17.11.1937
Neðri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (1985)

80. mál, jarðræktarlög

*Sveinbjörn Högnason:

Ég vil gera svolitla aths. við ræðu hv. þm. Dal., enda þótt síðustu ummæli hans sýni, að það er ekki hægt að eiga í rökræðum við hann. Þm. leyfir sér að halda því fram, að meiri hl. bænda hafi greitt atkv. á móti jarðræktarl., og að 2/3 bænda í Rangárvallasýslu hafi greitt atkv. á móti 17. gr. þeirra. Ég hefi þessa atkvgr. fyrir framan mig. 130 voru með, en 108 á móti. Hv. þm. leyfir sér að segja, að 108 séu 2/3 af 238. Að hv. þm. ber annað eins og þetta fram á Alþ. án þess að blikna, vitandi, að hægt er að afsanna það undireins, sýnir, hversu tamt honum er að fara með blekkingar. Ég sé, að hv. þm. bregður illa við þetta. Það ætti að vera sú fyrsta krafa, sem gerð verður til þm., að þeir geri sér grein fyrir, hvað það er, sem þeir eru að halda fram.

Hvernig heldur hv. þm., að jarðaverð bænda yrði hér, ef hver dagslátta, sem styrkur er veittur til, yrði seld fyrir 100 kr., ofan á fasteignamat? Hv. þm. segir, að það kosti 900–1200 kr. að rækta hvern ha. Það má vera í sumum tilfellum, en hv. þm. Dal. gerir sér ekki ljóst, að bændur ætlast ekki til að fá greitt upp í topp. Ég veit, að hér um bil hver bóndi á Íslandi gerir jarðabæturnar til þess að fá meiri afrakstur af jörðinni. Annað eru þeir ekki að hugsa um. Ég vil spyrja hv. þm. Dal., hvort hann álíti það hollt fyrir ísl. landbúnað, ef hver ræktaður ha. væri seldur fyrir 900–1200 kr. Ætli það væri mikill velgerningur við kynslóðina, sem á að koma á eftir okkur? Það er undarlegt, að hv. þm. skuli ekki hugsa út í þetta. Það er gefinn hlutur, að það er í þágu bændastéttarinnar, að jarðaverðinu sé haldið lágu, en hitt er aðeins í þágu einstakra manna, sem braska með jarðirnar, að þær séu í dýru verði. Hinsvegar verðum við þm. að hafa það sjónarmið, sem bezt er fyrir hag heildarinnar og framtið lands vors.

Það kemur mér ekki á óvart, þó að hv. þm. Snæf. sé ekki um það gefið, að ekki megi selja jarðræktarstyrkinn. Hann er sonur stórbónda í Mosfellssveit, sem hefir fengið 48 þús. kr. í jarðræktarstyrk. Ég leyfi mér að fara hér með staðreyndir, þó að þær geti komið illa við einstaka hv. þm. Ég veit ekki til, að í sölutilboði bóndans í Mosfellssveit hafi verið dreginn frá jarðræktarstyrkurinn, enda kemur það mér svo sem ekkert undarlega fyrir sjónir, þó að hann vilji ekki skila aftur 48 þús. kr. Það er mannlegt, þó að við getum verið sammála um, að það sé ekki til hagsbóta fyrir neinn nema þennan eina mann, Thor Jensen, að hann megi selja þessar umbætur aftur. Þetta er höfuðatriðið í þessu máli, hvort ráða á sjónarmið einstakra manna, sem eingöngu líta á sérhagsmuni og stundarþágu, eða hvort okkar kynslóð á að byggja upp framtíðarmenningu í þessu landi.

Hv. þm. Snæf. sagði, að það væri verið að gera landið byggilegra með ræktuninni. Já, að vísu, en hana má kaupa of dýrt. Svo dýrar geta jarðirnar orðið, að mönnum finnist aðgengilegra að taka lítt ræktaða jörð og hefja þar ræktun.

Hv. þm. talaði um, hvernig atkvgr. um jarðræktarl. hefði verið undirbúin. Ég á bréf frá skrifstofustjóra Sjálfstfl., sem hann sendi á laun til flokksmanna sinna, þar sem þeir eru beðnir um að vera á verði. Sjálfstæðismenn hugsa bara um að gera þetta mál að flokksmáli sér til framdráttar við kosningar. En við erum ánægðir með uppskeruna af okkar baráttu á móti sérhagsmunapólitík sjálfstæðismanna. Árangur þeirrar baráttu kom fram í sigri okkar við kosningarnar í vor. Þeir hafa sagt í hvert skipti, að þeir væru alltaf að vinna, og hv. þm. Snæf. segir líka núna, að þeir séu að vinna. Hvers vegna tapa þeir þá alltaf? En það er gott fyrir nægjusamar sálir að geta fengið eitthvað sér til afþreyingar í því volæði, sem þessir menn virðast eiga við að búa, til þess að geta „strammað“ sig upp, og ef þeir geta gert sér það að góðu, þá er það gott.

Ég skal ekki lengja umr. um þetta atriði. Ég er sannfærður um, að hér eftir, eins og hingað til, fá þeir makleg málagjöld, sem reyna að rægja þetta mál bændanna, sem er mikið framtíðarmál, og þeir fá því verri útreið, því oftar sem þeir reyna að eyðileggja þetta mikla hagsmunamál bændanna.