02.11.1937
Neðri deild: 17. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (1935)

65. mál, fóðurmjölsbirgðir o. fl.

*Flm. (Þorsteinn Briem):

Hv. þm. Ísaf. viðurkenndi, að sér hefði skotizt yfir atriðin, sem ég benti honum á, svo að ég ætla ekki að tala meira um það. En hann berst enn á móti réttlætiskröfunni um kostnaðarverð og færir það til málsbóta, að þessum ákvæðum laganna yrði aldrei framfylgt; það sé svo langt frá því, að það hafi nokkurn tíma verið hægt, að síldarmjöl hafi oft verið selt hærra verði hér á landi en hægt hafi verið að fá fyrir það erlendis. Það er einmitt þetta, sem sýnir bezt þörfina á slíkum ákveðum, sem sett eru í frv., þar sem gert er ráð fyrir að selja mjölið, komið í skip á verksmiðjuhöfn, við kostnaðarverði, þó eigi yfir samsvarandi verði á erlendum markaði. Þarna er sleginn varnaglinn við því, sem hv. þm. Ísaf. segir, að komið hafi fyrir. Þó að hann segi, að það hafi ekki viljað til síðan hann kom þar til valda, mun það ekki þykja nægileg trygging fyrir því, að það komi aldrei fyrir í framtiðinni. Hann telur ýmis tormerki á því, að hægt sé að reikna út rétt kostnaðarverð fyrr en búið sé að selja alla framleiðslu sumarsins. Ég hygg, að það væri þó alltaf hægt að reikna út kostnaðarverðið árið á undan, og síðan mætti áætla hækkun eða lækkun frá því „prósentvís“ og eftir þeim líkum fara nærri um kostnaðarverðið. A. m. k. ættu ákvæði frv. að vera næg trygging þess, að slíkt hneyksli komi ekki oftar fyrir, að þessi vara sé seld hærra verði hér en erlendis, að menn noti sér neyð íslenzkra bænda á slíkan hátt í gróðaskyni.

Ég hygg því, að þessi ákvæði séu alveg nauðsynleg.