29.10.1937
Efri deild: 14. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

3. mál, kosningar til Alþingis

*Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það voru aðeins örfá orð. — Það getur verið, að það hefði verið hægt að gera þetta tortryggilegra, ef stj. hefði gefið út slíkt frv. sem þetta. En ég vil benda hæstv. ráðh. á, að það var að sönnu ekki það að hann tæki utan kjörstaðar greidd atkv. og yfirfærði þau á hinn nýja frambjóðanda. En hann gerði annað. Hann eyðilagði öll þau atkv., sem búið var að greiða. (Forsrh.: Fyrir báðum jafnt). Já, fyrir báðum, en eigi að síður fjöldamörg atkv., sem hafa verið greidd á fyllilegu lögmætan hátt, og ég efa, að það sé betra. Ef honum finnst það betra, þá skal ég ekkert um það deila við hann. En það, sem skilur á milli þessara till. frá stj. og n., er, að það eru engin líkindi til þess, að till. n. geri nema örfáum mönnum rangt til, en till. stj. getur, ef frambjóðandi deyr mjög nærri kosningu, eyðilagt svo að segja öll utan kjörstaðar greidd atkv. Mér skilst því, að málið standi í þeim sporum, að kveða á um það, hvort það eigi að gera fáum mönnum rangt til eða mörgum. Þá segi ég, að betra sé að gera fáum mönnum rangt til.