26.11.1937
Neðri deild: 36. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (2027)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð til atvinnuaukningar o. fl.

*Flm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti ! Það mun vera einróma álit allra hv. þdm., að full þörf sé á því, að þetta þing geri það, sem hægt er að gera til atvinnubóta og styrktar smáútvegsmönnum og bændum. Það mun ekki vera neinn ágreiningur á milli þdm. um, að þetta sé nauðsynlegt. En það, sem deilt er um, er, hvar eigi að afla fjárins.

Nú hefir komið fram frv. um það hér á þinginu, að bæta nýjum tollum á þjóðina, sem koma til með að hvíla þyngst á þeim, sem fátækastir eru. Ef á að fara þá leið til að hjálpa þeim, sem verst eru staddir, að taka peningana af þeim, sem minnst eiga af þeim, þá er þingið að taka með annari hendinni það, sem það gefur með hinni. Og þó að það sé gott að auka verklegar framkvæmdir í landinu, þá er það enginn vafi, að það myndi verða alþýðunni til meira gagns, ef féð til þess væri ekki tekið hjá henni sjálfri. Eina ráðið til þess að geta náð þessum peningum í ríkissjóð, án þess að það komi fyrst og fremst niður á alþýðunni, er að sjá til þess, að þessi tekjuöflun lendi á efnaðri stéttunum, haga tollunum þannig, að tekið sé af þeim, sem geta borgað, sem — hafa tekjurnar og eiga eignirnar, en ekki af hinum, sem ekkert eiga.

Þetta frv., sem við kommúnistar hér í d. höfum lagt fram, er fyrsta frv. frá okkur í þá átt að leggja á nýja skatta, sem fyrst og fremst séu lagðir á herðar efnastéttunum. Ég býst við, að við munum bera fram síðar á þinginu fleiri frv., sem fara í sömu átt.

Ég geri ráð fyrir því, að ef hv. dm. vilja athuga þetta frv., þá muni þeir sannfærast um það, að hér er verið að fara inn á nýja leið í tekjuöflun, sem ekki hefir verið reynd hér áður, en sem hefir verið reynd með öðrum þjóðum og ýmsir hv. þm. hafa áður bent á, þótt hún hafi ekki verið farin. Og ég vonast til þess, að þegar hv. þdm. fara að athuga þetta frv., þá komist þeir að þeirri niðurstöðu, að full ástæða sé að rannsaka það vel, hvort ekki eigi að fara þá leið, sem hér er bent á, og geti orðið sammála um hana.

Frv. það, sem hér er ræðir, skiptist í 3 aðalkafla. I. kafli er um stóríbúða- og háleiguskatt. Þarf ég ekki að gera ýtarlega grein fyrir honum, því það er gert í frv. sjálfu. Þessi skattur er í fyrsta lagi stóríbúðaskattur, sem miðaður er við þær íbúðir, sem metnar eru á yfir 18 þús. kr. að fasteignamati. Þessi skattur er stighækkandi, en er ekki sérstaklega hár. Hann leggst eingöngu á þær íbúðir, sem eru stórar. Venjuleg þriggja herbergja íbúð með eldhúsi mun ekki kosta meira en 10 þús. kr. að fasteignamati.

Í öðru lagi er lagt til að taka sérstakan háleiguskatt, eða leggja skatt á þá húsaleigu, sem nemur meira en 15% af kaupverði húseignarinnar. Svo framarlega sem það er rétt að leggja skatt á nokkuð, þá er það sérstaklega á þá háu húsaleigu, sem húseigendur taka hér í Reykjavík. Og þegar leigan er komin yfir það að vera 15% af kaupverði húseignarinnar, þá er það orðið svo risavaxið, sem hún gefur af sér til eigandans, að það er ekki nema sanngjarnt, að hann borgi skatt til ríkisins. Þetta snertir ekki þá, sem eiga lítil hús og leigja þau út, og ekki heldur þá, sem búa í þokkalegum íbúðum, að ég ekki tali um þá sem búa í slæmum íbúðum. Það snertir eingöngu hinar efnuðu stéttir þjóðfélagsins.

Það hefir verið álit ýmsra mætra þm., að rétt væri að leggja svona skatt á. Á þinginu 1932 og 1933 voru flutt frv., er gengu í sömu átt og þetta, sem ég skal nefna. 1932 var flutt frv. til l. um stóríbúðaskatt af þeim Jónasi Þorbergssyni, Bergi Jónssyni, Hannesi Jónssyni, og Sveinbirni Högnasyni. Á sama þingi var einnig flutt frv. um háleiguskatt af Steingrími Steinþórssyni, Halldóri Stefánssyni, Jónasi Þorbergssyni og Sveinbirni Högnasyni. Og á næsta þingi á eftir, 1933, voru þessi tvö frv. felld saman í eitt, sem var frv. til l. um stóríbúða- og háleiguskatt til húsnæðisbóta og borið var fram af þeim alþýðuflokksmönnunum Haraldi Guðmundssyni, Héðni Valdimarssyni og Vilmundi Jónssyni, og þetta sama ár voru bæði þessi frv. borin fram af Jónasi Jónssyni.

Það er vitanlegt um þennan kafla, sem tekinn var svo að segja óbreyttur upp af sósíalistum, að hann hefir áður notið hylli margra þm. núv. stjórnarflokka. Ég hefi því fyllstu ástæðu til að vona, að þeir þm. taki vel í þetta frv. Þeir áætluðu þá, að tekjur af þessum skatti yrðu 150 þús. kr. Ég býst við, að óhætt væri að áætla, að skatturinn mundi nú nema 200 þús. kr.

Þá er það II. kafli, um vaxtaskatt. Þessi skattur er nýmæli hér á Íslandi, og býst ég við, að það verði að ýmsu leyti erfitt að koma á svona skatti. Málið þarf að rannsaka vel, og er margt, sem kemur til greina í sambandi við álagningu, þessa skatts.

Ég ætla þá fyrst að renna huganum yfir það, hvernig nú er háttað með tekju- og eignarskattinn og álagningu hans. Ég álít, að það sé engum efa bundið, að það er mikill hluti eignamanna, og sérstaklega skuldlausar eignir stóreignamanna, sem eru beinlínis sviknar undan skatti. Stóreignamenn eiga mikið fé inni í sparisjóðum og bönkum undir hinum og þessum gervinöfnum, sem e. t. v. aðeins bankastjórarnir þekkja, og skattanefndirnar fá alls engar upplýsingar um þetta fé. Það eru raunar til fyrirmæli í l. um það, að skattanefndir eigi að fá upplýsingar um innstæður manna í sparisjóðum og bönkum, ef þær óska þess. En þetta hefir ekki komið að gagni. Það hefir sýnt sig í reyndinni, að þegar þær hafa farið fram á að fá þetta upplýst, þá hafa þær alls ekki fengið það. Og það er vitanlegt, að hér í Reykjavík fær skattanefndin eða skattstjórinn alls ekki þær upplýsingar, sem þörf er á.

Alveg sama máli gegnir um verðbréfin. Þau eru dregin undan skatti á þann hátt, að menn gefa þau ekki upp. Bankavaxtabréf eru því eftirsótt hér í Rvík. Þeir, sem eiga peninga, kaupa þau og liggja með þau til þess að geta komið fé sínu undan skatti.

Það er ekki gott að áætla, hversu mikið fé er dregið undan skatti á þennan hátt. Ég veit ekki til, að það hafi verið rannsakað hér á landi. En ég veit, að í nágrannalöndunum, t. d. Noregi, hefir farið fram rannsókn á þessu sviði, og þar hefir verið áætlað, að 44% af skuldlausum eignum séu dregin undan skatti. Mér er því nær að halda, að ekki sé ofætlað, þótt gizkað sé á, að hér í Rvík geti jafnvel verið um 20 millj., sem ekki koma til framtals og eru beinlinis faldar í bönkum og sparisjóðum, í bankavaxtabréfum og öðrum verðbréfum.

Þessi vaxtaskattur, sem hér er lagt til að verðilagður á, er miðaður við það, að reyna að skattleggja þá menn, sem þannig komast undan öðrum sköttum, sem þeir eiga að borga. Þessi skattur er því skattur á vaxtatekjur. Hvernig við hugsum okkur innheimtu hans, er skýrt tekið fram í frv., svo að ég tel mig ekki þurfa að fara frekar en þar er gert inn á það atriði nú. Það mun vera áætlað, að sparifé manna, geymt í bönkum og sparisjóðum, muni nema allt að 60 millj. kr., auk 40–50 millj. í bankavaxtabréfum. Hvað bankavaxtabréfin snertir, þá er það vitanlegt, að þau eru keypt með meiri og minni afföllum, svo að hinir raunverulegu vextir, sem eigendur bréfanna fá, eru oft miklu hærri en þeir vextir, sem bréfin hljóða upp á, og er því í frv. reynt að ná einnig til þessa vaxtaauka. Þá er og gert ráð fyrir í frv. að skrásetja, hverjir séu eigendur bréfanna, til þess að girða fyrir, að unnt sé að draga þau undan skatti, eins og við hefir viljað brenna til þessa. Veð því að setja þetta ákvæði í lög myndi því áreiðanlega koma til skattframtals miklu meira af verðbréfum en áður, og ríkissjóður því á þann hátt einnig fá auknar tekjur.

Það er vitanlegt, að fjármagn það, sem fæst til húsabygginga fyrir bankavaxtabréf með stórum afföllum, er okrara auðmagn, og má því búast við, svo fremi sem frv. þetta verður að lögum, að nokkuð myndi draga úr byggingum, og því höfum við bent á, að nýr veðdeildarflokkur, eða annar þvílíkur lánaflokkur þyrfti jafnframt að taka til starfa, til þess að vega á móti því, sem draga kynni úr byggingum fyrir þessar sakir.

Það vill nú svo vel til, að það hafa komið fram till. um að leggja á vaxtaskatt, enda þótt þær hafi ekki komið fram í frumvarpsformi hér á Alþingi. Á ég þar við skrif Jóns Árnasonar framkvæmdarstjóra í Nýja dagbl. í fyrra, þar sem hann lagði til, að lagður yrði á 25% vaxtaskattur. Er þar nokkuð lengra gengið en hjá okkur, þar sem við förum ekki hærra en í 10%, með lítilsháttar hækkun. Jón Árnason gerði ráð fyrir, að 25% vaxtaskattur myndi nema allt að 1,2 millj., en við gerum ráð fyrir, að 10% skatturinn okkar gefi um ½ millj. kr. í tekjur. Aftur á móti gerði Jón ráð fyrir, að fasteignaskatturinn, sem nemur um 300 þús. kr., félli niður, en það leggjum við ekki til, því að slíkt myndi aðeins verða til þess að hlífa þeim ríku. En þrátt fyrir það ganga till. Jóns lengra en okkar og myndu gefa meiri tekjur í ríkissjóðinn, ef þær yrðu að lögum, heldur en við förum fram á í okkar till.

Ég vil nú vona, að þessar hóflegu till. okkar fái góðar undirtektir hér í þinginu, þegar maður, ekki róttækari en Jón Árnason er, leggur til, að miklu lengra sé gengið á þessari braut en við förum fram á.

Verði það úr, að við athugun þessa máls komi það fram, að skali sá, sem við leggjum til að verði tekinn upp, þyki of lágur, þá er að sjálfsögðu hægt að fá okkur til þess að vera með að hækka hann.

Þá er í III kafla frv. farið fram á að setja á verðhækkunarskatt. Eins og öllum er kunnugt, þá eiga verðhækkanir sér oft stað, bæði á fasteignum og öðrum hlutum, án minnsta tilverknaðar eigendanna. Til grundvallar verðhækkunum á ýmsum eignum liggja oft ráðstafanir sveitar- og bæjarfélaga, og einnig þess opinbera. Þegar svo vill til, að t. d. verklegar framkvæmdir ríkisins verða til þess að stórhækka í verði eignir einstakra manna, með öllu án þeirra tilverknaðar, þá er ekki nema rétt, að ríkissjóður fái eitthvað af því fé, sem eignin eykst um að verðmæti fyrir framkvæmdir hans.

Ég verð nú að segja hið sama um þetta atriði eins og vaxtaskattinn, að ég vænti þess, að það fái góðar undirtektir í þinginu, því að ég man ekki betur en að það hafi til þessa verið í stefnuskrá framsóknar- og jafnaðarmanna að leggja verðhækkunarskatt á lóðir, enda þótt honum hafi aldrei verið komið á.

Ég er þess fullviss, að svo framarlega sem þessi skattur hefði verið kominn á fyrir nokkuð löngu síðan, þá væri hann búinn að hafa góðar afleiðingar, bæði fyrir ríkissjóðinn og þjóðfélagið í heild, .því að dæmin um verðhækkanir á lóðum hér í Reykjavík eru deginum ljósari um það. Allar lóðir hér í Reykjavík munu nú vera metnar á ca. 21 millj. kr., en það svarar til, að söluverð þeirra sé um 30 millj. En fyrir nokkrum tugum ára hefðu þær ekki verið metnar nema á nokkra tugi þúsunda. Nú er það vitanlegt, að öll þessi verðhækkun hefir orðið fyrir þjóðfélagslega þróun, en ekki fyrir aðgerðir Reykjavíkurbæjar. Gleggsta dæmið þessu til sönnunar höfum við svo gott sem fyrir augunum. Útlend stofnun, kaþólska trúboðið, fékk fyrir alllöngu síðan eignarhald á töluverðri landspildu hér í Reykjavík, fyrir sáralitið verð, en hefir svo á síðari árum selt lóðir fyrir fleiri hundruð þúsunda, og svo langt hefir þetta lóðaokur hins útlenda félags gengið, að nú fyrir nokkru, þegar Reykjavíkurbær keypti allstóra spildu af trúboðinu, þá fékk það tryggt í samningunum, að öll verðhækkun, sem kynni að verða á lóðunum næstu 35 árin, eða á meðan bærinn er að borga þær, skyldi falla til þess. Hefði nú slíkur skattur, sem hér er farið fram á að lögleiða, verið kominn á áður en trúboðið byrjaði að selja lóðir sínar, hefði ríkissjóður fengið alldrjúgar tekjur í gegnum lóðasölu þess.

Að sjálfsögðu getur skattur þessi komið til með að gefa töluverðar tekjur fyrir utan Reykjavík og kaupstaðina, því að um allt land geta verðhækkanir á eignum átt sér stað, án þess að þær stafi af umbótum eigendanna. Þannig minnir mig t. d., að ekki alls fyrir löngu hafi jörð hér í nágrenninu, Bessastaðir á Álftanesi, sem keypt var á 50 þús., verið seld á 120 þús. eftir mjög stuttan tíma. Um ákvæði 16. gr. þarf ég ekki að ræða; þau skýra sig sjálf. Með ákvæði 17. gr. er verið að reyna að ná til þess gróða, sem menn fá fyrir lönd, sem þeir hafa á leigu frá ríkinu, en leigja aftur öðrum sem lóðir fyrir hærra gjald en þeir þurfa að greiða sjálfir í leigu til ríkisins fyrir landið. En eins og menn vita, þá getur það verið algengt, að slíkt komi fyrir, að lönd séu leigð til langs tíma, jafnvel allt að 99 árum, og svo leigð út í lóðir, garða o. fl.

Það er að sjálfsögðu erfitt að ætlast á um það, hvað miklu þessi skattur geti komið til með að nema, þar sem hér er um að ræða algert nýmæli í lögum. Þá má og búast við því, að ýmsir formgallar frá lagalegu sjónarmiði geti verið á þessum kafla frv., og jafnvel á frv. í heild, þar sem hér er svo mjög farið inn á nýjar leiðir. Við flm. munum því taka fúslega við öllum upplýsingum og leiðbeiningum, sem mega verða til umbóta á því.

Hvað snertir tekjur af frv., þá höfum við gert ráð fyrir, að þær geti orðið allt að 800 þús. kr. Með því að fá slíkan tekjuauka myndi ríkissjóður geta sinnt ýmsum kröfum, sem til hans eru gerðar um aukið fé til atvinnubóta, um aukna hjálp til bænda vegna mæðiveikinnar, og til þess að bæta eitthvað úr mestu erfiðleikum smábátaútvegsins.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að frv. þetta fái að ganga til 2. umr. og fjhn., — og ekki aðeins til fjhn., heldur einnig að það komi frá henni aftur, því að þó að það sé að sjálfsögðu ánægjulegt að fá málum sínum komið til nefndar, þá er hitt þó betra, að sjá þau koma þaðan aftur. Ég tel mig nú mega hafa beztu vonir um, að vel verði á móti frv. tekið, a. m. k. af stjórnarflokkunum, þar sem fyrir þinginu liggja skattafrv. frá þeim, er leggja þungar byrðar á hinar vinnandi stéttir landsins og eru því í fyllsta máta andstæð margyfirlýstum stefnum þeirra beggja. Er því ekki óhugsandi, að þeir athugi þær leiðir, sem hér er bent á til tekjuöflunar fyrir ríkissjóðinn og eru óneitanlega meira í samræmi við yfirlýstar stefnur þeirra í skattamálum en þeirra eigin frv.

Ég vil svo enda þessi orð mín með þeirri von, að enda þótt stjórnarflokkarnir vilji ekki ganga að öllu leyti inn á þær leiðir, sem bent er á í frv., þá athugi þeir þó, hvort ekki megi nota þær að einhverju leyti.