02.11.1937
Neðri deild: 17. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (1938)

65. mál, fóðurmjölsbirgðir o. fl.

*Flm. (Þorsteinn Briem):

Hv. þm. Ísaf. talaði enn um kostnaðarverðið og segir, að ákvæðin séu ekki framkvæmanleg. Ég benti á, að það er alltaf hægt að reikna út kostnaðinn árið á undan og miða við hann. Þá mundu vera gefnir nægilega margir „faktorar“ til þess að mega reikna nokkurn veginn hækkun eða lækkun á kostnaðarverði síldarafurða. Vitanlega ætti að hafa kostnaðarverðið svo hátt, að verksmiðjurnar séu skaðlausar af. — Mér skildist, að aðallega vekti fyrir hæstv. forsrh. að setja flokksstimpil á málið, og því ætla ég ekki að fara inn á það, sem hann sagði — (Forsrh.: Ég var bara að tala um, að annað frv. kæmi fram bráðlega. — Ætli hv. þm. Dal. hafi ekki séð frv. hjá Bjarna?). — Hæstv. forsrh. hefir fyrr leikið þann leik, þegar einhver andstæðingur hans hefir flutt gott mál, að eigna það sínum flokki, nota það sem fjöður í sinn prúða hatt. Ég skipti mér ekkert um það flokkslega tillit, sem hann setur ofar öllu. — Þegar þessi skylda var bundin við ríkisverksmiðjurnar, var það vegna þess, að þeim voru í upphafi gefin mikil hlunnindi. Þær hefðu aldrei risið af stofni án ríkisaðgerða. Það er ekkert óeðlilegt, að því fylgi skyldur. Ég get ekki talið óeðlilegt, þó að þessi skylda sé sérstaklega miðuð við þær verksmiðjur, sem mestra hlunninda hafa notið. Annars skal ég ekki vera móti því, að sett verði ákvæði um aðrar verksmiðjur, ef þörf þykir.