17.11.1937
Neðri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (1984)

80. mál, jarðræktarlög

*Þorsteinn Briem:

Hv. þm. Mýr. var að tala um hótunarbréfið, sem minni hl. búnaðarþings og búnaðarfélagsstj. sendi út, og vildi afsanna, að nokkuð væri óviðfelldið í því. Það er kannske ekki óviðfelldið í hans eyrum, að bændum séu sendar slíkar hótanir. Því var hótað að taka strax af bændum úthlutun jarðræktarstyrksins, og flytja í stjórnarráðið, nautgriparæktarstyrksins, hrossaræktarstyrksins og sauðfjárræktarstyrksins. Búnaðarfél. átti ekki að fá að veita eftirlitsmönnum nautgriparæktarfél. fræðslu. Það átti að taka sandgræðsluna og alla hina fjölþættu ráðunautsstarfsemi af Búnaðarfél., ef bændur beygðu sig ekki. Það átti að limlesta þann félagsskap, sem bændur hafa haft með sér í heila öld, ef þeir létu ekki undan. Það var ekki einungis, að þessu væri hótað, heldur átti að taka af Búnaðarfél. úthlutun styrks til búnaðarsambanda, og jafnvel að neita um styrk til búnaðarnáms.

Þegar allt þetta var gefið í skyn í áliti mínu hl., var vonlegt, að margir litu svo á, að við strangan væri að stríða og dygði víst ekki annað en láta í minni pokann.

Hv. þm. tæpti á því, sem ég hafði sagt um ákvæði nýbýlal. Samkv. frv. okkar um nýbýli átti landið að leggja fram hálfa jörðina, og það mun engum þykja óeðlilegt, þó að það legði þá einhverjar kvaðir á.

Hv. 2. þm. Skagf. vildi bera í bætifláka fyrir sig og sagði, að annað hefði farið fram á flokksþingi framsóknarmanna en fréttir komu um til andstæðinganna, og las upp samþykkt, sem þar var gerð, en samþykktin sýnir einmitt tvískinnunginn, sem var á þinginu. Ýmist voru menn með 17. gr. til þess að þóknast sósíalistum eða með endurskoðun 17. gr. til þess að þóknast bændum. Hv. þm. gat ekki hrakið það, sem ég sagði um atkvgr. um 17. gr.

Mér þótti hv. 1. þm. Rang. færa góð rök fyrir mínu máli. Hann sagði í sambandi við einhverja umsókn, sem lægi fyrir þinginu um kaup á tiltekinni jörð, að í sundurliðuðu tilboði væri talað um 100 kr. verð á sléttaðri dagsláttu í túninu, og þetta fannst honum einhver ósköp. En honum er eflaust kunnugt um, að almennt er talið, að ræktun á ha. kosti 900–1200 kr. Það er 300 kr. á dagsláttu. M. ö. o. fer þessi bóndi, sem hér er um að ræða, aðeins fram á 1/3 af tilkostnaðarverði. Þá tilgreindi hv. þm., að í Fljótshlíðinni væru ýmsir bændur, sem mundu þakka fyrir að fá jörð, sem ekkert væri búið að gera á. Þetta sýnir aðeins, að mönnum finnst ekki ástæða til að kaupa jarðræktarstyrkinn. Þeir vilja heldur eiga hann í vændum, enda kemur það heim við þá almennu skoðun í hans kjördæmi, þar sem upp undir 2/3 atkv. féllu á móti 17. gr. jarðræktarl. Að öllu athuguðu verð ég að taka mér mjög til inntekta þau dæmi, sem hv. þm. dró fram.