10.11.1937
Neðri deild: 24. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (1964)

78. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Aðeins örfá orð út af ræðu hæstv. atvmrh. Það er ekki frekar hægt fyrir mig heldur en hann að vita, hvort það hafi verið mörg eða fá skip, sem ekki stunduðu síldveiðar síðastl. sumar vegna skorts á verksmiðjum til þess að vinna úr aflanum. En hitt er víst, að skipastóllinn, sem síldveiðar stundar árlega, fer alltaf vaxandi, og það þarf þá að auka við verksmiðjurnar sem svarar aukningu veiðiflotans. Annars fæ ég ekki skilið, hvernig ríkið getur verið forsvari einstakra manna um það, hve stórar verksmiðjur þeir eigi að byggja; það er sama og fara að segja t. d. bændum, hversu stórar heyhlöður þeir skuli byggja. Nei, hér verða atvinnurekendurnir sjálfir að segja til um stærð verksmiðjanna; þeir fara næst um það, hversu stórar þær þurfa að vera. Það var að sjálfsögðu rétt hjá hæstv. ráðh., að það má ekki reikna með því, að hægt verði að byggja allar þær verksmiðjur, sem sótt hefir verið um leyfi til að byggja, því að fyrst er að fá leyfið til þess að byggja, og því næst er að útvega féð.

Annars geri ég ráð fyrir, að það myndi ekki fjarri lagi, að hér væru síldarverksmiðjur, sem afköstuðu helmingi meiru en þær verksmiðjur, sem til eru nú, og byggi ég þessa skoðun mína á reynslunni frá síðastl. sumri. Veðrátta var þá frekar óhagstæð, en samt urðu skipin að bíða meira og minna eftir afgreiðslu. Þannig varð t. d. eitt skipið að bíða alls nær helming veiðitímans, eða 21 dag alls eftir löndun.

Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta að sinni.