09.11.1937
Neðri deild: 23. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (1950)

71. mál, aðför

*Flm. (Einar Olgeirsson):

Ég býst við, að það sé rétt hjá hv. þm. Barð., að það hafi fallið burt úr byrjuninni, en það ætti að vera auðvelt að laga það. En um hitt, sem hv. þm. Barð. var að tala um, hvort þessi réttur, sem þar um ræðir, væri notaður, þá gat hann þar talað fyrir munn þeirra, sem hafa með höndum að innheimta gjöld ríkisins. Ég þekki til þess, að hér í Reykjavík hefir verið gengið mjög stíft eftir gjöldunum. Ég þekki til þessa, því mér hafa borizt margar kvartanir frá fólki út af því, að munir hafa verið teknir frá því, sem það hefir þurft á að halda, t. d. kommóður og ýmislegt fleira. Ég er því ekki í nokkrum vafa um, að það er ekki vanþörf á að athuga þetta mál.

Það má vera, að það sé þannig um ýmsa menn, að það sé erfitt að ná inn hjá þeim gjöldum. En það eru ekki þeir, sem fyrst og fremst er verið að hugsa um í þessu sambandi. Það eru þeir, sem teknir hafa verið af hlutir, án þess að þeir megi missa þá.

Það mun vera rétt, að þarna sé formgalli, sem ég skal laga um leið og ég athuga þetta betur í sambandi við l. Ég vil svo ítreka beiðni mína um, að málinu verði vísað til allshn.