26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (1881)

43. mál, landaurar og verðlagsskrár

*Flm. (Jón Pálmason):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í raun og veru gamall kunningi hér á Alþ., því það er shlj. frv., sem lá fyrir síðasta Alþ., en fékk ekki afgreiðslu. Í grg. er tekið fram, hvaða tilgangur það er. sem fyrir mér vakir með flutningi þessa frv., og hann er að fá úr því bætt, sem áfátt er um samningu verðlagsskráa, svo að grundvöllur sá, sem þær eiga að byggjast á, sé réttur og sýni verðlag hjá okkur til sjávar og sveita á hverjum tíma. Um margar aldir var aðalverðmælir okkar Íslendinga landauraverðmælirinn, og var þá ákveðið í vörum, hvað greiða skyldi fyrir vinnu og vörur. Ég geri ekki ráð fyrir, að hægt verði að koma þessu aftur í svipað horf, en ég býst við, að ef hægt væri að koma samningu verðlagsskrárinna: á réttan grundvöll, þann, að byggt væri á raunverulegu verðmæti framleiðsluvaranna, þá mætti nota þann verðmæti til að sanna, hvað væri rétt verð á hverjum hlut, sem gæti haft mikla þýðingu í okkar viðskiptalífi. Þetta frv. er því byggt á ákveðinni fjármálaskoðun, sem sé þeirri, að það, sem gjöld aukast frá ári til árs, eigi að miðast við hag framleiðslunnar, og hagur framleiðslunnar byggist á þeirri verðbreytingu, sem verður á okkar aðalframleiðsluvörum. Allt annað, sem kemur fram í þessu frv., er aukaatriði í raun og veru, ef þetta fengist fram.

Það má búast við, að nokkrar deilur verði um það, hvaða aðferð á að hafa til þess að finna þann rétta grundvöll. Eins og tekið er fram í frv., er það gert í samráði við hagstofustjóra. Það geta komið fram skiptar skoðanir um, hver sé sú rétta leið í þessu máli, en ég álít, að ekki verði skiptar skoðanir um, að aðalhugsunin í þessu frv. sé rétt, sú, að gjöld byggist á þeim breyt., sem verða á verðlagi framleiðsluvara okkar.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um frv. við þessa umr.; ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi lesið grg. fyrir því, en leyfi mér að óska eftir, að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.