13.11.1937
Neðri deild: 26. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (2011)

85. mál, strandferðasjóður

Flm. (Þorbergur Þorleifsson) :

Frv. þetta um strandferðasjóð, á þskj. 108, er flutt til þess að reyna að tryggja það, að samgöngur á sjó með ströndum fram haldist í góðu horfi, einkum með tilliti til smærri og lakar settra hafna. Eins og allir vita, er afardýrt að balda uppi strandferðum, og má búast við því, að þegar illa árar, verði dregið úr framlögum ríkissjóðs, þannig að ekki verði hægt að halda uppi strandferðunum fyrir það fé, sem hægt er að veita í fjárl., og mundi það fyrst koma niður á þeim höfnum, sem lakast eru settar um samgöngur.

Forstjóri skipaútgerðar ríkisins, sem er manna kunnastur strandferðamálum okkar, hefir oft látið í ljós, þegar hann hefir átt tal við fjvn. um þetta efni, að það væri nauðsynlegt að hafa einhvern jöfnunarsjóð til þess að gripa til, þegar illa gengi.

Við samanburð á því, hvað mikið fé fór úr ríkissjóði til strandferða árin 1931–1936, að báðum árum meðtöldum, kemur í ljós, að það er mjög misjafnt, hvað til strandferðanna fer hvert árið:

1931 er framl. ríkissj. til strand f. 524 þús. kr.

1932 — — — — — 385 — —

1933 — — — — — 294 — —

1934 — — — — — 544 — —

1935 — — — — — 371 — —

1936 — — — — — 427 — —

Hæst er framlagið 1931 og 1934, ca. 520 þús. kr. 1931 og ca. 540 þús. kr. 1934, en lægst 294 þús. kr. árið 1933, enda voru samgöngur þá mjög slæmar. Vitanlega verður að miða við getu ríkissjóðs á hverjum tíma. Þegar illa árar, hlýtur að draga úr framlögum til strandferða, ekki siður en til annars, en eins og ég hefi bent á, kemur það fyrst niður á þeim höfnum, sem laklega eru settar. Virðist því ekkert öruggt ráð annað en að mynda sjóð til hjálpar strandferðunum, eins og hér er gert ráð fyrir.

Ríkissjóður hefir að meðaltali lagt fram til strandferða — fyrir utan tillag til flóabáta — um 440 þús. kr. á ári í þessi 6 ár, sem ég miða við. Oftast hefir orðið halli frá fjárl.áætluninni, en þó var afgangur árið 1935. Þá voru áætlaðar 400 þús. kr., en eyddust um 370 þús. Mismunurinn, 30 þús. kr., hefði þá runnið í strandferðasjóð, ef slíkur sjóður hefði verið fyrir hendi. Hinsvegar hefir flest árin orðið halli, og sjóðurinn hefði því orðið að greiða helming hallans, en til þess að sjóðurinn geti vaxið, þarf að áætla svo mikið fé, að líkindi séu til, að afgangur verði. Þegar áætlað verður fé til strandferða í framtíðinni, er réttast að miða við jafnaðarupphæð þessara 6 undanfarinna ára.

Hv. þdm. munu spyrja, hversu háar tekjur megi vænta, að sjóðurinn hafi á ári. Beinar tekjur sjóðsins eiga að vera 10% af öllum farm- og fargjöldum á milli hafna hér innanlands. Að svo komnu er ekki hægt að segja nákvæmlega, hversu mikil upphæð það yrði, þar sem engin áreiðanleg statistik er til í þessu efni. En það má leggja til grundvallar þá upphæð, sem kæmi í sjóðinn af fargjöldum með ríkisskipunum. 1936 námu þau 430 þús. kr. Mundi sjóðurinn því þaðan fá 43 þús. kr. Hvað mikið kæmi frá öðrum skipafélögum, er ekki hægt að segja nákvæmlega, en þeir, sem því eru kunnugastir, álíta, að það muni ekki vera meira en 1/3 af öllum farm- og fargjöldum, sem fellur til hjá ríkisskipunum. Ef við miðum við 1/3, þá yrði framlag til sjóðsins frá hinum skipafélögunum um 86 þús. kr. Beinar tekjur ættu því að verða um 130 þús. kr. á ári.

Ég gæti trúað, að fundið yrði til foráttu þessu fyrirkomulagi, að það mundi hækka fargjöldin, en ég geri ekki ráð fyrir, að það þurfi að verða, a. m. k. ekki hjá hinum innlendu skipafél., og útlendu skipafélögin, sem eru keppinautar hinna innlendu, mundu þá ekki heldur geta hækkað gjöldin hjá sér, því að þá stæðu þau verr að vígu í samkeppninni, og yrði því þetta frekar til þess að hjálpa innlendu félögunum. En jafnvel þótt fargjöld kynnu að hækka eitthvað, á frv. eins mikinn rétt á sér samt, því að það er ekkert við því að segja, þó að þeir, sem nota samgöngurnar, borgi líka fyrir þær. Það er hliðstætt því, þegar menn borga bíla- og benzínskatt til þess að fá bætta vegi.

Hinar einstöku gr. frv. þurfa ekki mikillar skýringar við. 1. gr. er um höfuðmarkmið frv., sem sé að stofna sjóð til að styrkja strandferðirnar með fjárframlögum, einkum með tilliti til þeirra hafna, sem lakast eru settar. Það eru margar hafnir, sem alltaf er hætt við, að verði útundan, t. d. í Skaftafellssýslum, Múla- og Þingeyjarsýslum, Skagafjarðarsýslu, víð Húnaflóa, í Dalasýslu og víðar.

2. gr. er um tekjur sjóðsins og hvernig þær skuli innheimfar. Aðaltekjurnar eru 10% af öllum far- og farmgjöldum, afgangur, sem kann að verða af áætluðu ríkisframlagi, en varla er hægt að gera ráð fyrir, að hann verði mikill, svo og hverskonar aðrar tekjur, sem ekki er heldur hægt að gera ráð fyrir, að verði miklar. Þó gæti hugsazt, að sjóðnum áskotnuðust gjafir eða áheit. Það er nú orðin mikil tízka að heita á þjóðþrifastofnanir. (TT: Aðallega Strandarkirkju). Já, það væri verst, ef þetta yrði til að rýra tekjur Strandarkirkju. (Einhver: Það er sama, hvort „strandið“ er).

Ég sé þá ekki ástæðu til að ræða gr. frv. nánar. Að vísu hefir einstaka maður látið í ljós við mig, að hann skildi ekki, hvað átt væri við með því, að 10% af öllum far- og farmgjöldum, greiddum og ógreiddum, skyldu renna í sjóðinn, og skal ég því skýra það nánar. Þetta er miðað við það, hvar og hvernig gjaldið er innheimt. Það er t. d. algengt, að vörur séu sendar gegn póstkröfu, þannig að innheimta fer fram eftir á. Það er hætt við því, ef ekki er skýrt tekið fram um það, að sá, sem sendir vörurnar, mundi reyna að skjóta sér undan að greiða gjaldið.

Aðrar gr. frv. þurfa ekki sérstakrar skýringar við, en ég vil geta þess, að inn í 1. gr. frv. hafa slæðzt 2 málvillur. Þar er 3 orðum ofaukið á einum stað og einu á öðrum stað. Vænti ég, að hv. n. muni leiðrétta það.

Að svo mæltu vil ég óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og samgmn.