06.12.1937
Neðri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (2070)

129. mál, hæstiréttur

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Ég held, að þetta sé í þriðja sinn, sem ég gerist flm. eða meðflm. að frv. shlj. þessu, svo að það er orðið kunnugt í hv. d. og þarf ekki að fara um það mörgum orðum. Aðaltilefni frv. er að leiðrétta það misrétti gagnvart 2. einkunnar lögfræðingum, sem þeir hafa orðið fyrir, þar sem þeim er meinað að flytja mál fyrir hæstarétti. Við, sem stöndum að frv., lítum á þetta sem óréttlæti, og munum ekki einir um þá skoðun, að það sé ekki trygging fyrir hæfni, dugnaði og þekkingu manna, þótt þeir geti náð fyrstu einkunn við próf í einhverjum skóla, jafnvel þótt um embættispróf sé að ræða. Dæmi þess eru mörg og ljós, að þótt menn hafi hlotið 2. einkunn við embættispróf í ýmsum greinum, hafa þeir orðið hinir nýtustu menn, og lögfræðingar eru engar undantekningar í þessu efni, enda vitað, að margir annars flokks lögfræðingar hafa orðið með mestu athafna- og dugnaðarmönnum, og má sjá dæmi þess í grg. frv. Sömuleiðis hafa þeir annars flokks lögfræðingar, sem hafa fengið leyfi til þess að flytja mál fyrir hæstarétti, sýnt engu mínni dugnað en hinir. Enda er vitað, að það er ætíð dugnaður og hæfni manna, sem gerir þá að mikið sóttum málafærslumönnum, en ekki það, hvernig próf þeir hafa tekið við embættispróf. Það eru ekki heldur hliðstæð dæmi þessu í lögum um neina aðra embættismenn. Ég held, að prestar geti orðið biskupar og prófastar, hvaða einkunn sem þeir hafa tekið við embættispróf. Sama held ég, að sé um lækna, og ég gæti hugsað mér, að hefði Niels Finsen verið uppi nú, hefði hann verið gerður að dósent við háskólann, þótt hann væri hinn mesti prófskussi. Það er engin sönnun fyrir því, að maður sé ekki hæfur til að vera hæstaréttarmálaflm., þótt hann hafi ekki tekið fyrstu einkunn við embættispróf. Það er enginn mælikvarði á hæfni manns, hvort hann er rétt fyrir ofan eða neðan þá merkjalínu, sem skilur á milli fyrstu og annarar einkunnar. Ég held því, að hvernig sem á mál þetta er litið, þá mæli öll sanngirni með því, að 2. einkunnar mönnum í þessari fræðigrein sé gefinn kostur á að reyna sig í lífinu eins og öðrum.