08.11.1937
Neðri deild: 22. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (1959)

76. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

*Sveinbjörn Högnason:

Ég er því ekki mótfallinn, að mál þetta fái athugun í n., en bendi þó á það, að von er á brtt. við mjólkurl. hér á þessu þingi, og eru þær undirbúnar í samræmi við þá reynslu, sem fengizt hefir af framkvæmd l. hér og með öðrum þjóðum. Þar verður tekið til athugunar það atriði, sem mér virðist vaka fyrir hv. flm., að koma í veg fyrir, að smáframieiðendur á bæjarlöndum verði hart úti. Hann á hér sérstaklega við Akureyri, en þetta hefir ekki komið svo mjög fram hér í Reykjavík t. d. Hinsvegar vil ég benda hv. n. á, að ef 1. gr. frv. verður samþ., þá er búið að fella niður allar skyldur, sem hvíla á mjólkurframleiðendum á bæjarlöndum. Þeir njóta þá verndarinnar, en hinir utan bæjarlandanna standa undir öllum skyldum og kvöðum. Ég held, að þetta vaki ekki fyrir hv. flm., heldur hitt, að koma í veg fyrir, að þessir menn á bæjarlöndunum verði órétti beittir.

Það, sem stendur í grg., að fátækir mjólkurframleiðendur á Akureyri megi ekki neyta sinnar eigin mjólkur án þess að greiða af henni verðjöfnunargjald, er á nokkrum misskilningi byggt. Þeir þurfa ekki að greiða slíkt gjald, ef þeir leggja mjólkina inn í mjólkursamsöluna. Það liggur í hlutarins eðli, að maður, sem hefir aðeins eina kú, hefir litla mjólk til sölu, svo að það getur ekki borgað sig fyrir hann að fá undanþágu til að mega selja mjólkina beint. Hann á einmitt að leggja afganginn inn í mjólkursamsöluna. Árssala hans getur varla farið yfir 400–500 lítra, og getur því ekki borgað sig fyrir hann að greiða verðjöfnunargjald af heilli kýrnyt.

Í sambandi við síðari brtt. vil ég benda á það, að þegar I. voru sett, var meðalársnyt í Reykjavík 3500 litrar. Var það gert í samráði við mjólkurframleiðendur á Reykjavíkursvæðinu að miða gjaldið við 3000 lítra. Þá vil ég benda á það, að ekki er rétt að miða við meðalársnyt á verðjöfnunarsvæðinu öllu, heldur á að miða við lögsagnarumdæmi það, þar sem undanþágurnar gilda.

Ég teldi æskilegt, að till. þessar væru látnar bíða hjá hv. landbn., þar til aðalbrtt. við mjólkurl. verða lagðar fyrir þingið, þar sem þetta verður tekið til athugunar.