06.12.1937
Neðri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (2074)

129. mál, hæstiréttur

*Bergur Jónsson:

Það voru aðallega ummæli í ræðu hv. 8. landsk., sem fengu mig til að kveðja mér hljóðs í þessu máli. Það rauk út úr honum setning, sem bezt hefði verið fyrir þm., að væri ósögð. Hann sagði, að hann þekkti engan mann, sem væri svo heimskur, að hann gæti ekki staðizt lögfræðipróf, en svo bætti hann úr því með að segja, þeir sem á annað borð hefðu tekið stúdentspróf. Ég held reyndar, að þetta hafi meira verið mismæli af hendi hv. þm., því það er heldur óviðkunnanlegt, að hann, sem er hæstaréttarmálaflm. og mun ekki telja sig af þeim lakari í þeim hóp, hvað ég skal ekki gera heldur, skuli hafa yfir ummæli sem þessi, og mætti misskilja þau af sumum öðrum í þessari fræðigrein, sem þó hefir fleytt honum áfram hingað til. Mín skoðun er sú, að yfirleitt geri sú fræðigrein eins miklar kröfur til rökréttrar hugsunar hjá mönnum og hver önnur, og það er áreiðanlega ekki hægt að verða góður lögfræðingur nema hann hafi frá náttúrunnar hendi sæmilegar gáfur til að hugsa rétt. Hitt er rétt, að margir, sem taka lögfræðipróf, ná því vegna mikillar elju við námið.

Ég ætlaði aðallega að setja ofan í við þennan hv. stéttarbróður minn fyrir þessi gálausu ummæli hans, sem munu hafa verið töluð af óvarkárni.

Svo ég snúi mér að frv. sjálfu, virðast þeir hv. þm., sem hafa rætt það, ekki hafa tekið eftir, að 1. einkunnar skilyrðið er ekki eingöngu afnumið fyrir hæstaréttarmálaflm., heldur líka fyrir dómara. Ég býst við, að jafnvel flm. sjálfum muni finnast hér of langt gengið. Hvað sem segja má um skilyrðið fyrir hæstaréttarmálaflm., þá er enginn vafi á því, að það verður að binda sem mestum skilyrðum og tryggja sem bezt, að dómarar verði ekki aðrir. menn en þeir, sem eru sérstaklega vel að sér í lögfræði og sérstaklega reyndir að því að geta beitt henni rétt, enda býst ég við, að hv. flm. muni ekki halda fast við þann hluta frv., sem við kemur dómurunum. Annars sé ég ekki ástæðu til að meina mönnum að verða hæstaréttarmálaflm., sem að öðru leyti geta fullnægt settum skilyrðum, þótt þeir hafi ekki náð 1. einkunn við lögfræðipróf, því ég játa, að reynslan sýnir, að margír menn, sem hafa tekið 2. einkunn, eru alveg eins hæfir og „laudistarnir“ svokölluðu, enda þyrftu þeir að hafa sýnt það með undangenginni reynslu. Það getur líka verið, að menn, sem hafa fengið 2. einkunn, afli sér meiri þekkingar og reynslu síðar meir en þeir, sem hafa fengið 1. einkunn.

En það, sem er athugavert í þessu sambandi, eins og hæstaréttarmál eru takmörkuð, er að leyfa svo miklum fjölda manna aðgang að þeim, og er það rétt, sem hv. 8. landsk. tók fram, að þeir myndu þá flækjast hver fyrir öðrum, og engin trygging er fyrir því, að almenningur kunni skil á, hverjir eru færir og hverjir ekki, og geta því eins sótt til þeirra lakari eins og þeirra betri. Ég álít, að vel þurfi að binda um hnútana, til að sjá um, að sem færastir menn veljist í þessa stétt og að hún verði ekki of margmenn. Verið getur, að eins heppilegt sé að setja þrengri skilyrði en nú eru í lögum til að menn fái rétt til að flytja mál fyrir hæstarétti, svo sem lengri starfstíma við lögfræðistörf, eða að menn hafi á annan hátt sýnt hæfni sína sem ljósast. Ég vil geta þess, að í öðrum menningarlöndum eru það ekki nema úrvalsmenn, sem eru hæstaréttarmálaflm., og miklar kröfur gerðar til þeirra; þeir þurfa að vera sérstaklega vandaðir og þekkingarmiklir á allan hátt.

Samkvæmt því, sem ég hefi þegar sagt, hefi ég ekki á móti því, að málinu sé vísað til n. og reynt að athuga til hlítar, hvort ekki má draga eitthvað úr þeim þröngu skilyrðum um 1. einkunn, sem nú gilda, og setja þá aðrar hömlur í staðinn. En undantekningin, sem þarna verður, er, að maður hafi sýnt sérstaka hæfileika sem fróðleiksmaður í þessu efni eða fyrir lögfræðistarf að öðru leyti. Getur talsverður hópur manna fullnægt þessu skilyrði, því að það er ekki bundið víð einkunn, heldur getur maður sýnt með dugnaði sínum, eftir að prófi er lokið, hæfni sína til lögfræðistarfa.