17.11.1937
Neðri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (1983)

80. mál, jarðræktarlög

Steingrímur Steinþórsson:

Ég mun ekki hafa nema stuttan ræðutíma, en verð þó að segja örfá orð.

Vil ég þá fyrst aðeins víkja að hv. þm. Snæf. Það var alls ekki rétt, sem hann hélt fram, að frumdrög þessa frv. hefðu verið samin af skipulagsn. atvinnumála. Þetta er alrangt hjá honum. Hitt er rétt, sem hann nefndi, að skipulagsn. samdi skýrslu um það, hvernig jarðræktarstyrkurinn hefði skipzt á býli landsins, en það er annað mál. Ég veit, að hv. þm. V.-Sk. situr í bankan. Ég geri ráð fyrir, að hún safni skýrslum víðsvegar að, og mætti með sama rétti segja, að hagstofan semdi þau frv., sem n. kynni fram að bera, fyrir það, að n. notaði skýrslur frá hagstofunni. Meira vil ég svo ekki segja um það atriði.

Hv. þm. V.-Sk. var öllu gætnari í máli nú en í síðustu ræðu og dró svo úr stóryrðum sínum og svigurmælum, að ég get vel við unað og þarf þess vegna ekki að taka það frekar fram, því að hann hefir í raun og veru tekið aftur sín fyrri mótmæli.

Hv. þm. Mýr. hefir nú sannað rækilega, að það var ekki rétt, sem hv. þm. V.-Sk. og hv. þm. Dal. héldu fram, að atkvgr. hafi verið lögð þannig fyrir, að aðeins hafi verið greidd atkv. um 1. kafla jarðræktarl., og sannað þá um leið með því að lesa hér bréf frá stj. Búnaðarfélagsins, að það voru jarðræktarl. í heild, sem lögð voru fyrir búnaðarfélögin úti um land. Þetta hefði mátt upplýsa þessa þm. um áður, svo að þeir hefðu ekki farið með svona alrangt mál og ásakanir.

Þá vil ég minnast á skýrslu hv. þm. Dal. um atkvgr. um 17. gr. og í sambandi við það ummæli hv. þm. V.-Sk., þar sem hann tók svo fram, að „17. gr. fékk á móti sér mikinn meiri hl. af öllum greiddum atkv.“ Þetta voru hans óbreytt orð. Við atkvgr. um l. komu fram um 4700 atkv., en á móti 17. gr. voru 1558 atkv. samkv. þeirri skýrslu. Sjá nú allir, hvað mikill sannleikur er fólginn í því, að mikill meiri hl. allra greiddra atkv. hafi verið á móti gr. (GSv: Þetta er vísvitandi útúrsnúningur). Nei, þetta er ekki útúrsnúningur, það er blákaldur sannleikur; ég skrifaði þessi ummæli þingmannsins eftir honum. Nei, það er ekki nema tæplega ¼, sem tjá sig á móti 17. gr. Þessu er ekki hægt að mótmæla, enda hefir hv. þm. Dal. sannað það með skýrslu sinni. Hitt er annað mál, að það náðist ekki samkomulag um, að þetta væri rétt uppgerð á atkvgr. um 17. gr. Þegar sagt er, að 898 hafi verið með gr., en 1558 á móti, þá er ekki tekið tillit til annars en þess, þegar bein atkvgr. fer fram um 17. gr., en fjöldamargir fundir tjá sig fylgjandi þeim höfuðbreyt., sem gerðar voru á l. Þetta eru hvergi talin meðmæli með 17. gr., þó að allir menn, sem þetta mál athuga, hljóti að sjá, að svo hlýtur þó að vera samkv. eðli málsins, þar sem 17. gr. er mesta nýmælið í l., og ef atkvgr. er athuguð á þessum grundvelli, þá eru álíka margir með 17. gr. og á móti, og þeim, sem hafa haldið öðru fram, er helmilt að sjá frumgögn þessa máls, til þess að geta sannfært sig um þetta.

Þá vil ég með fáum orðum snúa mér að hv. þm. Dal., og vænti ég, að hæstv. forseti sýni mér þolinmæði, þar sem ég verð að svara löngum ræðum andmælenda mínna. Hv. þm. talaði um þær samþykktir, sem voru gerðar á flokksþingi Framsfl. Ég hygg, að þessi hv. þm. hafi lítið vitað, hvað fram fór á flokksþinginu, enda sannaði hann það með ummælum sínum. Hann sagði, að þar hafi komið fram harðvítug mótmæli gegn 17. gr. Hann segir, að flokksþingið hafi knúið leiðandi menn flokksins til þess að hverfa frá 17. gr. Hann segir, að þingflokkurinn hafi orðið að kaupa sér frið með því að lofa að breyta svo 17. gr., að hún yrði meinlaus, en þar með meinar hann, að hún verði afnumin. Ég vil nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr þingtíðindum flokksþings Framsfl. sem ég skal svo lána hv. þm. Dal., samþykkt um 17. gr., því að það, sem hv. þm. sagði, var alveg þveröfugt við staðreyndirnar. Sannleikanum var svo gersamlega snúið við, eins og þessi hv. þm. því miður er svo oft vanur að gera, a. m. k. þegar hann er utan prédikunarstólsins. Þessi samþykkt flokksþingsins hljóðar þannig:

„Flokksþingið lítur þannig á, að með ákvæðum 17. gr. jarðræktarl., svo og hliðstæðum ákvæðum annara laga, svo sem nýbýlalaganna, laga um erfðaábúð og óðalsrétt o. fl., þar sem unnið er að því að koma í veg fyrir óeðlilegar verðsveiflur og verðhækkanir á fasteignum bænda, sé stefnt að réttu marki, sem nauðsynlegt sé fyrir landbúnaðinn að ná. Það sér ekki í neinum þeirra ákvæða nokkra ásælni til eignarumráða í téðum fasteignum af hálfu ríkisvaldsins, og lýsir vanþóknun á málflutningi þeirra manna, er reynt hafa að halda slíku fram. Hinsvegar telur það rétt að endurskoða öll þessi ákvæði og reyna að finna þeim það form, að þau nái enn betur tilgangi sinum og útiloki jafnframt, að þau geti orðið hártoguð og notuð í áróðursskyni“.

M. ö. o., flokksþingið vill herða á þessum ákvæðum í stað þess að slaka til, eins og hv. þm. Dal. segir. Það er nú ekki hægt betur en þetta að snúa sannleikanum við.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég aðeins geta þess út af því, að hv. þm. V.-Sk. ítrekaði, að ég skýrði frá því, hvaðan komið hefðu kröfur um, að 17. gr. yrði breytt, að þær komu frá bændum, sem undirbjuggu löggjöfina. Þeir vissu, að sá straumur var svo sterkur, að rétt var að koma með ákvæði eins og þetta, enda hefir reynslan síðan sannað, að það var rétt. Framsóknarmenn munu alis ekki hopa þar á hæli, heldur gera ákvæðin enn skýrari.