08.12.1937
Neðri deild: 44. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (2062)

128. mál, þangmjöl

*Eiríkur Einarsson:

Hv. 7. landsk., sem talaði hér af hálfu iðnn., þykir um of takmarkað atvinnufrelsi þeirra, sem hér eiga hlut að máli, ef þau viðbótarákvæði eru samþ., sem felast í brtt. mínni. Ég get ekki verið sömu skoðunar og hann um þetta atriði, því ég hygg, þó að ríkisstj. sé í öryggisskyni falið í l. sjálfum að hafa íhlutun um eða samþ. vinnslustaðinn, að þá séu samt alveg yfirgnæfandi líkur til þess, að hagsmunir þeirra manna, sem eru að brjótast í þessu og eiga að fá sérleyfið, og svo ríkisstj. og almennings elgi að falla saman. Það eigi sem sé að vera um sömu hagsmuni að ræða af hálfu sérleyfishafa og ríkisstj. vegna almennings. Það er eitthvað bogið við þetta, ef þeir hagsmunir eiga ekki að falla saman. Það er einmitt það eina, sem gefur ríkisstj. ástæðu til þess að hafa íhlutun um málið, að sjá um, að stofnað sé til fyrirtækisins og það rekið á þann hátt, að það fái notið sín. Það fær því aðeins notið sín fyrir þá, sem fá sérleyfið, að það sé haganlega til þess stofnað að því er stað og önnur atriði snertir, með tilliti til þeirra, sem eiga að njóta framleiðsluvörunnar. Það er atriði, sem mér finnst, að hljóti að fara saman hjá sérleyfishöfum, ríkisstj. og Alþ. Þetta er ekki til þess að marka þeim of þröngan bás, því það er meinlaust, en aðeins viðkunnanlegra af hálfu Alþ. að láta ríkisstj. hafa íhlutun um þetta og taka það sérstaklega fram í frv., úr því í 3. gr. er verið að taka sérstaklega fram, að þeir skuli háðir reglum ríkisstj., sem hún kann að setja til þess að tryggja gæði framleiðslunnar. Þar sem verið er að taka þetta fram, þá álít ég hitt atriðið sjálfsagt líka. Þar sem hv. síðasti ræðumaður nefndi það, að þetta gæti orðið til þess að hetta framkvæmd þessara manna, þá álít ég, að fyllsta ástæða sé til, að þetta sé gert í samráði við ríkisstj., svo tryggt sé, að tillit sé tekið til þess, hvað haganlegast er fyrir almenning í landinu. Ég held, að þetta sé verulegt atriði til þess að fyrirtækið fái notið sín, enda sjálfsagt, að ríkisstj., sem veitir leyfið, hafi hönd í bagga um það, hvar stofnað er til fyrirtækisins, og þá líka sjálfsagt að taka það fram í lögunum.