09.12.1937
Neðri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (2083)

132. mál, vitabyggingar

*Emil Jónsson:

Það eru örfá orð, sem ég ætla að segja, því ræða hv. 6. þm. Reykv. gaf ekki tilefni til mikilla andsvara.

Ég vil aðeins geta þess, að ég fer alveg eins nærri um það og skipstjórar á strandferðaskipum, hvort Málmeyjarvitinn er fullbyggður. Ljósið hefir ekki enn verið sett í hann, en húsið er fullgert að öllu leyti.

Hvað því viðvíkur, að aðalbreyt. á vitalögunum — eins og hv. flm. vildi halda sig við — fælist í 3. gr. frv., sem er breyt. á 9. gr. l., þá vil ég aftur halda mig við það, sem ég sagði áðan, að ég tel ekki, að þær breyt., sem koma fram í þeirri gr., séu eins veigamiklar og sú breyt., sem er í 1. gr. frv., um það, hverjir eigi að gera till. um þessi mál, því þeir 3 vitar, sem nefndir eru nýir í frv., eru sjálfsagt nauðsynlegir, — ég hefi áður kynnt mér tvo þeirra og veit þeir eru það, — en þarna er ekki nefndur viti, sem fyrst af öllu hefir verið nefndur, þegar um breyt. á vitalögunum hefir verið að ræða: það er viti á Þormóðsskeri, sem slysið á „Pour-quoi-pas“ er tengt við. Það er mál manna, sem þarna eru kunnugir, að viti á þeim stað sé ákaflega nauðsynlegur, og kannske nauðsynlegri heldur en allir þeir 3 nýju vitar, sem nefndir eru í frv. Ég skal geta þess einnig, að það hefir verið talið svo sjálfsagt, að þessi viti væri tekinn inn í l., að það hefir þegar verið gerð teikning á skrifstofunni af vita á þessum stað. Það er því síður en svo, að þeir þrír nýju staðir, sem nefndir eru í 3. gr. frv., séu neitt aðalatriði í breyt. þessara l., og m. a. vegna þess, að ég tel, að enginn þeirra komi til framkvæmda alveg á næstunni; það séu svo fjölmargir aðrir nýir vitar, sem séu nauðsynlegri.

Þá sagði hv. 6. þm. Reykv. m. a., að ekki væri að búast við því, að vitamálaskrifstofan sjálf tæki sér fram um breyt. á vitunum. Þessi ummæli stafa af vanþekkingu hv. þm. á þessu máli. vitamálastjórnin hefir t. d. í þjónustu sinni skip með skipstjóra, þessum málum manna kunnugastan. Þá er og skólastjóri stýrimannaskólans hinn siglingafróðasti maður. Skipstjóri vitaskipsins tekur eftir öllum breyt. á siglingaleiðum og segir frá þeim á vitamálaskrifstofunni. Að vísu eru ferðir þessa skips ekki eins tíðar og ferðir strandferðaskipanna, en þó nægilega tíðar til þess að koma að gagni í þessu efni. Þá vil ég og geta þess, að sá maður, er stendur hér fyrir sjómælingum, Friðrik Ólafsson, forstöðumaður stýrimannaskólans, er í þjónustu skrifstofunnar. Því fylgist skrifstofan mjög vel með því, hverra breyt. vitakerfið þarfnast, enda koma margir sjómenn þangað ótilkvaddir og láta í ljós álit sitt um breytingar.

Þá hélt hann því fram, að félag farmanna væri hér réttari aðili en Fiskifélagið. Ég get fyrir mitt leyti vel unað því, að þessir aðiljar séu gerðir jafnréttháir. Smáútvegsmenn hafa hér líka hagsmuna að gæta. Þótt Fiskifélagið hafi hér ekki öðrum á að skipa en manni, sem unnið hefir á togara og fengizt síðan við skrifstofustörf, verður að líta á það, að félagið fær ýms mikilsverð gögn í hendur.