03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (2042)

114. mál, Háskóli Íslands

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Á þessu stigi málsins þarf ég ekki miklu að svara. Ég vil aðeins geta þess út af síðustu orðum hv. flm., þar sem hann þakkaði fyrir góðar undirtektir við þetta mál, að það má hann gjarnan gera, og ég mun taka við mínum hluta af því þakklæti, en mín aðstoð við þetta mál er bundin við, að hv. flm. linist ekki upp í eintómu þakklæti. Hinsvegar skal ég láta ósagt, hvað lengi hinn aðilinn, hæstv. kennslumálaráðh., vill hlíta við þakklætið tómt.

Þetta frv., með þeim forsendum, sem að því liggja, er ekkí annað en blábert vantraust á hæstv. kennslumrh. Að hann situr undir því, er mál, sem mér kemur ekki við. Ég get bara undrazt það, hvað hæstv. ráðh. er lítilþægur.

Það eru örfá atriði, sem ég vil taka til meðferðar, en ég mun geyma mér kjarnyrðin þangað til síðar. Hæstv. ráðh. virtist espast mjög út af því, að ég lýsti þeirri aðferð, sem hann hefir látið sér sæma að viðhafa, og brá ljósi yfir það, hvernig hann hefir haldið hér á málunum, og hinsvegar hvernig háskólinn hefir komið fram, sem sé að öllu leyti l. samkv. En aðferð hæstv. ráðh. var tóm lögleysa, því að samkeppnisprófið var úrslitamál, jafnvel þó að ráðh. geti beitt öðrum brögðum og vanrækt að taka tillit til þeirra úrslita. Löglega getur hann ekki fengið annan dóm til að byggja á. Annaðhvort varð hann að fara að lögum samkv. eða eftir sinum eigin geðþótta, pólitískt eða persónulega. Þess vegna þurfti hæstv. ráðh. ekki að espast við mína ræðu, því að hann getur ekki mótmælt því, að hann fékk sér „trúnaðarmann“ sér til aðstoðar, en svo kallar hæstv. ráðh. hinn ágæta sænska fræðimann, sem hér á hlut að máli. Það á nú bara að vera kompliment, en engu að siður er orðið mjög óviðkunnanlegt í þessu sambandi. Aðferð hæstv. ráðh. var óviðurkvæmileg og hafði ekki við neinar reglur að styðjast. Úr því að hæstv. ráðh. vildi hrinda dómi nefndarinnar, var sök sér, að hann sneri sér til guðfræðideilda Norðurlandaháskólanna án alls pukurs og pólitískrar milligöngu. En pólitískur ráðh. fær pólitískan samherja sinn til þess að leita til pólitísks ráðh. í öðru landi um að velja einn mann til að hnekkja þeim úrslitadómi, sem löglega skipuð nefnd af hálfu okkar eigin háskóla hafði dæmt. „Utanstefnur viljum vér engar hafa“, verður endurómað nú og áfram, ef stjórnarvöldin gera sig sek um slíkt.

Hæstv. ráðh. leyfir sér að vega að fullkomlega löglegri dómnefnd og segir opinberlega, að hún hafi níðzt á einum keppendanna. Hvaðan kemur hæstv. ráðh. vald til að segja slíkt? Þegar hann fer að jafna saman þeim útlendu fræðimönnum, sem hafa skipt sér af þessu máli, tekur hann það fram, að Svíinn, prófessor Nygren, hafi ekkí undir nokkrum kringumstæðum getað haft átyllu til þess að beita hlutdrægni. Hvað kalla menn þetta? Ég verð að leggja báða að líku. En mergurinn málsins er sá, að hæstv. ráðh. vildi fá aðra niðurstöðu og leitaði annarar niðurstöðu. Annars er öll hans framkoma bláber vitleysa. Honum var í lófa lagið að framkvæma það, sem honum bar. En hann vildi það ekki, hann vildi freista þess að fá þá niðurstöðu, sem var eftir hans pólitíska geðþótta. Hæstv. ráðh. mátti gera það fyrir mér, ef hann hefði farið reglulega að því.

Hæstv. ráðh. vill segja, að fyrir sér hafi vakað að fá rétta niðurstöðu, og leyfir sér að vitna í „sannleikann“. Hvað er sannleikur? Ef það ætti að koma fyrir dómnefnd, hugsa ég, að hæstv. ráðh. yrði ekki heldur ánægður með þann dóm.

Hæstv. ráðh. sagði, að hann væri ekki að svívirða háskólann, heldur finna að framkomu háskólakennaranna. Þetta er eins og aðrir sleggjudómar hæstv. ráðh. og ekki á neinum rökum reist. Í þessu máli hafa háskólakennararnir farið að öllu rétt og löglega, en það er hæstv. ráðh., sem hefir vikið af þeirri braut.

Hæstv. ráðh. sagði, að hér ætti fræðimennskan að ráða, og vildi ekki neita því, að kennari guðfræðideildar ætti að geta undirbúið þjóna orðsins til starfs síns í þágu kirkjunnar. Í þessu sambandi benti hann á, að herra Sigurður Einarsson hefði hlotið vígslu hjá biskupi landsins. En það er ekki einhlítt, því að allir menn geta skipt um skoðun. Ef hæstv. ráðh. getur fullyrt, að herra Sigurður Einarsson sé ennþá sami kristni sálusorgarinn og hann var þá, gæti hæstv. ráðh. kannske haft eitthvað til síns máls. Annars er það mér að raunalausu, þó að maðurinn væri heiðinn. Það eru til fleiri afdankaðir prestar, sem játa það, að þeir heyri ekki lengur kirkjunni til.

Loks vil ég minnast á það, sem hæstv. ráðh. sagði um, að skoðanir stúdenta væru ekki mikils virði. Það liggja fyrir samþykktir frá guðfræðideild og háskólaráði og frá meiri hluta stúdenta. Hæstv. ráðh. blandar hér saman tvennu ólíku. Hann á við afleiðingar mótmælanna. Rúsínan hjá hæstv. ráðh. er það, að mótmælin hafi ekki verið meint af heilindum, því að nú hefði herra Sigurður Einarsson fengið helming stúdenta, og þar með væru mótmælin fallin. Þetta eru engin rök í málinu. Ég hefi heyrt, að stúdentar sæktu á víxl til beggja kennaranna, og mér finnst ekkert óeðlilegt, að stúdentar hafi gaman af að heimsækja nýja dósentinn. Þeir vilja hlusta á báða á tímabili. Hitt eru ólíkt sterkari rök í málinu, að stúdentar hafa beðið um að fá annan mann en herra Sigurð Einarsson.