04.12.1937
Neðri deild: 42. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (2055)

128. mál, þangmjöl

*Eiríkur Einarsson:

Það er óþarfi að kveðja sér hljóðs vegna þess, að hér sé ekki um mál að ræða, sem er í sjálfu sér merkilegt, þar sem um er að ræða hagnýtingu efna, sem hingað til hafa verið verðlaus eða verðlitil. Þarna er um það að ræða að koma þeim til notkunar og hinna mestu nytsemda, ef heppnin er með. Að þessu leyti er þetta málefni hið merkilegasta og þess óskandi, að af því mætti eitthvað gott hljótast. Það, sem hvatti mig til að kveðja mér hljóðs og láta til mín heyra, er það, að þeir, sem standa að þessu máli og hafa á merkilegan hátt leitazt við að koma þangi til þessarar hagnýtingar, biðja um sérleyfi. Það er ekki nema eðlilegt, að þeir óski sérleyfis, og það er að nokkru leyti tekið fram í grg. frv. og að nokkru leyti tekið fram að hv. frsm., hvers vegna það sé gert. En hinsvegar vil ég taka það fram, að þar sem um svo merkilega viðleitni er að ræða eins og hér á sér stað og má segja um, að snerti alþjóðlega hagsmuni og sé stórfellt málefni, þá tel ég einkaleyfisaðferðina og jafnvel sérleyfisaðferðina varúðarverða, hversu góða viðleitni sem um er að ræða hjá hinum einstöku forgöngumönnum. Ég álit, að það standi svo á um mál eins og þetta, að það eigi á sérstakan hátt að vera forgöngumál þess opinbera og það eigi að hagnýta og lempa fram þá sérfræðikrafta, sem um er að ræða, til hagsmuna fyrir almenning. Það getur samt sem áður staðið svo á, að það sé ekki gott að komast hjá því að veita sérleyfi, enda þótt ég álíti hitt æskilegra, eins og ég drap á. Hér er farið fram á sérleyfi til 10 ára. En jafnframt því, sem það er veitt, þá vil ég sérstaklega vekja athygli á því sem minni skoðun á þessu máli, að ríkisstj. og Búnaðarfélag Íslands og aðrir opinberir aðiljar, sem hér eiga hlut að máli, hafi vakandi auga á því, að þessu sé framfylgt á þann hátt, að það sé tryggt, að framkvæmd málsins verði til nota fyrir almenning í landinu.

Það segir í 3. gr. frv. t. d., að sérleyfishafar skuli vera háðir þeim reglum, sem ríkisstj. kann að setja við veitingu sérleyfisins til að tryggja vörugæði framleiðslunnar. Gott og vel, svo langt sem það nær. En mér virðist það vera miklu meira en vörugæðin, sem kemur til greina að þurfi að tryggja af hálfu ríkisstj., jafnframt því sem þetta er tryggt. T. d. þegar talað er um hveraorku til hagnýtingar í þágu þessarar viðleitni, þá er að vísu von, að sérleyfishafar miði sérleyfisbeiðni sína við hana sem aflgjafa, sem þarna gæti komið til greina. En fleira gæti komið til greina í þeim efnum en hveraorkan. T. d. ber að gæta þess, að einhverjar mestu þangfjörur, sem um er að ræða hér við land, eru meðfram sjávarströndinni syðra, svo sem nálægt Eyrarbakka og Stokkseyri og þar í kring. Það er mikil hveraorka uppi í Hveragerði í Ölfusi, 20–30 km. veg frá þeim þangfjörum, sem ég nefndi.

En annað atriði er full þörf að drepa á í þessu sambandi, — raforkuna. Möguleikar eru til þess, að hún kunni einnig að geta komið til greina í þessu sambandi á merkilegan hátt. Nú er það kunnugt, að á þeim stöðum, sem ég nefndi, er hinn mesti áhugi meðal almennings fyrir því að hagnýta raforku frá Soginu þarna eystra. Ég segi þetta til athugunar um þetta mál, því að það er ekki ástæðulaust að athuga, hvort mundi hentugra til þessarar vinnslu, raforka, leidd til Stokkseyrar eða Eyrarbakka, eða hveraorka uppi í Ölfusi.

Mál þetta er merkilegt og verðskuldar athugun. Mér væri og kært, að við síðari umr. um þetta mál kæmi það skýrt fram, hvort hv. þm. vildu ekki setja skorðurnar um eftirlit af hálfu ríkisvaldsins með þessu dálítið fastari og ákveðnari, til þess að ,það sjáist svart á hvítu, að ríkisstj. hafi þarna hönd í bagga um framgang málsins, eftir því sem nauðsyn krefur.