26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (1890)

44. mál, sumarvinnuskóli alþýðu

*Pétur Ottesen:

Það er nú æðimargt, sem bendir til þess, að menn hér á landi séu meir og meir að tapa trúnni á það, að hægt sé að bjarga atvinnumöguleikum þjóðarinnar með því að efla og styrkja atvinnuvegina, sem vitanlega verða að bera uppi allar þarfir manna. Í þessu trúleysi er verið að grípa til ýmiskonar bráðabirgðaráða, til þess að bæta úr því erfiðleikaástandi, sem við nú um nokkurt skeið höfum átt við að búa. Það má telja margt upp í gerðum þess opinbera, sem bendir í þessa átt. Ég mun þó ekki gera það nú, en einn liðurinn í þessu er vitanlega þetta frv. Það hefir þann tilgang að freista þess að afla unglingum atvinnu, þó að ekki sé nema um þriggja mánaða skeið á árinu. — Þetta frv. hefir líka annan tilgang, sem ég vildi minnast sérstaklega á áður en málið fer til n. Þessi tilgangur felst í 9. gr. frv. og er sem sé sá, að afla þeim mönnum, sem kæmu til með að ganga á þennan sumarskóla, forgangsréttar að allri opinberri vinnu í framtíðinni, bæði erfiðisvinnu og annari, sem unnin er fyrir hið opinbera. Nú er það vitað, að atvinnuleysi yfir sumarmánuðina er eingöngu að heita má í kaupstöðum þessa lands. Þeir, sem á þennan skóla mundu fara, yrðu því nær eingöngu úr kaupstöðum, og er það athugunarvert, bæði hvað vega- og brúargerðir snertir, því að hingað til hafa sveitamenn haft talsverða atvinnu af slíkum framkvæmdum, og hefir það komið sér mjög vel á þeim erfiðleikatímum, sem íslenzkir bændur hafa átt við að búa nú á síðustu árum. Ég vildi sem sagt benda á, að sá tilgangur, sem í þessari gr. frv. felst, að afla þeim, sem á þennan sumarskóla ganga, forgangsréttar að opinberri vinnu, kemur mjög hart niður á bændum og búaliði þessa lands. Það er gert ráð fyrir því, að ekki færri en 500 unglingar geti komizt í þennan sumarskóla ár hvert, svo að það er augljóst, ef þátttakan verður jafnalmenn og gert er ráð fyrir, að þess verður ekki langt að bíða, að þeir einir, sem á þennan skóla hafa gengið, sitja fyrir allri opinberri vinnu. Ég vænti þess, að n., sem fær þetta frv. til meðferðar, geri sér grein fyrir því, hvaða breytingar gæti leitt af þessum aðstöðumun manna til þeirrar vinnu, sem hið opinbera hefir með höndum, ef þetta frv. næði fram að ganga.