17.11.1937
Neðri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (1982)

80. mál, jarðræktarlög

*Bjarni Ásgeirsson:

Ég hafði upphaflega ekki hugsað mér að taka til máls, vegna þess að þetta frv. fer sennilega til þeirrar n., sem ég á sæti i, en út af ýmsum ummælum, sem hér hafa fallið, sérstaklega hjá hv. þm. V.-Sk., vil ég segja nokkur orð.

Ég vil þá byrja á að færa fram sönnun í því, sem hv. 2. þm. Skagf. hélt fram, en hefir verið vefengt, að í raun og veru fór fram atkvgr. um l. meðal bændanna, bæði 1. og 2. kafla þeirra. Því til sönnunar skal ég lesa upp úr bréfi, þar sem þessi atkvgr. er lögð fyrir búnaðarfélögin. Þessi kafli er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Enda þótt búnaðarþing tæki ekki afstöðu nema til I. kafla laganna, þykir rétt að biðja um athugun og umsögn um lögin í heild eða um öll þau atriði, sem félagi yðar þykir nokkru máli skipta að fá breytingar á. Því sé svo, að meiri hluti óski breytinga á lögunum, mun búnaðarþing og stjórn félagsins taka þær til athugunar og að svo miklu leyti, sem búnaðarþingið telur sér fært, reyna að fá þeim framgengt á næsta Alþingi“.

Það er því sýnt og sannað, að atkvgr. fór fram í raun og veru um öll l., þó að fyrir búnaðarþinginu hefði legið sérstaklega 1. kafli þeirra.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um hið alkunna og fræga bréf, sem hv. þm. V.-Sk. kallaði hótunarbréf, sem hann sagði, að mínni hl. búnaðarþingsins hefði sent. Hann sagði, að þetta væri ljótt bréf og þar fram eftir götunum. Það er sennilegt, að það hafi komið illa við hann að sjá þau rök og þær skýringar, sem voru lagðar fram fyrir kjósendur í þessu bréfi. Hann hélt, að við mundum ekki óska eftir, að farið yrði að rifja það upp. En ég skal segja honum, að hann má okkar vegna lesa bréfið í áheyrn hvað margra sem hann vill, og við mundum nú senda út sama bréf með sömu rökum, ef sömu ástæður lægju fyrir og þá, því að það, sem hann kallar hótun, það voru þær skýringar, sem við gáfum kjósendum búnaðarfélaganna um, hvernig málið lá fyrir. Það lá þannig fyrir, að ríkisvaldið hafði lagt fram skilyrði fyrir búnaðarfélagsskapinn í landinu fyrir því, að hann færi áfram með framkvæmd jarðræktarlaganna. Það lá fyrir búnaðarfélagsskapnum að taka þessum aðalskilyrðum eða afhenda ríkisvaldinu meðferð jarðræktarlaganna. Og það var svo, að ef hann hefði neitað að taka við jarðræktarlögunum, þá var ekki annað fyrir hendi fyrir ríkisvaldið en að taka þau til sín og setja upp sérstaka skrifstofu í ráðuneytinu, sem hefði haft með höndum meðferð þessara mála. Nú er það viðurkennt, af ef ríkisvaldið hefði tekið þessi mál til meðferðar, þá hefði það einnig orðið að taka við framkvæmd allra annara l., sem það hafði falið Búnaðarfélaginu, því að um tvískiptingu gat ekki verið að ræða. Nú vildum við brýna fyrir mönnum, að þótt þeir hefðu eitthvað við skilyrðin að athuga, þá væri viðurhlutamikið að neita að taka við framkvæmd jarðræktarlaganna, því að það hlyti að leiða til þess, að taka yrði þessi mál af Búnaðarfélaginu og leggja undir sérstaka skrifstofu. Við töldum hyggilegra fyrir búnaðarfélagsskapinn að taka við l. heldur en í eitt skipti fyrir öll að kasta þessu öllu frá sér. Og ég hygg, að þessar skýringar hafi orðið þess valdandi, að bændur sáu sig um hönd. (GSv: Hverjir sáu sig um hönd?). Bændurnir, búnaðarfélagsskapurinn sá sig um hönd og gekk að skilyrðunum, svo að ef hér er um hótun að ræða, þá væri það eins hótun, ef hv. þm. V.-Sk. vísaði ókunnugum ferðamanni til vegar yfir stórvatnsfall, sem nóg er af í Skaftafellssýslu, og segði við hann: „Ef þú ferð þarna yfir ána, þá getur þú drukknað, en ef þú ferð þarna á vaðinu, þá mun þér farnast vel“. Þetta ætti þá að vera hótun eins og ef sagt væri: „Ef þú ferð þarna, þá skaltu farast“. (ÓTh: Hver ætti að búa bændum þennan voða?). Það var sá voði, sem hv. þm. V.-Sk. segir, að hafi verið búinn bændum í þessu máli.

Hv. þm. Snæf. segir, að þetta mál sé í eðli sinu aðaldeilumálið í landinu, það sé deilt um sósialisma og ekki sósíalisma. Ég skal viðurkenna, að orðið sósíalismi er teygjanlegt, en hv. þm. skýrði þetta þannig, að ef þessi ákvæði yrðu látin standa óbreytt, mundi fara þannig, að ríkið eignaðist svo og svo mikinn meiri hl. í jörðunum í náinni framtið. Þetta nær vitanlega engri átt. Fyrst og fremst hefir það verið margsannað, að með þessu er ekki verið að seilast til yfirráða af ríkisins hálfu yfir þeim hluta, sem jarðræktarl. geta gert kröfu til í þessum jörðum, heldur fellur það undir yfirumsjón og við getum sagt eign hvers búanda á hverjum tíma. Hver þessara manna, sem býr á jörðinni, hann á þennan hlut, aðeins með því skilyrði, að hann má ekki selja hann og ekki veðsetja. Ríkið getur því á engan hátt gert tilkall til hans. En svo er líka þess að gæta, að þetta getur aldrei orðið stór hluti, vegna þess að það á að afskrifa þetta eins og aðrar umbætur á jörðinni, svo að það getur þurrkazt burt. Þessi afskrift er gerð í hvert skipti, sem mat fer fram á jörðinni, og þar sem umbæturnar eru ekki varanlegar, þá fellur gildi þeirra smám saman niður og verðmætið sömuleiðis, og þar með minnkar þessi hluti jarðanna, sem má ekki selja eða veðsetja. En ef þetta er sósíalismi, þá er margt orðið sósíalismi hér á Alþingi. Ég veit ekki betur en að alveg samskonar ákvæði, og sterkari þó, hafi verið samþ. af öllum flokkum, þar á meðal Bændafl. og Sjálfstfl. í nýbýlal., og í frv., sem hér liggur fyrir um byggingarsjóð sveitanna; þar eru nákvæmlega samskonar ákvæði að efni til, en þó ekki eins hörð, því að í nýbýlal. er svo ákveðið um það framlag, sem ríkissjóður leggur fram til nýbýla, að sá, sem við býlinu tekur, skuli skila því með sama verðmæti og megi ekki veðsetja það og ekki selja. En í 17. gr. er þó tekið tillit til eðlilegrar fyrningar á þessum hluta, og hann er afskrifaður eftir því sem hann fyrnist, en í nýbýlal. er ekki gert ráð fyrir, að nein fyrning verði á þeim hluta, sem svarar framlagi ríkissjóðs, heldur verður hann að vera með sama krónuverðmæti, og ég verð að viðurkenna, að þarna er of langt gengið, og stafar það af vangá n., sem með þetta mál fór á þingi, og þetta verður að laga. En mér þykir einkennilegt, að þeir, sem samþ. þetta einum rómi, skuli nú ætla að springa af hneykslun út af ákvæðum 17. gr., sem eru þó ekki nema skuggi af þessum ákvæðum. Það er elns og þeir, sem notuðu skorpión og hneyksluðust af að sjá aðra nota svipur.

Annars hafa hv. andmælendur talið þetta ákvæði hafa ýmislegt til sins máls, en aðalröksemdin var, að það væru svo fáir menn, sem nytu nýbýlal., en 17. gr. væri óréttmæt, vegna þess, að hún kæmi svo almennt við, þar sem svo margir bændur nytu jarðræktarstyrksins. En ef þetta er réttmætt gagnvart fáum mönnum, þá er það jafnréttmætt gagnvart öllum þeim, sem svipuð fríðindi fá af hálfu þess opinbera.

Ég skal svo ekki lengja umr. meira. Ég býst við, að þetta mál komi til þeirrar n., sem ég er í, og e. t. v. aftur til umr. hér í þinginu, og mun ég því geyma mér frekari umr.