05.11.1937
Neðri deild: 20. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (1941)

66. mál, jarðræktarlög

Flm. (Þorsteinn Briem):

* Herra forseti! Frv. þetta hefir áður verið flutt hér á þingi, þó að það hafi ekki verið flutt fyrr hér í þessari hv. deild. Frv. er einn liður í þeirri viðleitni af hálfu þess flokks, sem það flytur, í þá átt að vinna að því, að landbúnaðurinn fái borið sig. Í því efni skiptir hvað mestu, að framleiðslukostnaðurinn fái lækkað. Til þess að ná því marki er m. a. nauðsyn á, að vinnukostnaður við öflun heyja fái lækkað. En til þess munu vart aðrar leiðir færar en aukin ræktun.

Í greinargerð frv. eru færð rök að því, að helmings allra heyja í sveitum verður að afla af lélegum útslægjum eða af svo þýfðu túni, að ekki borgar full vinnulaun, miðað við aðkeypt vinnuafl. Er ljóst, að framleiðslukostnaðurinn fær ekki lækkað meðan svo er, að meðalbóndinn verður að afla helmings heyja sinna með undirmálskaupi fyrir sig og vinnufært skyldulið sitt. Fátt er því meir aðkallandi fyrir sveitir landsins en að auka það land, sem gefur full vinnulaun. Er þá fyrst fyrir að fullslétta túnin, sem þegar eru til.

Með núgildandi jarðræktarlögum var í þessu efni sporið stigið aftur á bak, þar sem styrkurinn fyrir túnasléttur er lækkaður, jafnvel hjá þeim, sem minnst hafa áður ræktað og versta hafa aðstöðu. Úr þessu er hin mesta nauðsyn að bæta nú þegar. Og er það ein ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt.

Hér er því lagt til, að styrkur fyrir allar sæmilega vandaðar túnasléttur verði eigi lægri en hann áður var, og jafnframt gert ráð fyrir hækkun frá því, sem var áður, á styrk á fullunnar og vandaðar sáðsléttur, en styrkur fyrir sáðsléttur með eins árs jarðvinnslu aftur lækkaður að sama skapi. Sú reynsla er m. a. staðfest af hinum merku tilraunum Ræktunarfélags Norðurlands, að sáðsléttur gefa stórum mun betri arð en aðrar sléttur.

Kostnaðarmunur er hinsvegar aliverulegur á sáðsléttu og græðisléttu, og er því lagt til, að nokkur hluti þess aukakostnaðar komi fram í styrk, þegar um sáðsléttur með þriggja ára jarðvinnslu er að ræða.

Því meiri arð gefur ræktunin, því betur endist hún og því minni er áburðarþörfin, sem jörðin er oftar unnin. En hingað til hefir enginn munur verið á gerður í styrk, hvort um eins árs eða fleiri ára jarðvinnslu á sáðsléttu væri að ræða. Þetta er hvorki sanngjarnt né heppilegt fyrir ræktun landsins. Er því lagt til, að styrkurinn fari stighækkandi fyrir hverja ársjarðvinnslu.

Þykir sjálfsagt að örva menn sem mest til að gera vandaðar sáðsléttur, með því að sú vinnsluaðferð á án efa framtíðina fyrir sér, eigi sízt er oss lærist betur að nota sáðskipti eins og aðrar þjóðir.

Jafnframt þótti réttmætt að veita bændum. sem áður hafa notað ódýrari túnasléttunaraðferð og því ekki náð fullum árangri af ræktuninni, styrk til að endurbæta tún sín með fullkominni endurræktun. Er því lagt til að veita styrk fyrir slíka endurræktun, svo að sá styrkur ásamt fyrri styrk nemi samtals þeim styrk, sem er veittur fyrir sáðsléttur.

En jafnhliða því, sem frv. þetta gerir ráð fyrir sem áður var, og meiri hækkun fyrir vönduðustu sáðslétturnar, er hér stefnt að því að skapa straumhvörf í ræktunarframkvæmdum á þeim býlum, þar sem ræktunin er skemmst komin. Er því lagt til, að á næstu 10 árum verði veittur 20% viðbótarstyrkur fyrir vandaðar sáðsléttur til þeirra býla, er hafa minni kúgæfan heyskap af véltæku túni eða áveituengi en sem svarar meðaleftirtekju af 6 ha. túni, að dómi Bf. Ísl.

Enn er ræktun sveitanna eigi lengra komið en svo, að í flestum sauðfjársveitum a. m. k. mundi það kallast meðaljörð, er hefði 6 ha., eða 19 dagsláttna fullræktað véltækt tún, og nægilegt beitiland, þó aðrar slægjur væru lítilfjörlegar eða litlar. Er því með þessu ákvæði að því stefnt, að hvert byggilegt kot fái orðið að meðaljörð, eftir þeim mælikvarða, sem nú er víðast, en njóti síðan venjulegs styrks til frekari umbóta.

Er þá til þess ætlazt, að er bóndinn fær aflað þessara kúgæfu heyja af véltæku landi, þá gefi heyskapurinn honum meiri tíma afgangs til framhaldsræktunar. Verður sú ræktun þá frekar unnin í heimavinnu manna og hesta, svo að sá áfanginn ætti að verða bóndanum léttari, sem eftir er þangað til hann getur framfleytt öllum þeim búpeningi, er fjölskylda hans þarf til framfæris, á heyjum af véltæku landi. En að því verður að stefna, að svo verði sem víðast.

Fela verður trúnaðarmönnum að gera jafnóðum og þarf þær mælingar, er leiðir af þessu ákvæði, þar til fullkomnar túnamælingar hafa fram farið. En nánari ákvæði um eftirlit af þeirra hálfu eiga heima í reglugerð.

En um leið og styrkur til ræktunar er hækkaður þótti okkur flm. ekki verða hjá því komizt að lækka nokkuð árshámark ræktunarstyrks til hvers býlis. Er þó styrkur til framræslu og votheyshlöðubygginga undanþeginn hámarksákvæðum, svo að framfærslukostnaðurinn fæli menn síður frá að taka frjóefnaríkasta landið til ræktunar og til að jafna aðstöðu milli jarða, er hafa mismunandi framræsluþörf, og að því er tekur til votheyshlöðubygginga að skapa eigi misrétti milli héraða, er hafa mjög ólíka þörf fyrir votheyshlöður vegna veðráttu.

Áburðurinn er grundvallarskilyrði allrar ræktunar. Áburðarþörfina má nokkuð marka af því, að þrátt fyrir viðskiptahömlur og gjaldeyrisvandræði hefir innfluttur áburður numið um 450 þús. kr. hin síðari ár, og mun þó áburðarþörfinni alls ekki hafa verið fullnægt sem vera þurfti, ef fé hefði verið fyrir hendi til meiri áburðarkaupa.

Þessi áburðarkaup gætu hinsvegar minnkað að mun, ef hirðing heimafengins áburðar kæmist í það lag, sem vera á, því að búfénaðurinn framleiðir næga fosfórsýru og kali til viðhalds allri þeirri ræktun, sem nú er í landinu, og 2/3 þess köfnunarefnis, sem ræktun landsmanna þarfnast. Bera skýrslur Búnaðarfélags Íslands þess gleggstan vott, hve vér erum skammt á veg komnir um þessi efni. En þótt sýnt sé, hver þörf er bráðra umbóta í þessu efni, þykir samt eigi fært að þessu sinni að hækka styrk fyrir aðrar áburðargeymslur en safnþrær, og er hann hækkaður í frv. þessu um kr. 0,50 — kr. 1,50 á m 3 eftir gerð.

Í fáu er ræktun vorri eins tilfinnanlega áfátt sem um nægilega framræslu. Áburðurinn og frjóefni jarðvegsins sjálfs notast því illa. Töðufall og fóðurgildi verður miklum mun minna, og jarðabæturnar endast verr. Svo rammt kveður að víða, að allmikill hluti töðunnar getur ekki talizt kúgæft afurðafóður, vegna ónógrar framræslu.

Á þennan lið ræktunarinnar verður því að leggja hina mestu áherzlu. Og það því fremur, sem íslenzkt mýrlendi hefir að dómi kunnáttumanna ýmsa mikilsverða kosti til ræktunar fram yfir mýrlendi nágrannalandanna, sem svo miklu er kostað til framræslu á. Í jarðvegsdjúpu mýrlendi eigum vér það ræktunarland, sem minnstu þarf að kosta til áburðar á, ef nógu vel er ræst fram.

Er því í frv. þessu lagt til, að styrkur fyrir opna skurði verði hækkaður um 50 aura á hverja 10 m 3 og styrkur fyrir lokræsi um 30–80 aura á hverja 10 m. eftir gerð.

Vegna hinnar brýnu nauðsynjar landsmanna að verða sjáiffærir um framleiðslu garðávaxta, er hér lagt til að hækka styrk fyrir matjurtagarða um 20 aura á hverja 100 m.2 Og til að ýta undir menn um kornyrkjutilraunir er öðrum sáðreitum ætlaður sami styrkur.

Eigi þótti rétt að sleppa allri flokkun girðinga, svo sem gert er í gildandi jarðræktarlögum. Munu netgirðingar með 1–2 strengjum yfir vera um fimmtungi dýrari en venjulegar gaddavírsgirðingar, þó þeim sé nú ætlaður sami styrkur. Hefir þótt rétt að miða styrkveitingu fyrir þessar tvær gerðir girðinga meir við stofnkostnað en gert er nú j lögum, og er því lagt til, að styrkur fyrir vírnetsgirðingar verði færður upp í það, sem hann var áður en hin nýju jarðræktarlög voru sett.

Fátt léttir meir starf einyrkjans vetur og sumar en hlöður yfir heyfenginn. Og í vangæfri heyskapartið geta hlöður yfir þurrhey og vothey verið bjargráð. Hér er því lagt til, að styrkur fyrir þurrheyshlöður sé hækkaður um 25–50 aura á m 3 og fyrir steyptar votheyshlöður ójárnbentar um 50 aura á m 3, en allmiklu meira, ef um vönduðustu gerð er að ræða. Jafnframt er lagt til, að á vel gerðar votheyshlöður úr öðru efni sé og veittur nokkur styrkur. Getur verið rétt að styrkja þá gerð votheystófta, þar sem eigi hafa enn verið tök á að skipa svo vel peningshúsum sem nauðsynlegt er, svo og þar, sem illt er um steypuefni eða efnahagur leyfir eigi dýrari gerð.

Með því að eigi hafa á undanförnum þingum fengizt samþykkt lög um alhliða tilraunastarfsemi í þágu landbúnaðarins, er lagt til í þessu frv., að lögbundið verði árlegt framlag til Bf. Ísl. til kerfisbundinna jarðvegsrannsókna og tilrauna í hverri grein jarðræktarinnar og í þeim jarðvinnsluaðferðum, er þar að lúta, og séu reglur um gerð og tilhögun styrkhæfra jarðabóta miðaðar við niðurstöður tilraunanna á hverjum tíma. Eru framhaldstilraunir í þessu efni svo mikið grundvallaratriði í ræktunarmálum landsins, að sjálfsagt þykir, að sett séu ákvæði um þetta í jarðræktarlögum, meðan eigi fást sett lög um alhliða tilraunastarfsemi í þágu landbúnaðarins. Þá eru í þessu frv. numin burtu þau ákvæði gildandi jarðræktarlaga, er mestri óánægju valda meðal bændanna, svo sem hin óvinsæla kvöð, sem lögð er á ræktunarstyrkinn með l7. greininni, og önnur þau ákvæði, er skerða eignarrétt manna á því landi, sem ræktað er. Hefir svo mikið verið rætt og ritað um það efni, að ég get geymt mér að víkja að því nánar þar til tilefni gefst.

Breytingar þær, sem ég hefi vikið að, eru allar við II. kafla gildandi jarðræktarlaga. Voru breytingar þessar bornar upp fyrir jarðræktarnefnd síðasta búnaðarþings, og var hún þeim fylgjandi með nokkrum smábreytingum, er ég þegar tók til greina. Þessi kafli var síðan ræddur sérstaklega á búnaðarþinginu, eins og hann liggur nú fyrir, og fékk hann þar einróma fylgi.

Greinargerð frv. fylgir tafla, er sýnir samanburð á styrk skv. eldri jarðræktarlögum og þeim, er nú gilda, og skv. því, sem lagt er til í þessu frv. Get ég vísað til hennar um þær aðalbreyt. og nýmæli, er felast í þessum kafla frv.

Með því að samkomulag náðist um I. kafla laganna og þær breytingar hafa þegar verið gerðar, er mestu þóttu skipta, höfum víð flm. ekkí lagt til, að þeim kafla væri breytt.

Skal ég þá með örfáum orðum víkja að þeim höfuðbreytingum, er felast í síðari köflum frv. Í III. kafla eru sett ýmis nánari ákvæði um félagsræktun en nú eru í lögum, svo sem um formlega stofnun ræktunarfélaga, samþykktir þeirra og staðfestingu á þeim. Þá hefir og þótt rétt að setja ákvæði um íhlutunarrétt sveitar- og bæjarstjórna, er sérstaklega stendur á. Ennfremur um afstöðu ræktunarfélags til annara aðilja, er lönd eiga að því landi, sem tekið er til félagsræktunar, o. fl.

Við IV. kafla gildandi jarðræktarlaga eru þessar breytingar helztar í frv. okkar:

1. Fé verkfærakaupasjóðs skiptist milli hreppabúnaðarfélaga að hálfu ettir lögbýlafjölda, en að hálfu eftir tölu jarðabótamanna í búnaðarfélögum.

2. Styrkhæfum verkfærum fjölgað.

3. Heimilað að veita kvenfélögum styrk til tóvinnuvélakaupa.

4. Ákvæði sett um, að þeir búnaðarfélagar skuli jafnan ganga fyrir um styrkveitingar, er áður hafa fengið minnstan styrk.

5. Ákvæði um, að verkfæri til heimavinnu að ræktun, heyskap og tóvinnu gangi fyrir stærri verkfærum um styrkveitingu.

Þessar breytingar munu vart þurfa skýringa. Þó skal ég víkja nokkrum orðum að þeirri breytingu, sem hér er lagt til, að verði gerð á gildandi ákvæðum um skiptingu á fé verkfærakaupasjóðs. '

Til hennar liggja þær ástæður, að í kaupstöðum hafa menn þegar aflað sér þeirra jarðræktarvéla, sem mest eru notaðar. Hinsvegar henta ýmis heimilisverkfæri, svo sem hestaverkfæri, þar miður og eru lítt eða ekki notuð, nema þar, sem einn maður eða fleiri afla sér þeirra til að skapa sér sérstaka atvinnu með þeim í vinnu hjá öðrum, svo sem plægingarmenn við plægingu matjurtagarða, og þeir, er taka að sér vélslátt fyrir aðra sem atvinnu.

Einstaklingunum verður þar of dýrt að eiga sjálfir verkfærin, þó styrk fái, af því að notin verða lítil hjá hverjum vegna landsmæðar. Fé hefir því safnazt fyrir frá ári til árs í verkfærakaupasjóði hjá sumum kaupstaðabúnaðarfélögum án þess að koma að notum. Verkfærakaupaþörfin fer því hlutfallslega minnkandi í kaupstöðunum, þó að ræktun haldi þar áfram að aukast.

Í sveifum verða hinsvegar jafnan erfiðleikar á að eiga heimavinnuverkfæri í félagi. En þörfin á þeim vex eftir því, sem ræktun er viðar hafin. Og þar sem tilgangur sjóðsins hefir frá upphafi verið sá, „að létta undir með bændum“, þykir það nær tilganginum að miða við tölu lögbýla en félagatölu, sem ekki er einu sinni bundin við neinar landsnytjar eða þátttöku í ræktun. Er hér því lagt til, að hlutdeild hvers búnaðarfélags í fé verkfærakaupasjóðs fari að hálfu eftir tölu lögbýla og að hálfu eftir tölu jarðabótamanna ár hvert, en ekki að nokkru eftir félagatölu, eins og nú er í lögum.

Við V. kafla gildandi laga eru litlar breytingar. En þar sem eigi verður komizt hjá miklum halla af kaupum á nýjum vélum til tilrauna og af starfrækslu þeirra meðan á tilraununum stendur, þykir eigi verða hjá því komizt að æta vélasjóði nokkurt rekstrarfé í fjárlögum. Og eru því ákvæði, sem þar að lúta, tekin upp í þetta frv.

Í VI. kafla eru nokkrar breytingar. Búferlaflutningur að opinberri tilhlutan tekur svo mjög inn á atvinnusvið þeirra bænda, er fyrir verða, að gæta verður allrar varúðar áður en þau ráð eru tekin. Verður að treysta sveitarstjórnum bezt til að gæta réttar einstaklinga og heildar í því efni, og þótti því rétt að veita sveitar- og héraðsstjórnum meira vald um þessi mál en nú er í lögum. Það má og telja sanngjarnt, að ábúandi jarðar, sem svipt hefir verið jarðabótastyrk. fái nokkru meiri bætur en nú er í lögum fyrir skaða sinn, og þó einkum meiri tryggingu fyrir því, að fjölskylda hans fái fremur upp borið kostnað hans við stofnun nýbýlis, ef hann sjálfur fellur fljótlega frá eftir stofnun þess. En að því lúta helztu breytingarnar við þennan kafla.

Í VII. kafla frv. eru allmargar breytingar frá því, sem nú er í lögum. Miða sumar þeirra að því að tryggja rétt heildarinnar, svo sem um rétt bæja og kauptúna til leigulands, sem síðar þarf á að halda undir byggingarlóðir, ef byggð vex örar en fyrir varð séð. Aðrar breytingar lúta hinsvegar að því að styrkja aðstöðu einstakra ræktenda, t. d. ef leiguhafi ræktunarlands fær eigi af einhverjum ástæðum ræktað það, sem tilskilið er á ári hverju. Þá hefir og þótt ástæða til að setja nánari ákvæði um nokkur þau atriði, er reynsla síðari ára í þessu efni gefur tilefni til, svo sem um viðhald ræktunarmannvirkja á erfðaleigulöndum og rétt sveitar- og bæjarstjórna, ef vanefndir verða. En fyrir þessum breytingum öllum er gerð allnákvæm grein í athugasemdum við einstakar greinar frv., og skal því eigi að þeim vikið nánar.

Við VIII. kafla eru eigi aðrar breytingar en þær, að með því að eigi þykir ástæða til að setja hér refsiákvæði um brot starfsmanna Búnaðarfél. Íslands gegn öðrum reglum, sem þeim eru settar í erindisbréfi, en þeim, sem settar eru vegna l. þessara, er lagt til, að þessu sé breytt.

Því skal ekki neitað, að breytingar þær, er í frv. felast, hafa nokkur aukin gjöld í för með sér. Fyrrv. búnaðarmálastjóri Sigurður Sigurðsson gerði á sínum tíma áætlun um, hve mikið jarðræktarstyrkur mundi hækka, ef breytingar þær, sem í frv. felast, næðu fram að ganga. Komst hann að þeirri niðurstöðu, að hækkunin næmi 54 þús. kr., en þá var 20% viðbótarstyrkurinn að vísu eigi meðtalinn. Er það að vísu nokkur fjárhæð. En þegar þess er gætt, að þetta er mun lægri upphæð en sú, sem varið er af opinberu fé til hinnar nýju ferðamannaskrifstofu ríkisins, svo að eigi séu fleiri dæmi talin, þá ætla ég, að engum fái blandazt hugur um það, að þessu sé verjandi til að efla ræktun landsins meir en nú er.

Jarðræktin verður að teljast farsælli atvinnuvegur og þjóðhollari en að stjana undir erlent ferðafólk, að þeirri þjónustu ólastaðri. Við flm. frv., og sá flokkur, er að því stendur, erum ekki í vafa um, að sú skoðun muni sigra, þó síðar verði, að jarðræktin sé önnur aðalundirstaðan, er þjóðfélagið verður að hvíla á, og að það sé miklu til þess kostandi, að sú undirstaða verði sem traustust.

Við flm. erum fúsir til samvinnu við hina ráðandi þingflokka um öflun tekna eða um sparnaðarframkvæmdir til að standast þann útgjaldaauka, sem í frv. felst. Væntum við þess, að ef vilji er þar fyrir hendi, þá megi það vel takast að spara ríkissjóði fyllilega fé á móti þeim útgjöldum. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.