12.11.1937
Neðri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (1970)

80. mál, jarðræktarlög

Steingrímur Steinþórsson:

Jafnvel þó að þetta mál fari sennilega til þeirrar n., sem ég á sæti í, og ég geti þar fengið aðstöðu til að taka afstöðu til þess, álit ég rétt að segja örfá orð við þessa umr.

Hv. flm. þessa frv., þm. V.-Sk., hélt því fram, að þetta frv. væri fram borið vegna þess, að kunnugt væri um megna óánægju meðal bænda almennt út af ýmsum höfuðatriðum í ákvæðum jarðræktarl., eins og þau eru nú. Hv. flm. reyndi að vísu ekki til þess að rökstyðja þessar fullyrðingar á neinn hátt, enda hygg ég, að hann geti það ekki, og virtist það koma fram í því, sem hann sagði í sinni ræðu.

Það voru tvö atriði, sem hann telur, að einkanlega hafi valdið mikilli óánægju og orðið þess valdandi, að því er hann segir, að til stórmuna hafi dregið úr jarðabótum hér á landi. Annað ákvæðið er um hámarksstyrk og hitt er ákvæði 17. gr., sem miðar að því að hindra það, að jarðræktarstyrkurinn verði gerður að braskfé, eins og oft hefir orðið um það fé, sem lagt hefir verið fram til endurbóta á jörðum.

Nú er það vitanlegt, að það fór fram glögg atkvgr. um þessa hluti, því einmitt jarðræktarl. var vísað til búnaðarfélaganna í landinu, og meiri hl. þeirra tjáði sig samþykkan þeim höfuðbreyt., sem gerðar voru með þeim l. Þetta er ómótmælanlegt, og skal ég, ef hv. flm. vill, leggja fram skýrslu með fskj. til að sanna þetta. Hér er því um fullyrðingu að ræða, sem ekki styðst við neitt í veruleikanum, þegar hv. flm. heldur því fram, að það hafi orðið megn óánægja hjá meiri hl. bændastéttarinnar yfir þessum l. Þetta var alveg öfugt. Það var einmitt meiri hl. bændastéttarinnar, sem á sínum tíma tjáði sig fylgjandi þessum l. í aðalatriðum. En mér dettur ekki í hug að mótmæla því, að nokkur hluti bændastéttarinnar tjáði sig mótfallinn þessum l. Þetta var atriði, sem um var deilt.

Ég hygg, að það sé allt of fljótt fyrir hv. flm. að segja nokkuð um það, hvort dregið hafi úr jarðabótum vegna þessara l. Jarðabæturnar í fyrra voru svipaðar og árið áður. Styrkupphæðin óx dálítið. Ekki bendir það í þá átt, að framkvæmdir hafi minnkað.

Ég veit, að í vissum hlutum landsins hefir mjög dregið úr jarðabótum í ár. En það eru aðrar ástæður, sem hafa valdið því, eins og erfitt tíðarfar í vor um mikinn hluta landsins. Þá hefir dregið úr jarðabótum þar, sem fjárpestin hefir geisað, eins og í Borgarfirði og Húnavatnssýslu.

Ég ætla ekki að koma inn á einstök atriði í þessu máli. Þó verð ég að mótmæla fullyrðingum hv. flm. í þessu sambandi. Hv. þm. talaði mikið um óvinsældir 17. gr., en þar eru ákvæðin um það, að ekki sé leyfilegt að braska með jarðræktarstyrkinn, þegar jarðir ganga kaupum og sölum eða eru afhentar sem erfðagóss og skipta um eiganda. Ég verð að segja það, að mér finnst það einkennilegt, að þessi hv. þm. og ýmsir af hans flokksmönnum skuli hafa tjáð sig andvíga þessum ákvæðum, þar sem þeir eru sjálfir farnir að bera fram hliðstæð ákvæði um þá beinu styrki, sem veittir eru úr ríkissjóði til hagsbóta fyrir almenning. Ég vil benda á ákvæði í frv. til l. um byggingarsjóð sveitanna sem er flutt af flokksmönnum þessa hv. þm., hv. þm. Borgf. og hv. þm. A.-Húnv. Þar eru mjög miklar hömlur lagðar á það, að hægt sé að selja þar byggingar, sem voru styrktar eða lánað var út á. Og yfirleitt er það svo, að það er búið að setja slíkar hömlur á einn eða annan hátt á svo að segja alla þá styrki, sem veittir eru úr ríkissjóði, hvort sem þeir eru til ræktunar eða bygginga, og nú einnig á jarðræktarstyrkinn samkv. jarðræktarl. En það er svo einkennilegt, að það er þetta eina ákvæði í jarðræktarl., sem menn vilja nema burt aftur. Ég vil leyfa mér að fullyrða, að þetta er eingöngu sprottið af pólitísku ofurkappi. Það sýnir afstaða Bændafl. til þessa máls. Sá flokkur hefir áður borið fram harðari till. um þetta ákvæði en er í 17. gr. jarðræktarlaganna, í nýbýlafrv. sínu. Og svo vilja þessir sömu þm. nema burt ákvæði 17. gr. Hér er um mikið ósamræmi að ræða, og ég skil ekki, hvernig er hægt að taka afstöðu þessara manna alvarlega, þegar þeir ganga þannig algerlega í hring með skoðanir sínar.

Mér dettur ekki í hug að mæla gegn því, að þetta frv. fari til n., og ég mun hafa aðstöðu til að taka þar afstöðu til frv. En ég vil strax lýsa því yfir, að ég mun leggja gegn því, að ákvæði 17. gr. jarðræktarl. verði felld burt, af því að ég veit, að þau eru til blessunar fyrir íslenzka bændur, en verði þau numin burt, kemur það þeim einum að gagni, sem vilja selja jarðir sínar og reyna að spenna upp kaupverðið. Og það er bezt fyrir hv. þm. V.-Sk. að túlka þetta mál á réttan hátt fyrir bændum landsins, en vera ekki að reyna að koma upp óánægju hjá nokkrum hluta þeirra yfir þeim ákvæðum, sem eru til hagsbóta fyrir þá sjálfa. Og því er betur, að meiri hl. bændastéttarinnar er kominn á þessa skoðun, eins og ég hefi sannað með því að skýra frá samþykktum hreppabúnaðarfélaganna. Og við síðari umr. þessa frv. get ég lagt fram fyllri sannanagögn fyrir mínu máli en ég hefi nú.