12.11.1937
Neðri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (1972)

80. mál, jarðræktarlög

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Ég verð að segja það, að ég bjóst ekki við því, að þetta margrædda mál færi svo í taugarnar á hv. 2. þm. Skagf., sem er búnaðarmálastjóri og fæst þar af leiðandi mikið við þessi mál, og raun ber vitni um. Ég hélt, að hann mætti vera þess minnugur, að þegar núgildandi jarðræktarl. voru í uppsiglingu, var undirbúningur hans og þeirrar stj., sem hann fylgir, ekki þann veg, að það væri til að monta af. Það var farið með þessi mál eins og stolinn hlut, eða jafnvel eins og mannsmorð, sem bændur landsins máttu hvorki sjá né heyra neitt um.

Þessu máli var ungað út í skipulagsn. hér, sem hv. þm. mun hafa átt sæti í og ekki mun hafa fengið veglega grafskrift; ég vænti þess, að hún sé liðin. Síðan kom til kasta ríkisstj., sem henti málinu inn í þingið með þeim ummælum, að það yrði að afgreiðast, án þess svo mikið sem þm. hefðu nægilegan tíma til að athuga það. Hitt mátti ekki nefna, að þessir hans menn, — þ. e. 2. þm. Skagf., sem þá var ekki á þingi, en stóð þar að, — bændurnir í landinu, fengju nokkuð um þessa löggjöf að vita eða nokkur afskipti af henni að hafa, fyrr en búið var að samþ. hana sem l. frá Alþingi. Bændum landsins var meinað af þessum hv. þm., búnaðarmálastjóranum, hæstv. ríkisstj. og Alþ. að fá nokkra hlutdeild í afgreiðslu þessa máls, fyrr en allt var klappað og klárt. Ég hélt því, að þessi hv. þm. mundi hafa lágt um sig hér, þótt komið væri inn á það að breyta nokkrum höfuðatriðum að vísu, en þeim ákvæðum, sem hafa verið meðfarin þannig, að bændur landsins hafa talið þau óhæf. Og þar sem þessi ákvæði hafa sýnt sig vera óvinsæl, þá væri ekki nema eðlilegt, að þessi forsvarsmaður bændanna tæki þessari till. með þökkum og styddi hana. En hann vill það ekki. Hann sér ekki annað en þetta fóstur sitt, sem hann kann vel við, og sér ekki annað en það eigi að lifa og dafna, e. t. v. á kostnað framkvæmda bændanna í jarðræktarmálum.

Hv. þm. sagði, að óánægjan hefði svo sem engin verið. Nú mega það heita firn mikil, að bera slíkt fram hér á Alþ. af þeim manni, sem óð um landið til þess að reyna að fá fólk eftir á til að samþ. þetta. Og það kom fram megn óánægja um land allt, þótt ýmsir væru með, því þessi hv. þm. og stj. höfðu þau tök, að allir bændur létu ekki í ljós sína óánægju. Það er líka kunnugt í sumum sýslum, hvað gert var til þess að fá bændur til að greiða atkv. rétt um þetta. En nú fullyrði ég, eftir þeim rökum, sem fram hafa komið, að hefði þetta mál verið borið undir þá aðilja, sem að því áttu að standa, áður en frv. var lagt fyrir Alþingi, þá hefðu ákvæði 17. gr. og einnig hámarksákvæðin ekki átt neinum fögnuði að sæta meðal bænda. Ég veit ekki til, að bændur hafi látið í ljós fyrirfram, að þeir vildu afsala sér þessum styrk. En ég veit, að meðan frjálst var að framkvæma jarðrækt eftir gömlu l., gerðu bændur mikið og af fúsum vilja, og þeir gerðu það í þeirri vissu, að þeir fengju þann styrk, sem þeim hafði verið lofað. Hvort getur hv. þm. komið með skýrslur um það, að bændur hafi fyrirfram óskað þess, að styrkurinn yrði tekinn af þeim? Ég skora á hann að gera það. Ekki um, hvað hægt er að fá menn af vissum stjórnmálaflokkum til að greiða atkv. með. En komi hann með þær óskir, sem lágu fyrir frá öndverðu.

Hv. þm. hefir gert sér að keppikefli að ræna bændur þessum löglega styrk, sem þeir áttu að fá. vísvitandi fór hann í þessa ránsferð, og færi hann nú rök fyrir því, hvort hann gerði það að vilja bændanna, — og hvar er hann skráður?

Hv. þm. sagði, að það væri rangt, að það hefði dregið úr framkvæmdum á sviði jarðræktarinnar af þessum sökum. Nú veit ég, og það vita fleiri, að bændur hafa með hangandi hendi unnið að jarðabótum og látið taka þær út, eftir að l. gengu í gildi, og spurt hverjir aðra að því, hvort þeir ættu ekki að vonast eftir því, að þessu yrði breytt, og biða með að láta taka út. Það eru góðir bændur, sem elska sínar jarðir, og hafa sýnt það í verki víða. Ég þekki þá, og ef hv. 2. þm. Skagf. sem búnaðarmálastjóri hefði kynnt sér þetta og vildi þekkja einstaklinga þá, sem hér um ræðir, eins og hann talar um heildina, þá mundi hann þekkja þessa menn og víta, að þeir vilja ekki missa það, sem þeir einu sinni eiga og elska og vilja hlynna að. Nú vænti ég þess, að hv. þm. hneykslist ekki, þó að ég telji, að bændur elski óðul sín, og það hefði hann átt að skilja áður en hann færðist í fang að láta þessi ákvæði öðlast gildi, sem hann síðan heldur fram, að séu þannig vaxin, að ekki megi við þeim hreyfa. Ég hélt, að það væri farin að renna af hv. þm. þessi jarðránsvima og að hann mundi fús til að leiðrétta þetta, en það er ekki á honum að heyra, og verður þá ekki neitt um það að fást. Ég vil snúa við þeirri áskorun, sem hann beindi til mín. Hann fór fram á, að ég færi um þann hluta landsins, þar sem ég helzt hefi tök á fólkinu, og færi að prédika blessun 17. gr. jarðræktarlaganna. Ég veit ekki, hversu mikinn rétt hv. þm. hefir til þess að gera slíka ósk til mín. Hann veit mína skoðun í þessu. Það lægi honum nær að bæta ráð sitt, þar sem hann er í þeirri stöðu, að það verður ekki aðeins að telja, að menn eigi óskir á hendur honum, heldur verður að telja, að honum sé skylt að vinna á þann hátt, sem til blessunar getur talizt og samkv. yfirlýstri ósk bænda færi bezt á. Þess vegna vil ég óska honum þess, að honum auðnaðist að prédika blessun fyrir bændur á annan hátt heldur en að ræna þá rétti, því að ég fullyrði, að eins og lögin voru og eins og andi laganna er og á að vera, ef rétt er með þau farið, þá eigi þeir heimtingu á að fá þennan styrk, og að þeir eigi einnig heimtingu á því að eiga sínar jarðir og eignir eftir sem áður samkv. slíkri löggjöf, þó að þeir vinni að jarðræktarframkvæmdum.

Ég tel að svo stöddu ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta. Hv. þm. A.-Húnv. hefir tekið af mér ómakið og sýnt fram á, að búnaðarmálastjóri, hv. 2. þm. Skagf., er búinn að gleyma þessum skýrslum, sem gerðar voru um atkvgr., og er varla nema ár síðan þær voru birtar fyrir alþjóð, og flestir, sem með málið höfðu að gera, muna, og þar á meðal var það, sem hv. þm. A.-Húnv. tók fram og merkilegt er, að hv. 2. þm. Skagf. skuli blanda saman við annað, að eftir framkomnum atkv. var vafalaust meiri hl. á móti 17. gr. l., en af ýmsum ástæðum greiddu þessir aðiljar ekki alltént og alstaðar atkv. um það, því að eins og tekið hefir verið fram, kom til mála, hvort breyta skyldi, vegna Búnaðarfélags Íslands og afskipta þess, I. kafla jarðræktarlaganna, m. a. hvort búnaðarmálastjóri ætti að vera verkfæri í höndum pólitísks ríkisvalds eða trúr þjónn þeirrar stofnunar, sem hann er settur yfir. Þetta hélt ég, að hv. þm. væri minnisstætt, því að í rauninni voru greidd atkv. um örlög hans sjálfs. Ég hélt, að honum væri það svo minnisstætt, að hann blandaði ekkí óskyldu atriði saman við það, sem að vísu er í sömu löggjöf, en er annars eðlis.