr ríkissjóði í sambandi við þetta frv., heldur á Búnaðarbankinn eða þær deildir hans, sem leggja fram fé til bygginga í sveitum, að standa undir kostnaðinum. vil ég svo leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.