29.10.1937
Efri deild: 14. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

3. mál, kosningar til Alþingis

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Því hefir verið haldið fram hér undir umr., að með þessari aðferð, sem stungið hefir verið upp á og lögfest með bráðabirgðal., séu margir útilokaðir frá að greiða atkv., jafnvel fjöldi manna. En um leið og þeim rökum er haldið fram, að það sé gert, þá gilda þau rök líka og á sama þátt viðvíkjandi þeim, sem hafa greitt öðrum atkv. sitt, en fá ekki að leiðrétta það, því vitanlega fylgist það að, að menn hafa aðstöðu til að kalla atkv. sín til baka og greiða atkv. á ný. Þannig gæti það orðið fjöldi manns, sem hefði greitt látnum frambjóðanda sitt atkv., sem fengi ekki leyfi til að leiðrétta þau, ef þessi till. verður samþ. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að hefði þessi regla, sem hér er stungið upp á, verið látin gilda í bráðabirgðal. frá stj., þá hefði það getað valdið — og e. t. v. ekki að ástæðulausu — verulegum ágreiningi. Þá hefði verið hægt að segja, að öll utan kjörstaðar greidd atkv. í Skagafirði, sem sá látni frambjóðandi hafði fengið, hefðu verið tekin með lögum og færð yfir á hinn. Og það hefðum við í raun, og veru gert með því að gefa út slík lög. Ég gæti þó betur fellt mig við, að Alþingi gerði slíkar ráðstafanir fyrir fram en að stj. geti látið sér detta í hug að taka atkv. frá látnum frambjóðanda og yfirfæra þau með lögum á nýjan frambjóðanda. Reynslan mun hafa orðið sú í vor, að flestir eða næstum allir munu hafa greitt atkv. á ný. Ég hygg, að það hafi verið sárafáir, sem ekki höfðu aðstöðu til þess. Það, sem ég vil leggja aðaláherzlu á, er þetta, að það sé komið undir vinsældum hins nýja frambjóðanda, hvað menn vilja mikið á sig leggja til að greiða honum atkv., og að það geti ekki komið fyrir, að menn séu kosnir á þing með atkv., sem látinn frambjóðandi hefir fengið, en ekki þeir sjálfir. Og slíka reglu gat ríkisstj. ekki látið sér detta í hug að gera að lögum undir þessum kringumstæðum.