17.11.1937
Neðri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (1979)

80. mál, jarðræktarlög

*Flm. (Gísli Sveinsson) :

Þegar þetta mál var til umr. síðast, þeirrar sömu og nú, en fyrr á þinginu, þá bar það til, að andmælandi minn, hv. 2. þm. Skagf., komst nokkuð út í það, hvernig á því stæði, að hann neyddist til að taka málið eins og hann gerði. Hann taldi sem sé, hvað málefnið snertir, að það væri í mínum orðum og grg. fyrir frv. farið rangt með það, að óánægja hefði verið meðal bænda út af ákvæðum jarðræktarlaganna, og þá einkanlega 17. gr.

Í annan stað taldi hann sér mjög misboðið í þeim orðum, sem ég lét falla. Ég var dálítið hissa á því, hvað þessi þm., sem áður hefir átt sæti hér á þingi og ætti að hafa vanizt umr. um almenn mál, var viðkvæmur fyrir þessum réttlátu ummælum mínum. Hann virtist annað veifið hrósa sér af því að hafa átt þátt í samningu þessara l., en annað veifið var hann svo viðkvæmur, að hann vildi litið við ákvæði þeirra kannast. Þessi hv. þm. má vitanlega hafa sína skoðun, en ég hefi fullt leyfi til þess, og mér ber skylda til að segja, hvernig mér kemur hans skoðun fyrir sjónir, því þetta eru ákvæði, sem varða altéð. Og það er sannast sagna, að það hefir ekki tekizt og mun ekki takast að hrekja það, að mikill hluti af því fólki, sem sérstaklega á undir þessum l. að búa, er ekki einungis óánægður með þau, heldur heimtar, að þeim verði breytt.

Hv. þm. sagði það skýrum stöfum í umr. síðast, að það sé vísvitandi til ætlazt, að 17. gr. komi þessu svo fyrir, að bændur ættu ekki og gætu ekki eignazt þann hluta, sem hún undanskilur, vegna jarðræktarstyrksins. Það land, sem þannig kæmi fram, yrði ekki eign bændanna. Ég vítti þetta í sjálfu sér og minnti hv. þm. á, að þetta ákvæði hefði hlotið nafnið jarðránsákvæði, og að það væri ekki hrósvert fyrir hann, í þeirri stöðu, sem hann væri, að hafa verið einn af aðalhvatamönnum þess, að koma þessu ákvæði í framkvæmd. Út af þessu varð hv. þm. svo aumur, að hann taldi sér borið á brýn, að hann færi þjófs- og ræningjahendi um byggðir og ból og væri vís til að hnupla lausafé sem fasteignum. Ég vona, að hv. þm. hafi setzt í geði síðan og sé farinn að átta sig á því, að hann verður ekki, hvorki af mér né öðrum tekinn sérstaklega hátíðlega, ef hann ber slík rök fram og þetta. Og hann getur verið rólegur yfir því, að hann fær að heyra það, hvað hann verðskuldar fyrir afskipti sín af opinberum málum.

Það eru til menn, sem eru svo aumir yfir því að vera ámælt fyrir afskipti sín af opinberum málum, að þeir flýja í það skjól, að verið sé að fara með persónulegar svívirðingar um þá. Þetta hefir verið talið veikleikamerki, að geta ekki rætt um almenn mál án þess að víkja þeim inn á sína eigin persónu og reyna að vekja meðaumkun með henni.

Þá kem ég að því, sem hv. þm. talaði um málið sjálft eins og það liggur fyrir, og þeim einstöku ákvæðum jarðræktarl., sem er verið að breyta. Hv. þm. taldi, að ég hefði farið rangt með það, að atkvgr. hefði aðallega verið um fyrsta kafla f. Þótt ég hafi að vísu ekki komizt alveg svona að orði, þá getur þetta vel staðizt. Ég vil meina, að það sé sannanlegt, ekki aðeins það eins og hann sagði, að atkvgr. hefði átt að fjalla um einstök ákvæði l., því hún fjallaði nær einungis og mætti segja aðallega um fyrsta kaflann. Til sönnunar þessu, sem skiptir ekki miklu máli, nema hvað það snertir, hvernig málið var undirbúið, vil ég benda hv. þm. á plagg, sem hann hefir vafalaust staðið að; það er bréf, sem sent var út 16. nóv. síðastl. ár, eða sama sem sent út af honum og minni hluta Búnaðarfélagsins og búnaðarþingsstj. Þetta bréf hefir orðið alkunnugt, af því að það leyndi sér ekki, að þetta var einskonar neyðaróp, sem þessir menn gáfu frá sér, eftir að þeir höfðu orðið í minni hl. á búnaðarþinginu. Innihald þessa bréfs er einskonar hótun til bænda um það, að hallað muni á Búnaðarfélag Íslands og af þeim öll ráð tekin, nema þeir marki rétt. Og það er skýrt tekið fram, hvað það er, þ. e. að fallast á jarðræktarlögin eða 1. kafla þeirra.

Ég hefi þetta bréf hér fyrir framan mig. Það er ljótt bréf. Það er svo langt, að ég vil ekki ónáða hv. þdm. með því að lesa það upp. En ég vænti þess, að menn muni kannast við það, þó að þeir, sem að því standa, kæri sig ekki um, að það sé dregið fram í dagsljósið.

Það má vel vera, að þessir nm., búnaðarþingsmenn og búnaðarstjórnarmenn hafi haft sitt aðalskjól ekki frá sjálfum sér, en frá öðrum valdamiklum aðiljum, sem þeir hafa farið með þetta mál í umboði fyrir, og má rekja sumt þaðan. En það, sem þeir vilja fá fram, er þetta, að hreppabúnaðarfélögin greiði atkv. með jarðræktarlögunum.

Nú má vel vera, að þessir menn og búnaðarmálastjóri hafi ekki haft þetta allt frá sjálfum sér, heldur öðrum valdameiri aðiljum. Það, sem atkvgr. var fyrst og fremst látin snúast um. er I. kaflinn, — um það, hvort Búnaðarfél. eigi að fara áfram með framkvæmd jarðræktarlaganna. Á þessu glæptust ýmsir, og því varð útkoman í atkvgr. eins og hún varð, og ekki af neinu öðru. En þar sem fram fór atkvgr. um önnur ákvæði l., svo sem hámark styrks og jarðránsákvæði 1 7. gr., kom næstum alstaðar í ljós, að meiri hl. bænda var þeim fráhverfur. En að meiri hl. bænda hafi greitt atkv. með jarðræktarl. í heild, má til sanns vegar færast á þeim grundvelli einum, að þeir trúðu því, sem líka var vigorð Framsóknar við þessar kosningar, að hér væri um sjálfstæði Búnaðarfélagsins að ræða.

Hv. 2. þm. Skagf., núv. búnaðarmálastjóri, fullyrti með ekki alllitlum þjósti, að það væri rangt eftir sér haft, að meiri hl. bænda hefði greitt atkv. gegn 17. gr. Ég vil nú skrifa þessi ummæli hv. þm. og ýmsa aðra framkomu hans í þessu máli á reikning þess sálarástands, sem hv. þm. Dal. kallaði „iðrunarstigið“, en eins og kunnugt er, eru menn oft uppstökkir og viðkvæmir á því stigi og gæta þá ekki staðreynda sem skyldi. Hitt er fullkomlega vist, að 17. gr. jarðræktarl. fékk meiri hl. bænda á móti sér. Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að atkvæðaskýrslur um þetta hefðu verið falsaðar, enda sumdar af bændaflokksmönnum. En þess var einmitt getið um atkvæðaskýrslu þessa, að hún væri frumskýrsla, og því gætu tölur raskazt nokkuð, áður en úrslitatölur fengjust, sem og varð að nokkru leyti, en hitt stóð óhrakið eftir sem áður, að meiri hl. bænda hafði látið í ljós vanþóknun sína á 17. gr. við atkvgr.

Mér finnst því, að hv. 2. þm. Skagf., núv. búnaðarmálastjóri, eigi ekki að vera að stökkva upp á net sér, þótt við bjóðum honum nú hjálp okkar til að breyta þeim ákvæðum, sem meiri hl. bænda hefir þegar 1ýst sig óánægðan með. Það er alkunna, að flokkur hans hefir samþ. á þingi sínu að fá lögunum breytt, og úti um héruðin er það alkunnugt, að framsóknarmenn, ekki síður en aðrir, vilja láta fella greinina eða breyta henni stórum.

Hv. búnaðarmálastjóri sagði, að þessi gr. væri sett í lögin til að vernda bændur fyrir verðhækkun, er leiða kynni af „braski“ með jarðir, sem hækkað hefðu í verði vegna styrkja frá hinu opinbera, og sagði, að sín vegna hefði ekki þurft að vísa málinu til nefndar. En nú vil ég hjálpa honum til þess að fá hinum óvinsælustu ákvæðum laganna breytt í nefndinni, og ég veit, að hann leggur þar lið sitt fram í því skyni, hvað sem hann segir nú, á þeim grundvelli, sem markaður er í frv., eða öðrum enn breiðari. Hv. búnaðarmálastjóri sagði, að 17. gr. væri til þess sett í lögin að verjast fjárflótta úr sveitunum, þar sem mjög hefði borið á því, að bændur hefðu selt jarðir sínar háu verði og flutzt síðan til kaupstaðanna með andvirðið. En ég leyfi mér að fullyrða, að þótt eitthvað hafi kveðið að þessu um tíma, þá er þessi viðbára nú að mestu eða öllu leyti orðin bábilja. Einstöku menn hafa að vísu getað selt jarðir sínar sæmilega, en fágætt, að þar hafi verið um braskverð að ræða, og undantekning, að þessir menn hafi flutt sig til Reykjavíkur á eftir. a. m. k. hefir sízt kveðið svo mjög að þessu, að ástæða sé til þess að kalla bændur braskara þess vegna, og goðgá getur það varla talizt, þótt einn og einn bóndi flytji sig í kaupstað, þótt slíkt geti verið varhugavert, ef mikið kveður að því. En yfirleitt má segja, að eins og nú er komið séu slíkar sölur, og þá um leið slíkir flutningar orðnir ógerningur, svo illa sem jarðir seljast nú og mikið hvílir á þeim. Þessi ástæða getur því ekki haft það gildi lengur, að réttmætt sé að skera alla bændur niður við sama trog og taka af þeim mikinn hluta verðlaunastyrksins.

Ég sé, að hv. búnaðarmálastjóri er nokkuð laus við hér í deildinni og vill gjarnan komast hjá því að hlusta á mig. Ég vona þó, að orð mín berist til hans, svo að hann geti svarað því með rökum næst, sem hann svaraði síðast með útúrsnúningi, þ. e. því, hvaðan löggjafanum hafi borizt kröfur um efni 17. gr. Hve margir skyldu þeir bændur vera, sem hafa óskað þess ákvæðis? Ég ætla, að ekki muni Bf. Ísl. heldur hafa verið að því spurt. Úr þeirri átt var einmitt farið fram á það, að hrapa ekki að samningu jarðræktarl., en slíkt fékk engar undirtektir hjá stjórnarflokkunum. Ég spurði í þessu efni aðeins um kröfur bænda um einstök ákvæði löggjafarinnar, 17. gr. o. fl., og getur hv. búnaðarmálastjóri gefið skýrslu um þau atriði, ef slíkar skýrslur eru nokkrar til.