14.12.1937
Neðri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (2088)

136. mál, viðgerðir á skipum

*Flm. (Ísleifur Högnason):

Frv. líkt þessu var flutt á þingi 1936 og fyrra þingi 1937 af Páli Þorbjörnssyni, en náði ekki fram að ganga, og leyfi ég mér að vísa til þeirrar grg., er því fylgdi 1936. — Er það eftir tilmælum járniðnaðarmanna hér í Reykjavík, að þetta frv. er hér borið fram í þriðja skipti.

Ég hefi athugað umræðupart þingtíðindanna frá 1936, þegar málið var fyrst til umr. í þessari hv. d., og sé ég þar, að frv. hefir átt andmælanda, sem var Jón heitinn Ólafsson. Hann taldi það mikið óhagræði fyrir togaraútgerðina að láta framkvæma viðgerðir skipa hér heima, vegna þess að það tæki allt að því helmingi lengri tíma heldur en erlendis, og þar að auki væri það þriðjungi dýrara. En það er áreiðanlegt, að síðan 1936 hefir aðstaðan hvað þetta snertir að nokkru breytzt. Í fyrsta lagi hafa þeir járnsmiðir, sem hér starfa, aukið og fullkomnað sín tæki, enda hafa þegar verið framkvæmdar hér nokkrar viðgerðir á togurum. Og í öðru lagi er nú raforkan komin til sögunnar, sem hlýtur að gera skipaviðgerðir bæði auðveldari og ódýrari. Það, sem aðallega tefur viðgerðir hér eins og sakir standa, er vöntun á heppilegri dráttarbraut og sterkum krana, til þess að flytja járnplötur og vélahluti úr skipunum og í þau aftur. En menn, sem þessum málum eru kunnugir, segja, að ef það væri tryggt, að stál- og járnsmiðjur hér á landi fengju að sitja einar að þeim viðgerðum, sem fram þurfa að fara, og ekkert væri leitað með þær út úr landinu, þá mundu þessi tæki samstundis verða útveguð, og þá er ég sannfærður um, að viðgerðirnar yrðu ekki dýrari heldur en erlendis, nema ef til vill sem svaraði þeim kostnaði að flytja járnið frá útlöndum. En þess er þó að gæta, að þetta járn, sem til smiðanna þarf, mætti flytja á sjálfum botnvörpuskipunum hingað til lands, þannig að sá kostnaður hyrfi.

Þá hefir því verið haldið fram, að við eigum ekki jafngóðum járnsmiðum á að skipa og Englendingar. En það er mál manna hér, að erlendar viðgerðir séu mun ótryggari heldur en þær, sem framkvæmdar hafa verið hér á landi. Annars hefi ég ekki fyrir mér ábyggilegar heimildir um það. En ég hefi heyrt, að það sé aðallega einn maður hér, sem standi fyrir viðgerðum íslenzkra skipa erlendis, og að hann sé umboðsmaður þeirrar verksmiðju, sem viðgerðirnar tekur að sér. Samkv. kostnaðaráætlun þessarar verksmiðju eru skipaviðgerðir þar mun ódýrari heldur en tilboð járnsmíðanna hér, en aftur á móti hefir það komið á daginn, eftir því sem mér hefir verið sagt, að iðulega er ekki framkvæmt nærri allt, sem tilboð var gert um. — Mér þætti vænt um að fá upplýsingar um það, hvort þetta sé rétt, og eins hvort þessi umboðsmaður eigi hlut í þeim verksmiðjum í Shields, sem viðgerðir þessar framkvæma.

Um hina þjóðhagslegu hlið þessa máls er það að segja, að samkv. skýrslum, sem formönnum flokkanna hafa verið afhentar hér á Alþ. um áætlaðan rekstrarkostnað togaranna á næstu vertíð, er viðhald þeirra 965 þús. kr. og flokkun 475 þús. kr. M. ö. o., til viðgerðar, viðhalds og flokkunar skipanna fer árlega nærri 1½ millj. kr. Ég hefi nú ekki áreiðanlegar upplýsingar um það, hvað mikið af viðhaldi skipanna er framkvæmt hér á landi, en mikill meiri hluti þess hlýtur að vera framkvæmdur erlendis.

Ég hygg, að ég hafi þá fært rök fyrir því, að það muni vera hagkvæmara fyrir alla aðilja, bæði togaraeigendur og eins verkalýðinn, að fá viðgerðir skipanna inn í landið. Vil ég því leyfa mér að vænta þess, að frv. fái góðar undirtektir og verði vísað til sjútvn. að lokinni þessari umr.