27.10.1937
Neðri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (1899)

48. mál, raftækjasala rafmagnsveitu Reykjavíkur

*Emil Jónsson:

Ég skal ekki fara um málið mörgum orðum við 1. umr., en langar aðeins til að láta nokkur orð fylgja því til þeirrar n., sem fær það til meðferðar. Höfuðtilgangur frv. er sá, að tryggja það, að sem flest tæki fáist í notkun hið fyrsta, til þess að auka rafmagnsnotkunina til hagsbóta fyrir orkuverið og eins fyrir almenning. sem þessa orku á að nota. Um þetta höfuðsjónarmið frv. er gott eitt að segja, og ég er því samþykkur, að allar leiðir séu farnar, sem færar eru til þess að tryggja það, að þessi tæki komi hið fyrsta á markaðinn, bæði ódýr og örugg. En það getur verið dálítið álitamál, og frá mínu sjónarmiði er það allmikið álitamál, hvort sú leið, sem hér er stungið upp á, sé heppilegust eða öruggust til þess að ná meiri markaði heldur en sú leið, sem þegar hefir verið farin. Mér hefir verið sagt, bæði af raftækjaeinkasölunni og eins mönnum, sem kunnugir eru verzlun með þessi tæki erlendis, að hið lága verðlag, sem fengizt hefir hér gegnum raftækjaeinkasöluna, — en það er lægra en verð á tilsvarandi tækjum á erlendum markaði — hafi fengizt að verulegu leyti við það, að raftækjaeinkasalan gæti keypt í einu lagi og verzlað við eitt firma, svo að þar kemst ekki samkeppni að. Þegar rafmagnsveita Rvíkur fer að verzla fyrir sig, þá mun hún ekki taka allan innflutninginn.

Kaupstaðirnir, Ísafjörður, Seyðisfjörður, Hafnarfjörður og Akureyri, mundu ekki verða þar með. Þeir myndu annaðhvort fara sömu leiðina og Rvík eða tryggja sér verzlunina gegnum raftækjaeinkasöluna. Þá væri innflutningurinn kominn á fleiri hendur og þá myndi minnka sá „kvantum rabbat“, sem raftækjaeinkasalan fær á sínum vélum. Verzlunargróðinn miðast að miklu leyti við það, hvað mikið er keypt, en um það atriði vil ég ekki fara fleiri orðum að sinni. Ég geri ráð fyrir, að þetta verði athugað í n., og þá fær sú n. allar upplýsingar þessu viðvíkjandi.

Það er annað atriði, sem ég vil gera aths. við. Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir, að tollar og innflutningsgjöld ríkissjóðs af þessum tækjum verði felld niður. Nú stendur svo á, að hér á landi er tekin til starfa verksmiðja, sem býr þessi tæki til, og er því ósanngjarnt að afnema með öllu þann litla toll, sem er á þeim tækjum, sem flutt eru hingað tilbúin, en láta haldast toll og viðskiptagjald, sem er á efninu, sem við þurfum að kaupa til þess að framleiða þessar vélar hér. Það þyrfti því að vera svo, að ekki aðeins væri felldur niður tollur af tilbúnu vélunum, heldur væri líka felldur niður tollur og innflutningsgjald af því efni, sem fer í þessar vélar. Ég treysti því, að hvað sem Alþ. gerir í þessu máli, þá styðji það ekki það óréttlæti, að við, sem erum að reyna að framleiða þessi tæki, séum látnir borga fullan toll af efnivörunni á sama lima sem fullbúnu vélarnar sleppa tollfrjálsar. Það verður því að taka fram í frv., að auk þess sem þessar fullbúnu vélar séu undanþegnar tolli, þá séu efnivörurnar það líka, ef sanngirni á að vera í málinu.

Ég þarf svo ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vil aðeins benda á eitt atriði enn, sem til greina kemur í þessu efni. Til þess að kaupa þessi tæki þarf mikinn útlendan gjaldeyri, og mér hefir skilizt, að það væri gjaldeyrisskortur hjá bönkunum, svo þeir yrðu að takmarka við sig það, sem þeir gætu látið til hvers eins. Ég vil í því sambandi benda á, að ef þessi innlenda verksmiðja, sem hér er að rísa á fót, fær tækifæri til þess að keppa við hina erlendu keppinauta á markaðinum á heilbrigðum grundvelli, þannig, að hún fái tækifæri til að selja sína vöru, sem hún telur sig geta á samkeppnisfærum grundvelli, þá mun sparast við það mikill gjaldeyrir. Efnið, sem þarf að kaupa til vélanna, mun vera um helmingur þess, sem þær kosta fullbúnar. Ef um það er að ræða að fá sem flest tæki fyrir sem minnstan gjaldeyri, þá verður það bezt gert með því, að þessi tilraun yrði ekki kæfð í fæðingunni.