10.11.1937
Neðri deild: 24. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (1962)

78. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Eins og hv. dm. sjá, þá er hér á ferðinni aðeins litið frv. Það hefir orðið nokkur ágreiningur um það, sérstaklega nú í seinni tíð, hvort rétt sé að hafa það ákvæði áfram í lögum um síldarverksmiðjur ríkisins, að ekki megi byggja nýjar síldarverksmiðjur eða auka við gamlar, nema sérstakt stjórnarráðsleyfi komi til í hvert skipti. Það mun nú óhætt mega fullyrða, að sú skoðun sé alltaf að verða meira og meira áberandi, að nauðsyn beri til að hafa svo margar verksmiðjur, að þær geti unnið úr öllum þeim afurðum, sem síldarflotinn getur aflað.

Þegar lögin um síldarverksmiðjur ríkisins voru sett, var það ekki komið í ljós eins vel og nú hversu mörg skip voru látin stunda síldveiðar. Þó að mikil reynsla hafi fengizt í því efni síðan, þá er hún alls ekki fullnægjandi eða tæmandi; má því ganga út frá, að enn geti síldarflotinn aukizt, og þá sérstaklega ef verksmiðjunum fjölgaði svo, að þær gætu unnið úr meira. Reynsla undanfarinna sumra hefir orðið sú, að þrátt fyrir það, þó að töluvert hafi vantað á, að allur veiðiflotinn gengi á síldveiðar, þá hefir gengið svo treglega fyrir þann hluta flotans, sem síldveiðar hefir stundað, að fá sig afgreiddan, að til stórtjóns hefir verið fyrir alla, sem þar hafa átt hlut að máli. Að ekki skuli hafa verið reynt að ráða bót á þessu ástandi, er þeim mun undarlegra, þegar þess er gætt, að varla hefir verið um annað meira talað en það, að okkur ríði það á öllu, að auka sem mest útflutt verðmæti. Það verður því að teljast merkileg ráðstöfun af því opinbera. að svo gott sem banna mönnum að afla þeirrar útflutningsvöru, sem nægur markaður er fyrir, en það er gert með því að banna mönnum að byggja síldarverksmiðjur ettir því sem þörfin krefur.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns, þá virðist sú skoðun alltaf vera að vinna meira og meira á, að síldarverksmiðjur eigi að reisa eftir því, sem þörfin krefur. Ég vænti því, að hv. þdm. geti fallizt á, að ákvæði 1. gr. l. frá 9. jan. 1935 um síldarverksmiðjur ríkisins sé óþarft, ef ekki beinlínis skaðlegt, og samþ. því þá breyt., sem hér er farið fram á, að gerð sé á þessum lögum, sem sé, að 1. gr. þeirra verið felld niður.

Að síðustu vil ég svo leyfa mér að óska þess, að frv. þetta fái að ganga til 2. umr. og sjútvn.