30.10.1937
Neðri deild: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (1909)

59. mál, byggingarsamvinnufélög

Flm. (Gísli Guðmundsson) :

Þetta frv. var flutt á síðasta þingi, en varð þá ekki útrætt og er því flutt nú á ný. l. um byggingarsamvinnufélög eru frá 1932, en síðar hafa verið gerðar á þeim lítilsháttar breyt., en þetta frv. er flutt sem frv. til nýrra byggingarsamvinnul., af því að eðlilegast þótti, að l. um byggingarsamvinnufélög yrðu öll felld saman í eina heild. Skal ég nú stuttlega gera grein fyrir þeim aðalbreyt., sem í þessu frv. felast.

Aðalbreyt. er í því fólgin að gera ráð fyrir, að í hverju bæjarfélagi sé aðeins eitt félag. Það getur naumast verið vafamál, að á ýmsan hátt er heppilegast fyrir þessa starfsemi, að aðeins eitt félag sé á hverjum stað, því að reynslan mun vera sú, að upp rísa fleiri smáfélög, sem byggja aðallega fyrir þá, sem upphaflega hafa stofnað þau. Með þessum hætti eru minni líkur til, að félögin hafi starfsfé heldur en ef um eitt allsherjarfélag er að ræða, auk þess sem óviðkunnanlegt er, að ríkisábyrgð, sem l. gera ráð fyrir, að félögin hafi, sé veitt svo mörgum aðiljum heldur en að veita hana einu félagi. Hinsvegar verður að sjá svo um, að þeir, sem verið hafa í félagi, verði ekki fyrir órétti vegna þessarar breyt. Því er svo ákveðið í frv., að þeir, sem gengið hafa í byggingarfélag, eigi rétt á að ganga inn í það allsherjarfélag, sem verður á hverjum stað, og koma inn í það í sömu röð og þeir hafa komið inn í sitt eigið félag. Í sambandi við þetta er svo önnur breyt. í frv., þar sem gert er ráð fyrir að innan félagsins megi stofna sérdeildir, sem hver í sinu lagi taki lán til sinnar starfsemi, og sú samábyrgð, sem l. gera ráð fyrir, nái aðeins til hverrar deildar fyrir sig.

Þá er lagt til, að stofnsjóðsgjaldið verði fellt niður. Verður ekki séð. að nein þörf sé á þessu gjaldi, þar sem ekki er um neinn sameiginlegan rekstrarkostnað að ræða, heldur ber hver húseigandi kostnað af viðhaldi síns húss.

Þetta eru aðalbreyt., sem frv. gerir ráð fyrir á núgildandi l. um þetta efni.

Ég varð ekki var við á þingi í fyrra, að fram kæmu nein andmæli gegn frv., og held ég, að menn hafi verið þeirrar skoðunar, að breyt. væru sanngjarnar, og ég held líka, að þær séu ótvírætt til bóta.

Ég legg svo að lokum til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.