02.11.1937
Neðri deild: 17. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (1936)

65. mál, fóðurmjölsbirgðir o. fl.

*Finnur Jónsson:

Hv. þm. Dal. hefir skotizt yfir það, að ég tók vel undir, að það væri nauðynlegt ákvæði, að síldarmjölið skyldi ekki selt hér hærra verði en fengist erlendis, að frádregnu útflutningsgjaldi og kostnaði við geymslu, flutninga o. þ. h. Hitt atriðið hefi ég bent honum á, að ómögulegt sé að framkvæma. Þá er það eina rétta að miða við erlenda verðið. Það eitt er réttlætanlegt, þegar reikna á út verðið, sem greitt er fyrir síldina til útgerðarmanna og sjómanna. Hv. þm. Dal. sýndist verða alls hugar feginn, þegar ég fræddi hann um það, að einhvern tíma hefði komið fyrir, að mjölið hefði verið selt bændum dýrar en útlendingum. Hann má það. En ég benti honum ekki á það til þess að kasta rýrð á fyrrv. verksmiðjustjórn. Orsökin var aðeins sú, að það var ekki hægt og er ekki hægt að reikna þetta út svo, að ekki verði einhverjum aðilja gert rangt til. Hverri verksmiðjustjórn verður það eðlilega fyrst fyrir að reikna þetta kostnaðarverð fyrirfram nógu hátt, til að fyrirbyggja tap. Ég álít það óviðeigandi ummæli hjá hv. þm. Dal. að láta sér um munn fara, að fyrrv. verksmiðjustjórn hafi þarna viljað nota sér neyð íslenzkra bænda.

Meinið var, að verksmiðjustjórnin hafði fyrir sér loðin lagaákvæði, sem enginn getur skýrt út. Eða vill hv. þm. Dal. gefa skýring á því, hvað meint er með þeim? Og ætlast hann nú til þess, ef ágóði verður á verksmiðjurekstri ríkisins eitthvert sumar, að hann yrði notaður til þess næsta ár að setja niður verð til bænda, þannig að sjómenn borguðu þeim beinan styrk til fóðurbætiskaupa?