03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (2046)

114. mál, Háskóli Íslands

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég fæ ekki séð, hvernig hv. 8. landsk. getur borið saman hæstarétt og dómnefnd. Mér finnst honum förlast lögspekin allmjög, að bera hæstarétt saman við dómnefnd, sem er skipuð af háskólaráði til að semja tillögur til ráðh. um veitingu embættis. Hæstiréttur er bundinn eiðstaf og starfar eftir ákveðnum lögum og reglugerðum, en dómnefndin er tekin til ráðuneytis við guðfræðideildina áður en tillögur eru gerðar til ráðherra. Í þessu sambandi sést, hve undirstöðulaust er tal þessara manna um utanstefnur; þeir skilja ekki, að hér er leitað álits sérfræðings, en úrskurðarvaldið liggur eftir sem áður í höndum innlendrar stjórnar. Hvað viðvíkur því, að ummæli mín um, að dómnefndin hefði níðzt á Sigurði Einarssyni, væru óviðurkvæmileg, vil ég segja, að þetta eru að vísu sterk orð og mér þykir leitt að þurfa að nota þau til að láta mína skoðun í ljós. Ég hefi áður gert grein fyrir, á hverju ég byggi þessa skoðun mína. Dómurinn um Sigurð Einarsson er þannig, að ómögulegt er að ætla, að þar sé eingöngu miðað við fræðimennsku hans viðvíkjandi úrlausnarefnunum, þegar litið er á, hvað próf. Nygren segir, sem ekki getur miðað við annað en fræðimennskuna. Þegar svo við þetta bætist, að dómsniðurstaðan er send mér án grg. og álitsgerð próf. Mosbechs um frammistöðu Sigurðar Einarssonar vandlega haldið leyndri fyrir mér þar til búið er að skipa í embættið, en í þeirri grg. eru mjög lofsamleg ummæli um vissan kafla af úrlausn hans, þá taldi ég ástæðu til að efa niðurstöðu dómnefndarinnar. Þetta veldur því, að ég leitaði umsagnar sérfræðings.

Skal ég svo ekki rökræða frekar, hvernig ég komst að hinni endanlegu niðurstöðu, til að lengja ekki þessa umr.