09.12.1937
Neðri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (2081)

132. mál, vitabyggingar

*Emil Jónsson:

Enda þótt þetta frv. sé svo seint fram komið, að litlar líkur séu til þess, að það nái afgreiðslu á þessu þingi, finnst mér rétt að fara um það nokkrum orðum strax.

Í grg. segir, að aðalbreyt. frv. sé við 9. gr. vital., þannig að samkv. þeirri breyt. séu ákveðnir nýir vitar, en þeir færðir, sem ekki hafa verið ákveðnir á hentugum stöðum. Ég skal upplýsa, að þegar vital. voru samin 1933, var það eftir till. n., sem skipuð var 1930. Í n. áttu sæti auk vitamálastjóra 5 skipstjórar, og þar af var forstjóri Skipaútgerðarinnar einn, en hann er þaulreyndur skipstjóri og þekkir strendur landsins vel. Ennfremur voru í n. forseti Fiskifél. og svo togaraskipstjóri. N. þessi samdi frv., en það náði ekki samþykki fyrr en 1933. En hvernig þessari n., sem skipuð var 1930 til að gera till. um þessi mál, hefir tekizt starf sitt, sést bezt á því, að við endurskoðun l. hefir hv. 6. þm. Reykv. aðeins fundið 3 nýja vita, til að bæta við, af þeim 63, sem taldir eru upp í því frv., sem hann ber hér fram. Þetta hugsa ég, að séu þau sterkustu rök, sem hægt er að fá fyrir því, að n. hafi ekki kastað höndunum til síns starfs og gert það sem bezt. Það er vitanlega alltaf skoðanamunur um einstök atriði, en þegar sá skoðanamunur er ekki meiri en þetta, tel ég mjög veigalitla ástæðu fyrir því að bera fram slíkt frv. og þetta. Auk þessara þriggja nýju vita, sem þarna eru nefndir, eru í frv. till. um breyt. á fjórum stöðum, og þær eru allar, að því er mér skilst, á þann hátt, að þær hefði mátt framkvæma, þótt engin breyt. hefði komið til, því eins og hv. þm. veit, stendur í 10. gr. núgildandi vitamálalaga, að ráðh. sé heimilt að breyta legu þeirra, ef það þyki hentugt, svo að breyt. þessara 4 vita krefst ekki lagabreytinga, heldur er ráðh. heimilt að gera hana án þess að lagabreyt. komi til. Ég tel þetta því sýna það — og ég er ánægður með það –hversu vel vitalögin eru upphaflega úr garði gerð, að eftir svo nákvæma endurskoðun og hér hefir farið fram, hefir Farmannasamband Íslands og hv. 6. þm. Reykv. komið sér saman um að bera fram till. um 3 nýja vita. Og þessir 3 nýju vitar, sem þarna eru nefndir, undir Söðli við Skorarhlíð, á Bálkastaðanesi og á Sauðanesi, eru vitar, sem sjálfsagt verða ekki byggðir alveg á næstunni, vegna þess, að það eru svo fjölmargir aðrir af þessum 60 hinum, sem þurfa bráðari aðgerða við en einmitt á þessum stöðum. Ég tel þess vegna alls ekki aðalatriði frv. þessa framkomnu breyt. á 9. gr., heldur hitt, að í 1. gr. er tekinn upp nýr aðili, sem á að ráðgast við um, hversu mikið fé skuli veitt úr ríkissjóði til vitamála. Þessi aðili er Farmannasamband Íslands, sem ég þekki ekki neitt verulega til, en ég fyrir mitt leyti hefi sízt á móti að fá till. frá um þessi mál, og ég ætla, að það hafi aðstöðu til að geta gert gagnlegar till. um þetta. En mér virðist óviðurkvæmilegt, hvernig þetta ber að, hvernig það vill láta taka sig inn. Það vill láta taka sig á þann hátt, að þurrka áhrif Fiskifélagsins út. Þetta tel ég mjög óheppilegt. Nú sem er, er það formaður Fiskifélagsins og skólastjóri stýrimannaskólans, sem gera till. um þetta. En samkv. frv. er það formaður Farmannasambands Íslands og forstöðumaður stýrimannaskólans í Rvík., m. ö. o., forseta Fiskifélagsins sleppt.

Nú er mér kunnugt um það, að fiskifélagsdeildirnar úti um land hafa látið málið mikið til sín taka, og stj. félagsins hér í Reykjavík berast oft till. um breyt. og byggingar á vitum, og þess vegna væri það í mesta máta óheppilegt, frá mínu sjónarmiði, að útiloka Fiskifélagið frá öllum afskiptum og áhrifum á þessi mál. Ég tel því heppilegra, ef áhrifa Farmannasambandsins á að njóta í þessum málum, að það komi til viðbótar og að hinir aðiljarnir, sem fyrir eru, forseti Fiskifélagsins og skólastjóri stýrimannaskólans, hafi áfram sinn till. rétt. Ég hefi síður en svo á móti því, að þarna komi fleiri til, svo að þær till., sem gerðar eru, séu ræddar frá fleiri hliðum og verði sem bezt úr garði gerðar, en ég vil ekkí, að það verði til þess að útiloka neinn aðilja, sem þarna hefir verið áður.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um frv. Ég geri ráð fyrir að fá aðstöðu til að tala við n., sem fær þetta mál til meðferðar, og mun ég láta henni í té mitt álit á frv. Ég geri ekki ráð fyrir því, þó að hv. 6. þm. Reykv. flytji þetta frv. án þess að hafa borið það undir mig, að n. vildi afgr. það án þess að leita umsagnar vitamálaskrifstofunnar um það. Ég skal geta þess líka, að ég hefi þann stutta tíma, sem ég hefi verið við þetta starf, farið í gegnum l. og reglurnar, sem um þetta gilda, og hefi ég gert nokkur drög að breyt. á þessum l. og eldri l. um öryggi á sjó, og tel ég, að það færi vel á því að sameina þau í eina heild og að l. um vitamál væri breytt í fleiri atriðum en þarna kemur fram. Ég get nefnt eitt dæmi. Hér í Reykjavík og annarsstaðar líka eru auglýsingaljós, sem geta haft villandi áhrif á siglingar manna hér við land. Væri sjálfsagt að taka upp ákvæði í l., sem heimiluðu ríkisstj. að banna slík ljós, sem gætu orsakað það, að menn villtust á þeim og vitum, enda fleiri atriði, sem þyrfti upp í þessi 1. að taka. En eins og ég sagði áðan, geri ég ekki ráð fyrir því, að þetta frv. gangi fram á þessu þingi, en tel þá aðalbreyt. frv., sem fer fram á, að það verði teknir fleiri aðiljar til ráða um vítabyggingar, vel þess verða, að hún sé athuguð, og það er jafnvel hægt að segja, að á þessu stigi málsins væri æskilegt, að það kæmu áhrif einnig frá þessum aðilja um það, hvernig vitar eru byggðir. En ég tel, að það séu ýms atriði fleiri, sem þarna þurfa að koma inn, Og þess vegna vænti ég að fá tækifæri a. m. k. til þess að hafa tal af n. eða gera henni grein fyrir mínu áliti, áður en hún afgr. þetta mál frá sér.

Hv. þm. minntist á Málmeyjarvitann sérstaklega og taldi, að með byggingu hans væri getin full ástæða til að flytja frv. um þessi mál; hann hefði verið byggður á óheppilegum stað. Ég skal ekkert um það segja, því sú staðarákvörðun var gerð áður en ég kom þar að, en ég tel þó, að þetta hafi verið gert í samráði við þá venjulegu aðilja, og eftir því. sem ég hefi frekast kynnt mér þetta mál, að vitinn uppfylli þær kröfur, sem til hans eru gerðar. Byggingu vitans er nú fulllokið, og þarf því ekki að flytja frv. þess vegna.

Hvað legu vitans snertir er það að segja, að það hagar þannig til á eyjunni, að vitinn getur ekki sézt alstaðar frá. Nyrzt á eyjunni sést hann ekki sunnan frá og syðst á eyjunni sést hann ekkí norðan frá. Þetta er atriði, sem hver og einn verður að gera upp með sjálfum sér. Þeir, sem ákváðu staðinn, töldu vitann bezt kominn sunnan til á eyjunni. En ég vil taka það fram. að þessi ástæða þarf ekki að verða til þess, að frv. þurfi að ganga í gegn. Samkv. gömlu l. var fullkomin heimild til þess að byggja vitann norðarlega sem sunnarlega á eyjunni, eða á Straumnesi, því þar er svo ákveðið, að ráðh. sé heimilt, eftir till. vitamálastjóra, að breyta legu vitanna.

Ég er hv. þm. sammála um það, að vitagjaldið ætti að sjálfsögðu að renna til byggingar nýrra vita og til rekstrar þeirra og viðhalds. En ef gert er upp frá upphafi. hvernig þessu fé hefir verið varið, þá er það að vísu svo nú, að vitagjaldið er ekki allt notað á þennan hátt, en það hefir líka stundum verið varið meira fé til vita en kom inn fyrir vitagjaldið, og hefir þetta því stundum verið til annarar handarinnar og stundum til hinnar. Og þegar um stórar vitabyggingar er að ræða, getur komið fyrir, að vitagjaldið það ár nægi ekki fyrir útgjöldunum, og þá er ekki nema eðlilegt og sanngjarnt að láta þeim mun mínna fé til þessara hluta næsta ár. En sanngirniskrafa er það, að vitagjaldið í heild, tekið frá því, er það var fyrst lagt á, og þangað til nú, eða tilsvarandi upphæð, verði notað til þessara mála.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. Ég er samþykkur því „principi“, sem ég álit höfuðatriði frv., að nýr aðili sé tekinn til ráða um þessi mál, og ég vildi mega vænta þess, að þó hv. flm. hafi ekki leitað til vitamálaskrifstofunnar um þessi mál, þá geri n. það.